16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við hv. 3. þm. Reykv. höfum oft deilt, bæði hér á Alþ. og annars staðar. Þó hélt ég ekki, að við ættum eftir að deila um það, hvor væri meiri íhaldsmaður. En sannleikurinn er sá, að ég er honum algerlega sammála um það, að við eigum að varðveita hina gömlu íslenzku nafnahefð, bæði með því móti að nota ekki ættarnöfn og með hinu mótinu að láta öll nöfn, sem Íslendingar bera, lúta lögmálum íslenzkrar tungu. Um þetta erum við algerlega sammála. Það, sem okkur greinir á um, er, hversu hratt eða hversu skynsamlega við eigum að nálgast þetta mark. Ég er alveg sammála honum um það, að niðjar þessara manna allra saman eiga að bera íslenzk nöfn, þannig að þeir, sem verða Íslendingar í framhaldi af því, að þessum mönnum er veittur ríkisborgararéttur, eiga allir saman að bera íslenzk nöfn. Hins vegar finnst mér það of harkalegt, ósanngjarnt, ganga allt of nærri persónulegum og réttmætum réttindum manna, persónuréttindum manna, að knýja fullorðna menn til þess að skipta um nafn á miðjum aldri. Og sérstaklega finnst mér ranglætið vera augljóst og harkalegt, þegar um er að ræða nöfn, sem fjöldi, tugir, hundruð manna í landinu þegar heita. Í hópi þessara 54 manna eru menn, sem bera nöfn, sem aðrir menn mega bera algerlega óáreittir og engum dettur í hug að knýja til þess að skipta um nöfn. Hér er t.d. Hansen, Jacobsen, Jensen, Olsen, Olsson, Pedersen, Rasmussen, Vilhelmsen. Öll þessi nöfn eiga þeir, sem þau bera nú, að segja skilið við. Þetta fólk á ekki að mega heita Jensen, Olsen, Jacobsen, Hansen o.s.frv., þó að aðrir menn í landinu megi heita Hansen, Jensen, Olsen, Pedersen og þar fram eftir götunum. Hér er fólki gert svo hróplega mishátt undir höfði, hér er um svo hróplegt misrétti að ræða, að mér finnst það ekki vera viðunandi og Alþ. ekki til sóma að ganga þannig frá málum. (EOl: Það mætti banna hina Hansenana þá líka.) Ja, um það hefur engin till. komið fram. Það gæti ég skilið, ef menn vildu gera það. Það væri a.m.k. hrein lína. Mér finnst það ósanngjarnt að láta mig skipta um nafn nokkurn tíma. En það væri sök sér, ef Alþ. vildi í einu lagi ákveða: Það má enginn heita útlendu nafni á Íslandi, hvorki Hansen, Jensen, Olsen, Jacobsen né bara nokkurt annað útlent nafn. Hv. þm. er ekki svo mikill íhaldsmaður að bera fram till. um það. Þarna skortir hann heilbrigða íhaldssemi. Það gæti ég skilið, ef hann hefði þá skoðun. En meðan hann hefur ekki kjark í sér til þess, meðan hann er ekki svo rótgróinn íhaldsmaður að vilja banna öllum Hansenum og Olsenum að bera slíkt nafn, finnst mér vera hálfvelgja íhaldssemin hjá honum. Og það er það, sem mér geðjast ekki að, og þess vegna vil ég leita að einhverri annarri leið út úr þessum vanda, þeirri leið, sem ég stakk upp á áðan, og vil þó ekki knýja fram neina atkvgr. um það nú, heldur fara „hina leiðina“ í þessu efni, sem aldrei þessu vant er nú skynsamleg, að skipa n. í málið.

Ég vil vekja athygli á einu í þessu tilfelli, sem er alveg sérstaklega viðkvæmt og vandasamt mál. Frú ein, sem sækir um ríkisborgararétt, heitir því ágæta nafni Briem. Ég get ekki betur séð en eftir lagabókstafnum þurfi hún að leggja það nafn niður, hún megi ekki heita Briem. Það getur ekki samrýmzt íslenzkum mannanafnalögum, að útlendur ríkisborgari heiti áfram Briem, því að í þeim skilningi verður nafnið ekki talið íslenzkt, ekki löglegt eftir mannanafnalögum á þessari manneskju. Þó er það löglegt í tugum, ef ekki hundruðum annarra tilvika. Tugir, ef ekki hundruð íslenzkra manna, ágætra ríkisborgara, heita Briem með sóma, ein af virðulegustu og elztu ættum landsins. En hér kemur svo umsækjandi, sem líka heitir Briem, eflaust með fullkomnum rétti við sína skírn, en verður að segja skilið við nafnið. Þetta er kannske gleggsta dæmið um það, á hve miklum villigötum Alþ. er í þessu efni. En jafnframt er þetta glöggt dæmi um, hversu vandmeðfarið þetta mál allt saman er, hversu óskaplega vandmeðfarið og viðkvæmt þetta mál allt saman er, og þess vegna held ég, að við eigum ekki að ganga til atkv. um það, sem okkur greinir á um um þetta núna, hv. 3. þm. Reykv. og mig og marga hv. þm. aðra. Við eigum ekki að ganga til atkv. um þetta núna. Við eigum að láta þann hátt, sem gilt hefur um þetta efni í mörg undanfarin ár, gilda áfram, a.m.k. fram að næsta þingi, og athuga málið mjög vandlega, þangað til Alþ. kemur saman næst, og það er það, sem tilgangur minn er með þeirri nefndarskipun, sem ég boðaði.