21.02.1967
Efri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

5. mál, fávitastofnanir

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta það, sem ég sagði áðan um þetta efni. Ég verð nú að segja, að ég kann ekki vel við það, að maður sérfróður um rekstur verði gerður að skólastjóra fyrir gæzlusystur við fávitahæli. Ef ekki fæst fram sú breyt., sem við gerum á þessu frv., hefði ég kunnað ólíkt betur við, að ákveðið væri í frv., að yfirlæknirinn skyldi vera skólastjóri þessa skóla. Sama kemur fram í umsögn stjórnar Styrktarfélags vangefinna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um þetta efni:

„Í 15: gr. frv. segir, að forstöðumaður skuli vera skólastjóri skóla þess, sem þar um ræðir. Það hlýtur að velta mjög á hæfileikum og menntun forstöðumanns á hverjum tíma, hvort heppilegt sé, að hann skuli vera skólastjóri við þennan skóla. Virðist því hæpið að binda starf forstöðumanns og skólastjóra saman, eins og gert er í grein þessari, enda þótt núverandi forstöðumaður sé vel til þessa starfs hæfur.“

Þannig farast formanni Styrktarfélags vangefinna, Hjálmari Vilhjálmssyni, orð, en hann er mjög vel kunnugur öllum þessum málum.

Þetta frv. ber með sér, að það er samið í tíð forstöðumanns, sem er sérfróður um uppeldismál. Og það er greinilegt á frv., að þar er gengið út frá slíkum manni í starf forstöðumannsins. En eins og ég gat um áðan og hv. frsm. n. staðfesti, þarf ekki endilega að vera í þessu starfi maður sérfróður um uppeldismál eða á þessu sviði. En við viljum reyna að tryggja, að það verði hæfur maður að þessu leyti í þessu starfi, ekki aðeins í dag, heldur og framvegis. Það er þetta, sem við viljum tryggja, sem flytjum brtt. á þskj. 236.

Loks vil ég láta þess getið, að ef þessi till. verður felld, áskil ég mér rétt til þess að bera fram við 3. umr. málsins aðrar brtt., t.d. varðandi það, hver skuli vera skólastjóri skólans, sem um er rætt í 15. gr.