27.10.1966
Neðri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um veitingu ríkisborgararéttar hefur verið undirbúið af dómsmrn. með sama hætti og tíðkazt hefur að undanförnu, og er gerð grein fyrir því í aths. við frv., að umsækjendur þeir, sem teknir hafa verið á lagafrv., fullnægja allir þeim skilyrðum, sem sett voru af allshn. beggja þd. í nál. á þskj. 507 á 86. löggjafarþingi 15. apríl 1966. En um það er rétt að taka fram, að núna um það bil áratug eða frá 1955 hefur Alþ, fylgt nokkuð föstum reglum í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar. Samkv. stjórnarskránni má veita ríkisborgararétt með lögum, og að því leyti er þingið óbundið, en eins og fram kemur í þessu nál. á s.l. þingi, settu allshn. beggja d. fram í nál. 17. maí 1955 vissar meginreglur, sem síðan hefur í stórum dráttum verið farið eftir með lítils háttar breytingum, en þær eru í aðalatriðum eftirfarandi:

1. Umsækjandi hafi óflekkað mannorð og sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfshæfur og vel kynntur, þar sem hann hefur dvalizt.

2. Útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, skulu hafa átt hér lögheimili í 10 ár, Norðurlandabúar í 5 ár.

3. Karl eða kona, sem giftist íslenzkum ríkisborgara, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu frá giftingu, enda hafi hinn íslenzki ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en 5 ár.

4. Erlendir ríkisborgarar, sem eiga íslenzka ríkisborgara að foreldri, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu, ef annað foreldri er Norðurlandabúi, annars eftir 5 ár.

5. Íslendingar, sem gerzt hafa erlendir ríkisborgarar, fá ríkisborgararétt eftir eins árs búsetu.

6. Íslenzk kona, sem misst hefur ríkisfang sitt við giftingu, en hjónabandinu er slitið og hún hefur öðlazt heimili hér, fái ríkisborgararétt á fyrsta dvalarári hér, enda lýsi hún yfir, að hún ætli að dveljast áfram í landinu. Og sama gildir um börn hennar, sem hafa ekki náð 16 ára aldri og henni fylgja.

Þetta eru meginreglurnar, sem farið hefur verið eftir. Samt leiðir það ekki af hlutarins eðli, að þeir, sem uppfylla þessi skilyrði, eins og t, d. Íslendingur, sem gerzt hefur erlendur ríkisborgari, fái ríkisborgararétt eftir eins árs búsetu, heldur þarf að veita honum ríkisborgararéttinn að sjálfsögðu með lögum, og þá er það verkefni þingsins á hverjum tíma að gæta þess, hvort einhverjir aðrir meinbugir kunni að vera á, sem hindruðu, að rétt væri, að Alþ. veitti ríkisborgararétt, enda þótt þessum meginreglum sé fylgt.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.