16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég er mjög svo sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að við eigum að vera mjög íhaldssamir í þessum efnum, og ég vil telja, að við eigum að halda okkur fast við þau ákvæði, sem hafa staðið í þessum l. á undanförnum árum og enn er lagt til að séu samþ. nú með þessu frv., að þeir, sem hljóta ríkisborgararétt, eigi að færa nafn sitt til íslenzks háttar og máls. Ég lít svo á, að sá mikilsverði réttur, sem þessir menn fá með því að verða íslenzkir ríkisborgarar, sé ekki of dýru verði keyptur með því að færa nafn sitt til íslenzkrar tungu. Það eru t.d. þeir, sem heita Olsson og Pedersen, eins og ráðh. minntist á, ég sé ekki, að það ætti að vera nein raun fyrir þá að kalla sig, eftir að þeir eru orðnir íslenzkir ríkisborgarar, Ólafssyni og Péturssyni. Það getur að mínum dómi ekki breytt miklu fyrir þá. Þetta er nú kannske út af fyrir sig allt í lagi með þá, sem heita Olsson og Pedersen. Þau nöfn geta nokkurn veginn verið borin fram og skrifuð. En vildi t.d. hæstv. menntmrh. lesa fyrir mig nafnið á nr. 2 í þessu frv. eða nr. 77 Ég treysti mér ekki til þess, og aldrei mundi ég geta lært að skrifa nöfn þessara manna, og mundi það jafnvel ekki særa þessa menn fullt svo mikið, ef nöfn þeirra böggluðust í munni mér og ég ritaði þau öll skökk og vitlaus, eins og það, þó að þeir þyrftu að láta af þessum nöfnum, sem samborgarar þeirra koma aldrei til með að geta borið fram eða munað að rita?

Hæstv. ráðh. gat þess réttilega, að það væri til, að börn væru skírð af okkur íslenzku prestunum nöfnum, sem ekki væri heimilt að skíra. Þetta er alveg rétt. Þetta hefur komið fyrir og kemur eflaust fyrir enn þá. Þó hygg ég, að það sé minna um það nú á dögum heldur en áður var, og ég veit t.d. hvað mig áhrærir, að þá hefur það eitthvað þrisvar sinnum komið fyrir, að ég hef neitað að skíra barn því nafni, sem foreldrarnir óskuðu eftir. Það urðu engin leiðindi út af því, það varð um það gott samkomulag. En eftir því sem ég held og mig minnir, er það ákvæði til í mannanafnalögunum, að heimspekideild háskólans hafi átt að gefa út skrá yfir þau íslenzk nöfn, sem prestum væri heimilt að skíra eða gefa börnunum. ég hef aldrei séð þessa skrá, og ég efast um, að hún hafi nokkru sinni verið út gefin. Ég vildi gjarnan biðja hæstv. menntmrh. að hlutast til um, að þessi skrá yrði gefin út. Það er kominn tími til þess, því að þessi lög munu hafa verið samþ. á áratugnum milli 1920 og 1930, 1925 eða 1926, ef ég man rétt. En sem sagt er ég á sama máli og hv. 3. þm. Reykv., að við eigum að halda okkur við þá reglu, sem hefur gilt í þessum efnum á undanförnum árum.