16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða, vegna þess að oft höfum við, sem erum flokksmenn í Sjálfstfl., verið kallaðir íhaldsmenn, fyrst einn af samflokksmönnum mínum stendur hér upp og tjáir sig reiðubúinn að fylgja íhaldsmanninum Olgeirssyni í þessu máli, að lýsa þeirri skoðun minni, að ég er algerlega sammála þeim orðum, sem komu fram í báðum ræðum hæstv. menntmrh. Og þótt minn ágæti meðþm., hv. 2. þm. Norðurl. v., telji það ákaflega auðvelt að þýða Norðurlandanöfn eins og Pedersen og Olsson, býst ég við, að honum mundi vefjast tunga um tönn, þegar hann ætti að þýða Rasmussen. En hvað um það, mér skilst, að þetta ákvæði hafi á sínum tíma verið sett inn bæði vegna málverndar og eins vegna þeirrar hefðar, sem gildir í því, er við kennum syni okkar og dætur við föðurinn, og ég fæ ekki séð, að í sögu einnar þjóðar hafi það ákaflega mikið að segja, hálf mannsævin. Þarna væri um það að ræða að láta fullorðið fólk, sem væri búið að ná lögræðisaldri eða komið á fullorðinsár, halda þeim nöfnum, seinna nafninu, ættarnafninu, meðan það lifði, en hins vegar yrði fornafnið íslenzkað og börn þeirra tækju íslenzkt nafn að sjálfsögðu þar með. Ég held einmitt, að þetta mundi leysa þennan vanda, og það er alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði, að þetta er ekki aðeins mikið tilfinningamál, heldur er það tilfinningamál, sem við eigum að taka fullt tillit til. Það er ekki aðeins að við eigum að veita þessum erlendu aðilum rétt til þess að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt, heldur gerum við ráð fyrir því, að þegar við erum að rétta upp höndina með þessari ósk þeirra hér á hv. Alþ., teljum við einhvers virði að fá þetta fólk sem íslenzka ríkisborgara um leið. Og mér finnst alls ekki rétt að láta þeirra veru hér á landi byrja á þann veg að særa þetta fólk á þennan hátt, að skipa því að henda sínum nöfnum, sem það hefur gengið undir, þar sem það hefur lifað til þessa, þannig að ég fagna því mjög, að hæstv. menntmrh. boðar endurskoðun þessara laga, og vil lýsa því þegar hér yfir, að þótt ég teljist til einna af hinum vondu mönnum íhaldsins ásamt Gíslasyni og Olgeirssyni, er ég sammála Gíslasyni um þetta mál.