27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. er komið til þessarar hv. d. eftir venjulegum leiðum. Frv. um veitingu ríkisborgararéttar eru undirbúin í dómsmrn. og síðar, þegar að þinghaldinu kemur, send þinginu eða lögð fyrir þingið, eins og þetta frv. var lagt fyrir þingið í öndverðu þingi. Síðan hefur því verið vísað til allshn., venjulega í Nd., en samráð höfð á milli allshn. Nd. og Ed. um meðferð málsins, og ég hygg, að formaður allshn. þessarar hv. d. hafi fylgzt með meðferð þessa máls hjá allshn. Nd.

Það hefur verið fylgt við afgreiðslu málsins hefðbundnum reglum hér, eins og gerð er grein fyrir og ég þarf ekki að rekja fyrir hv. þm., mönnum eru þær svo kunnar, gerð grein fyrir þeim í grg. frv.

Það kunna að vísu að berast, eins og stundum hafa átt sér stað, enn fleiri tilmæli um veitingu ríkisborgararéttar, áður en þingi lýkur. Þá geri ég ráð fyrir, að allshn. þessarar hv. d. mundi hafa samráð um það mál við allshn. Nd. og þá dómsmrn., ef þætti ástæða til.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.