21.02.1967
Neðri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

9. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. dómsmrh. tók fram í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv., frv. til l. um Landhelgisgæzlu Íslands, sagði hann, að íslenzk löggjöf væri ekki fjölskrúðug um landhelgisgæzluna, þessa réttargæzlu íslenzka ríkisins á hafinu. Og kannske í og með vegna þeirra tímamóta, sem íslenzka landhelgisgæzlan stóð á á s.l. ári, en þá eru talin 40 ár liðin síðan hún tók formlega til starfa, þótti tímabært að setja löggjöf eða betrumbæta þá löggjöf, sem fyrir var um Landhelgisgæzlu Íslands, og má segja, að það frv., sem hér er lagt fram af stjórninni, sé til orðið af þeim sökum.

Það má kannske segja, að það séu engin stór nýmæli í þessu frv. og bæði mér og öðrum hafi kannske þótt hlýða að ganga ýtarlegar til verks heldur en gert hefur verið. Samt sem áður hef bæði ég og aðrir nm. í allshn. þessarar d. orðið sammála um að gera ekki mjög viðamiklar breytingar á þessu frv., en þó nokkrar brtt. leggjum við þó til, að verði samþykktar hér í hv. d., en teljum, að löggjöfin sem slík sé viðunandi. Auðvitað má segja sem svo, að allra sízt á þessu sviði eigi að búa við löggjöf, sem aðeins verði um sagt, að hún sé viðunandi, það eigi frekar að vera löggjöf, sem allir geti horft til sem fyrirmyndar og eftirbreytni. Á margan hátt er þessi löggjöf það, þótt ég, eins og ég tók fram hér áðan, hefði kannske talið, að enn ýtarlegar hefði átt að ganga til verks og setja löggjöf um þessa stofnun, sem hefði skilið hana algerlega frá öðrum stofnunum í þessu þjóðfélagi og þá kannske hagsmunasamtökum líka vegna þeirrar algeru sérstöðu, sem Landhelgisgæzla Íslands hefur.

Allshn. þessarar d. sendi frv. til umsagnar, hefur fengið á sinn fund bæði þá, sem stóðu að samningu frv., ráðuneytisstjóra Baldur Möller í dómsmrn., forstjóra landhelgisgæzlunnar og lögfræðing, sem hafa gefið upplýsingar og rætt við nm. um efni frv. Einnig sendi Skipstjórafélag Íslands n. aths. sínar, og átti formaður allshn. viðræður við formann Skipstjórafélagsins, Jón Eiríksson, og má segja, að með breytingu, sem n. leggi til, sé komið að nokkru og kannske að öllu leyti á móti því aðaláhugamáli, er þeir impruðu á í sínum tilmælum. Þá komu fram aths. frá Starfsmannafélagi landhelgisgæzlunnar við frv., og stjórn þess félags óskaði eftir því að fá að eiga viðræður við n., og varð hún að sjálfsögðu við því. Og n. hefur orðið sammála um að taka aths. þeirra að fullu til greina, — þær aths., sem bárust í bréfi til hennar við athugun á frv.

Við 1. gr. er bætt inn nýjum staflið, svo hljóðandi, eins og segir á þskj. 241. að við bætist nýr stafliður, h-liður, sem orðist svo: „Að fylgjast með öryggis- og björgunarbúnaði skipa, ef ástæður þykja til.“ Ósk um þetta atriði hefur komið fram á undanförnum árum frá samtökum sjómanna, síðast á s.l. ári frá þingi Sjómannasambands Íslands, en bæði á þingum þess, þingum Alþýðusambands Íslands og þingum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafa verið ítrekaðar áskoranir til þings og ríkisstj. um að betrumbæta það eftirlit, sem á að vera og þarf að vera með björgunar- og öryggisútbúnaði skipa. Eins og er, hefur Skipaskoðun Íslands með þetta verkefni að gera, en vegna mannfæðar og fátæktar hafa sjómannasamtökin talið, að þessa væri ekki gætt sem skyldi þrátt fyrir fullan vilja þeirra, sem þar stjórna og starfa. Sjómannasamtökin telja, að ef þetta atriði verður samþ. í l. um Landhelgisgæzlu Íslands, geti það orðið til mikillar styrktar þessu þýðingarmikla máli, að fylgjast með björgunar- og öryggisbúnaði skipa, og ég held, að engum dyljist, að einmitt þeir menn, sem þar starfa, sem starfa m.a. að björgunar- og öryggismálum á hafinu, starfsmenn landhelgisgæzlunnar, eru kannske öllum öðrum betur til þess fallnir að fylgjast með þessu atriði. Þetta er sú eina breyting, sem allshn. leggur til, að verði gerð við 1. gr. frv.

Við 5. gr. frv. leggur n. til, að gerð verði nokkur breyting. Aths. bárust n. munnlega um það, að eins og fyrri mgr. þessarar 5. gr. væri orðuð, mundi hún stangast á við önnur gildandi íslenzk lög, um lögreglumenn ríkisins, en þar mun kveðið á svo, að þeir þurfi að hafa náð 21 árs aldri. Frá forstjóra landhelgisgæzlunnar og ráðuneytisstjóra dómsmrn. komu þó fram þær skýringar, að þarna væri eingöngu verið að tryggja áhafnir varðskipanna, það væri að gefa þeim rétt löggæzlumannanna, og þegar hv. þm. íhuga þetta nánar og hafa í huga, að oft og tíðum þarf að senda menn um borð í erlend skip, sem verið er að taka, undirmenn t.d. ásamt sínum yfirmönnum, sem ekki hafa náð þessum aldri, 21 árs aldri, hljótum við allir að vera sammála um það, að okkur beri skylda til að gefa þessum mönnum þau réttindi, sem öðrum löggæzlumönnum ríkisins eru gefin, þannig að við í allshn. töldum ekki ástæðu til þess að breyta þessu atriði. Hins vegar vorum við sammála um að breyta seinni mgr. þessarar greinar. Það kom skýrt fram hjá forstjóra landhelgisgæzlunnar, sem ég ræddi við um þetta, að þarna væri eingöngu verið að tryggja það, að sú hefð, sem skapazt hefði á undanförnum árum í starfi landhelgisgæzlunnar, sú að flytja menn af einu skipi á annað eða af skipi til starfa í landi eða á flugvél, þetta yrði heimilt áfram og fram hjá mjög, vil ég segja, þunglamalegu kerfi lögskráningarfyrirkomulagsins yrði komizt. Þar sem aðeins um þetta atriði var að ræða, töldum við vegna annarra ákvæða, sem í lögskráningarlögunum eru, rétt að leggja til sem brtt. frá okkur, að þessi seinni mgr. orðist eins og segir á þskj. 241, að skipverjar á varðskipum landhelgisgæzlunnar skuli lögskráðir, og þar er átt við auðvitað: eins og á öðrum íslenzkum skipum, en þó skuli heimilt að flytja skipverja milli skipa eða í önnur störf, enda sé lögskráningarstjóra tilkynnt um þær breytingar. Þarna er komið á móti þessu vandamáli landhelgisgæzlunnar, en hins vegar búa skipverjar landhelgisgæzlunnar að öllu leyti við þau réttindi og þær skyldur, sem lögskráningarlögin fyrirskipa.

Um 7. gr. leggur n. til, að breyting sé á gerð, og leggur n. til, að komið sé á móti óskum Starfsmannafélags landhelgisgæzlunnar um orðalag þessarar greinar, á þann veg, að hún orðist eins og segir í áðurnefndu þskj., þannig: „Starfsmenn landhelgisgæzlunnar mega hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðunum.“ En í frv. segir, að starfsmenn landhelgisgæzlunnar megi hvorki beint né óbeint taka þátt í neins konar kjara- eða kaupdeilum, og virðist auðsætt, að það sé verið í fyrsta lagi að skera þessa menn algerlega frá sínum stéttarfélögum, en sumir hverjir af þeim hafa verið þar meðlimir og starfað þar um tugi ára, og í öðru lagi stangist þetta á við það, sem á eftir komi í þessum lögum, ákvæðin um það, að gera þurfi sérstaka samninga fyrir þessa starfsmenn ríkisins. Og ef gr. hefði verið samþ. á þann hátt, sem hún var hér fram borin, virðist erfitt að sjá, hverjir ættu að taka að sér samninga fyrir þessa menn, sem eins og til var lagt, mega hvorki beint né óbeint taka þátt í kjara- eða kaupdeilum. Allshn. leggur hins vegar til, eins og ég sagði hér áðan, að 7. gr. orðist þannig, að starfsmenn landhelgisgæzlunnar megi hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðunum. Í gildandi l. um varðskip ríkisins segir, að skipverjar megi ekki taka þátt í neins konar kaupdeilum. En þarna er komið á móti Starfsmannafélaginu um orðalag, og allshn. er sammála um þessa brtt. eins og aðrar, sem bornar eru fram á þskj. 241.

Við 8. gr. er gerð smábreyting. Þar er fellt niður ákvæði þess efnis, að bæði forstjóri og dómsmrh. ákveði eða geti ákveðið að setja reglur um einkennisbúninga. N. þykir eðlilegt, að það sé í höndum dómsmrh. eins, og að sjálfsögðu mun hann þá, ef hann telur rétt vera, fela forstjóra að framkvæma þær reglur, er hann setur í þessu efni.

Við 9. gr. er einnig brtt. frá n. þess efnis, að eftir því sem lagt er til um, að 9. gr. hljóði í frv., leggur n. til, að við bætist: eða stéttarfélagssamningur viðkomandi starfsmanna. En eins og hv. þd. er kunnugt, búa starfsmenn landhelgisgæzlunnar við blandað launafyrirkomulag, ef ég mætti orða það svo. Sumir búa við launafyrirkomulag opinberra starfsmanna, en aðrir og þá flestir, mundi ég álíta, búa við þau laun, sem ákveðin eru með stéttarfélagssamningum, og þá eru það þau félög, sem fara með samningana fyrir verzlunarskipaflotann. En frá og með l., sem sett voru 1935, var ákveðið, að starfsmenn á skipum landhelgisgæzlunnar skyldu fylgja í launum þeim mönnum, er störfuðu á strandferðaskipum ríkisins. Hins vegar leggjum við sem sagt til í allshn., að þarna komi inn í ákvæði þess efnis, að þeir menn, sem í landi vinna, skuli ekki aðeins vinna samkv. l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, heldur líka stéttarfélagasamninga viðkomandi starfsmanna, þetta er 9. gr., og það er þá líka vegna þess, að í land fara oft menn af skipunum, sem vinna að störfum í landi, sem á engan hátt geta fallið undir launafyrirkomulag eða undir opinbera starfsmenn. Þeir vinna þar um stuttan tíma að þeim störfum, sem ekki eru kannske samningar fyrir, og þess vegna teljum við eðlilegt, að viðkomandi stéttarfélag hafi samninga fyrir þessa menn eða þeir vinni undir samningum þess.

Í 10. gr., en þar eru ákvæði um laun og kjör þeirra, sem vinna að staðaldri við störf á sjó eða í lofti, eru ákvæði um það, að þeir skuli taka laun sín og kjör í samræmi við kjarasamninga viðkomandi stéttarfélaga, eftir því sem við á, eða eftir sérstökum samningum, og leggur n. til, að við þessa grein bætist orðin: stéttarfélaga við stjórn landhelgisgæzlunnar, þannig að það sé ljóst, að ef sérstaka samninga þurfi að gera, séu það stéttarfélög þessara manna, sem fari með þá samninga við stjórn landhelgisgæzlunnar, enda sjáum við það ekki í allshn. í fljótu bragði, hvaða annar aðili ætti að taka við slíkum samningum heldur en þeir, sem farið hafa með þá óbeint á undanförnum árum og þekkja til um þá miklu sérstöðu, sem þessir menn hafa. A.m.k. hafa starfsmenn landhelgisgæzlunnar, allir þeir, sem rætt hafa við allshn., lagt til eindregið, að þessi háttur yrði á hafður.

Við 12. gr. er gerð breyting. Frá Skipstjórafélagi Íslands barst bréf til n., þar sem þeir gera aths. við þessa gr. frv. Þeir benda á það réttilega, að skipstjórar eða skipherrar á skipum landhelgisgæzlunnar hafi um langt árabil búið við það að hljóta minni björgunarlaun en aðrir skipstjórar, t.d. á verzlunarflotanum. Það má segja, að þetta sé á margan hátt eðlilegt, þegar þess er gætt, að í og með er eitt höfuðviðfangsefni landhelgisgæzlunnar að stuðla að og vinna að björgun. En sú þróun hefur samt sem áður orðið á síðari árum, að með samningum við undirmenn skipstjórans hafa komið inn liðir í þeim samningum, sem orsakað hafa, að hlutföll hafa breytzt, þannig að þegar búið er að skipta upp björgunarlaunum eftir þeim reglum, sem gilt hafa fyrir starfsmenn landhelgisgæzlunnar, hefur dæmið stundum komið þannig út, að skipstjórinn hefur borið miklu minna úr býtum heldur en kannske margir aðrir skipsmenn, og má t.d. geta um yfirvinnuna, sem allir aðrir skipverjar á skipinu njóta í dag, aðrir en skipherrarnir. Og þeir benda réttilega á, að af skipum, sem bjargað er og eru vátryggð hjá Samábyrgð Íslands, þegar þannig stendur á, fær skipshöfnin engin björgunarlaun. Hins vegar geta allir undirmenn aðrir en skipherra fengið miklar aukatekjur vegna yfirvinnu, en skipherrann alls ekkert. Og þeir benda líka réttilega á það frá Skipstjórafélaginu, að með þessari reglu sé ekki tekið nægilegt tillit til ábyrgðar, sem á skipstjórunum hvíli, og þeir óska eftir því, að reynt verði að bæta úr þessu umrædda lagaákvæði, sem er í gildandi l. og jafnframt í frv. ríkisstj. En þeir taka þó fram, að þeir óski ekki eftir, að þetta sé gert öðruvísi en það komi ekki fram skerðing á hlut annarra skipsmanna. Vegna þessa og einnig vegna þeirrar þróunar, sem orðíð hefur á skipum landhelgisgæzlunnar, skal ég taka eitt dæmi, en það er um þann nýja áhafnarmeðlim eða þann, sem fer með hlutverk froskmannsins á skipunum. Þessi eini einstaklingur getur kannske að miklu leyti átt hlut að því, að skipi sé bjargað eða sú aðstoð veitt, sem veiti landhelgisgæzlunni, björgunarsjóði og áhöfn viðkomandi skips rétt til mikilla björgunarlauna. Við teljum sjálfsagt í allshn., að það séu möguleikar á því fyrir stjórnendur landhelgisgæzlunnar að taka slíkt til greina, eins ef skipherra leysir þannig sitt starf af hendi í sambandi við björgun eða aðstoð, að það sé viðurkenningarvert. Þess vegna höfum við lagt til í 7. brtt. okkar, að þau gömlu ákvæði, eins og sjá má í frvgr., 12. gr., þau gömlu ákvæði, sem segja, að af hluta áhafnar megi greiða, áður en skipti fari fram, ákveðna fjárhæð að dómi skipherra til þeirra, er mest hafa lagt sig fram við björgunina, þau falli niður, en í staðinn komi ný ákvæði, sem heimili yfirstjórn landhelgisgæzlunnar að greiða af hluta landhelgissjóðs ákveðna fjárhæð til þeirra, er mest hafa lagt sig fram við björgunina. Við gerum af ásettu ráði ráð fyrir því, að það sé yfirstjórn landhelgisgæzlunnar, sem hafi þessa heimild, en ekki skipherrann, sem kannske í þeim tilfellum, sem þekkt eru, hafi orsakað það, að þeir hafi sjálfir skorizt úr leik í sambandi við þessa viðurkenningu, en það teljum við alls ekki vera rétt og höfum þá fyllilega haft hliðsjón af þeirri skyldu, sem á þessum manni hvíli um borð í skipi og þó kannske sérstaklega á skipum landhelgisgæzlunnar, þannig að með því að setja þetta ákvæði inn þannig orðað teljum við tryggt, að í þessum einstöku tilfellum, sem gert hefur verið ráð fyrir fram til þessa, að hægt væri að verðlauna einstaklinga um borð í þessum skipum, verði það tryggt áfram, en við bætist, að það sé hægt jafnframt að tryggja skipherrann. Og ég held, að það sé þannig í huga allra þeirra, sem í allshn. d. eru, að það sé þeirra vilji, að þetta sé framkvæmt þannig. En fram til þessa hefur eldra ákvæði gildandi laga ekki verið notað.

8. brtt. n. er við 13. gr. Það má segja, að það sé ekki mikil efnisbreyting, en við leggjum til, að við þá gr. frv. bætist ýtarlegri ákvæði á þann veg, að forstjóra sé heimilt að tryggja sérstaklega þá starfsmenn, sem mjög áhættusöm verk eiga að vinna. Það þarf ekki að taka fram sérstök dæmi um þetta. Við getum þó tekið eitt. Við skulum taka það, að landhelgisgæzlan þurfi að senda einhvern starfsmanna sinna í það verk að eyða tundurduflum, og sitt hvað fleira mætti sjálfsagt tína til. En ég held, að þetta sé auðskilið og þingið mundi ekki hafa á móti því að samþykkja þetta atriði.

Þá leggjum við einnig til, að 14. gr. verði breytt, eins og segir á þskj. 241, að sérhver starfsmaður skuli ganga undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni landhelgisgæzlunnar. Það er villa á þskj. 241 í þessari gr., þetta á að vera „hjá“ trúnaðarlækni, en ekki „sjá“ trúnaðarlækni, einu sinni á ári eða oftar, ef þörf þykir. Í frv. er lagt til, að stjórn landhelgisgæzlunnar geti krafizt hæfnisvottorðs af starfsmanni. Nú má segja það, að kannske hefði átt að fara miklu ýtarlegar út í þessa gr., og í sjálfu sér fæ ég ekki séð og líklega eru fleiri samnm. mínir mér sammála um það, — við fáum ekki séð, hvernig hefði við núverandi uppbyggingu landhelgisgæzlunnar átt að beita þessu ákvæði í sambandi við hæfnisvottorðið. Þetta er hjá aðeins einni stétt, þess er aðeins krafizt hjá einni stétt enn í dag hér, sem mér er kunnugt um, þ.e. hjá flugstjórum og nokkrum öðrum flugvélaráhafnarmeðlimum, a.m.k. flugstjórum og flugmönnum. En þar kemur aftur á móti, að þeir njóta sérstakra trygginga vegna þess, sem þeirra gæti beðið, ef þeir, er hæfnisvottorðin skoðuðu, kæmust að því, að maðurinn væri ekki hæfur til síns starfs. Ég held, að enn sem komið er sé hvorki sú löggjöf, sem við erum að vinna að núna, þannig úr garði gerð, að við séum búin að tryggja það atriði, sem þyrfti að tryggja í þessu sambandi, en það er einstaklingurinn sjálfur, sem dæmdur yrði úr leik, þannig að við höfum breytt í n. þessari gr. á þann veg, sem segir í 9. brtt. okkar.

Við 15. gr. gerir n. einnig tvær breytingar: Annars vegar þá, að leggja til um fyrri mgr., að á eftir orðunum „eða annarra þarfa“ bætist: sbr. 1. gr., þannig að það sé þá nokkuð bundið, að það sé átt við þær þarfir, sem talað er um í 1. gr. frv. Enn fremur leggjum við til, að síðari mgr. sé lögð niður. Ég sé ekki og við höfum ekki talið eðlilegt að láta það sjást í frv. um landhelgisgæzluna, að það þyrfti að taka fram, að skip landhelgisgæzlunnar væru búin þeim öryggistækjum og útbúnaði, sem krafizt er af öðrum skipum íslenzkum. Þetta teljum við alveg sjálfsagt. Það hafa ekki enn þá komið fram nein fyrirmæli um það í lögum eða reglugerðum, að útgerðir skipa mættu ekki búa skip sín betur en lög segja, og við teljum þess vegna, að þessi mgr. sé með öllu óþörf, og leggjum til, að hún falli niður.

Þá er síðasta brtt. okkar við 16. gr. á þá leið, að það sé skýrt tekið fram, að skip og flugvélar landhelgisgæzlunnar skuli auðkennd skjaldarmerki Íslands á áberandi stað. Þetta hefur, eftir því sem mér er bezt kunnugt, verið gert, en við teljum rétt að binda það í lögum, að þetta merki sé á þessum tækjum landhelgisgæzlunnar, og einnig, eins og segir í 11. brtt. okkar, leggjum við til, hvernig frekari merking varðskipa og flugvéla eigi að vera, en forstjóri ákveði í samráði við dómsmrh. um lit og önnur einkenni.

Ég hef nú lýst þeim brtt., sem allshn. hv. d. leggur til að gera á þessu frv. Eins og ég tók fram í byrjun máls míns, eru nm. allir sammála um þessar breytingar, og ég vænti þess, að þær ásamt frv. um þessa þýðingarmiklu stofnun íslenzku þjóðarinnar eigi greiða leið í gegnum hv. deild.