27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

5. mál, fávitastofnanir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær brtt., sem hv. 9. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. e. flytja á þskj. 271. Ég vil taka það fram, að ég hef rætt þessar till., sem upphaflega voru, eins og þegar er fram komið, settar fram af stjórn Styrktarfélags vangefinna, við formann þeirrar n., sem samdi þetta frv., Benedikt Tómasson skólayfirlækni, og byggi m.a. það, sem ég hef um brtt. að segja, á hans upplýsingum.

Svo að fyrst sé vikið að 1. brtt., sem er við 1. gr. frv., þá er um þá brtt. það að segja, að það þótti ekki ástæða til að ákveða í l. skipun annars starfsliðs aðalfávitahælis ríkisins en stjórnenda þess, þ.e.a.s. skipun yfirlæknis og forstöðumanns. Við fullgilt fávitahæli, sem að vísu er ekki enn til hér á landi, en sem stefnt er að með þessu frv., að Kópavogshælið verði, eru ýmsir sérfræðingar jafnnauðsynlegir og sálfræðingur, svo sem félagsráðgjafar, sérfræðingur í barnalækningum, sérfræðingur í taugalækningum o.fl. Heppilegast var talið að hafa engin ákvæði í frv. um ráðningu annars starfsliðs en stjórnenda stofnunarinnar, þar sem þau gætu orðið til óhagræðis eðlilegri þróun og þjónustu stofnunarinnar, heldur verði um ráðningu slíks starfsliðs að fara eftir viðurkenndri nauðsyn stofnunarinnar á hverjum tíma, líkt og á við um aðrar heilbrigðisstofnanir. Þá er í þessari brtt, ákvæði, sem verður að telja mjög varhugavert, en það er það, að eftirlit með öðrum fávitastofnunum sé aðeins í höndum sálfræðings, því að hann hefur að sjálfsögðu ekki skilyrði til þess að líta eftir læknisfræðilegum þætti starfseminnar. í 2. mgr. 3. gr. frv. segir, að fávitastofnanir þessar skuli háðar eftirliti aðalhælisins, og það er þá haft í huga, að allt sérmenntað starfslið hælisins geti tekið þátt í eftirlitinu, sem ætti að tryggja víðtækara og faglegra eftirlit en yrði, ef það yrði falið sálfræðingi einum. Með vísun til þess, sem ég hef sagt, get ég ekki fylgt þessari brtt. og mun greiða atkv. gegn henni. En áður en ég skil við þessa brtt. við 1. gr., vil ég aðeins geta þess, að sú hugmynd, sem fram kemur hjá stjórn Styrktarfélagsins, að síðar meir þurfi að koma á fót sérstakri rannsóknarstofnun í tengslum við aðalhælið, sem búin væri fullkomnum rannsóknar- og lækningatækjum og sérmenntuðu starfsliði, eins og þar segir, mun líklega byggð á misskilningi, því að þetta er einmitt talið vera eitt af hlutverkum sjálfs aðalhælisins og á slík starfsemi vart annars staðar heima en þar, eins og til háttar hér hjá okkur.

2. brtt. á þskj. 271 er við 3. gr. frv. Þar er m.a. lagt til með brtt., að niður verði felld tilvísun til sjúkrahúsalaga vegna ótta við það, að með henni sé verið að gera strangari kröfur til annarra hæla en aðalhælisins. Þetta er ótti, sem er alveg ástæðulaus. Í sjúkrahúsal. eru engin ákvæði um það, hvernig sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir skuli útbúnar og um útbúnað á fávitahælum er að sjálfsögðu farið eftir viðurkenndum sérkröfum til slíkrar stofnunar á hverjum tíma. Það er ekki meiri hætta á, að til þeirra verði gerðar sömu kröfur og til sjúkrahúsa heldur en t.d. á sér stað um elliheimili sem m.a. eru talin upp í sjúkrahúsal. Ákvæðið í 3. gr. frv. miðar sem sé eingöngu að því, að fávitahælum sé fenginn sess meðal annarra heilbrigðisstofnana landsins og gerðar til þeirra hliðstæðar kröfur eftir því, sem við getur átt.

Í sjálfu frv. er kveðið svo á, að hyggist bæjar- og sveitarfélög reisa og reka fávítastofnanir, skuli ráðh. heimilt að veita þeim leyfi til þess, að fengnum meðmælum landlæknis, sem leitar álits forstöðumanns og yfirlæknis aðalfávitahælis ríkisins. Þarna er sem sagt gert ráð fyrir því, að landlæknir leiti álits stjórnenda þessarar stofnunar, aðalfávitahælis ríkisins, og það er trúlegt, að þessir stjórnendur, sem þarna eru upp taldir, muni þá kveðja sér til ráðuneytis einnig aðra sérfræðinga, mér dettur nú t.d. í hug sérmenntaða kennara, þegar um væri að ræða dagvistarstofnanir fyrir börn. Það eru ekki aðrir taldir upp en þessir stjórnendur, enda mun vissulega geta komið til greina að leita til margra til að dæma um uppdrætti og aðrar áætlanir um stofnun og rekstur slíkra heimila. Í brtt. á þskj. 271 er hins vegar, og það er að sjálfsögðu í fullu samræmi við 1. brtt. á því þskj., lagt til, að landlæknir leiti álits yfirlæknis og sálfræðings. Þar er hins vegar ekki nefndur forstöðumaður og væri ekki úr vegi að leita hans álits, eins og í frv. er ráðgert, með tilliti til hagkvæmni við allan daglegan rekstur þeirrar stofnunar, sem um er að ræða. Þá vil ég vekja athygli á því, sem ég reyndar áður hef vikið að og sem mér virðist varhugavert við þessa brtt., að þar er gert ráð fyrir því, að niður falli síðari mgr. um það, að aðalhæli ríkisins skuli hafa eftirlit með þeim fávitastofnunum, sem hér er um að ræða. Ég þarf ekki um það að fjölyrða, ég hef áður gert grein fyrir því atriði. Ég sé ekki, hvað ávinnst með því að samþykkja þessa brtt., en hins vegar gæti verið mjög varhugavert að samþykkja hana einmitt með tilliti til þess, að þá yrði fellt niður ákvæðið um eftirlit aðalhælisins með öðrum fávitastofnunum. Ég leggst því gegn þessari brtt.

3. brtt. er við 11. gr. frv. Í þeirri gr. er ráð fyrir því gert, að allar umsóknir um hælisvist fyrir fávita skuli berast aðalfávitahælinu, nánar tiltekið forstöðumanni, og vera úrskurðaðar þar og af honum. Það er að sjálfsögðu í samræmi við meginstefnu þessa frv., sem er sú að skapa sem bezta möguleika fyrir æskilegri flokkun og sem fullkomnastri þjónustu við vistfólk á fávitastofnunum. því aðeins, að einhver einn aðili fylgist með og hafi yfirlit yfir og úrskurðarvald um umsóknir um hælisvist verður hægt að tryggja þessa þróun. Í frv. segir, að forstöðumaður skuli úrskurða, á hvaða stofnun umsækjandi skuli vistaður, að undangenginni fullnægjandi rannsókn. Þar er að sjálfsögðu átt við rannsókn þeirra sérfræðinga, sem til þurfa að koma, án þess að neinir ákveðnir aðilar séu þar nefndir. Með brtt. er hins vegar lagt til, að leitað skuli umsagnar yfirlæknis og sálfræðings, en það fer ekki milli mála, að það getur oft þurft að leita umsagnar fleiri sérfræðinga en þeirra. Með brtt. er lagt til, að leitað skuli umsagnar tiltekinna aðila og þeir geti gert það að skilyrði fyrir vistun, að hlutaðeigandi vistmaður verði vistaður á því hæli, sem þeir ákveða. Þetta er nokkur tilslökun frá því, sem í frv. segir og var færður rökstuðningur fyrir því í umsögn Styrktarfélagsins, sem hv. 9. þm. Reykv. las upp hér áðan. Nú ætla ég, að þó að þarna sé um að ræða fullt úrskurðarvald um það, hvar umsækjandi skuli vistaður, verði það auðvitað háð aðstæðum og ástæðum á þeim stofnunum, sem fyrir hendi eru á hverjum tíma. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég óttast ekki svo mjög, að þetta ákvæði verði til óþæginda eða trafala eðlilegri framkvæmd í þessum efnum. Það var nokkuð um þessa gr. rætt í n. og m.a. bar það á góma, hvort n. ætti að flytja brtt. í þá átt, að í stað orðanna „að undangenginni fullnægjandi rannsókn“ kæmi: „að undangenginni rannsókn sérfræðinga.“ Mönnum fannst nú ekki ástæða til þess að flytja slíka brtt. og hvað því viðvíkur, að þarna er lagt í vald forstöðumanns að úrskurða, hvar vista skuli umsækjanda, þá fer hann um það að sjálfsögðu algerlega eftir till. og áliti þeirra sérfræðinga, sem hafa rannsakað viðkomandi umsækjanda. Ég fæ ekki með nokkru móti séð, að í því felist nein hætta, að forstöðumaðurinn skeri úr um þetta, því að að sjálfsögðu mundi honum aldrei haldast uppi að kveða upp sinn úrskurð í trássi við álit sérfræðinganna. Ef yfirleitt ætti að óttast það, að sá, sem úrskurð kveður upp, misnoti sér sína aðstöðu á einhvern hátt, mundi það að sjálfsögðu geta átt við um aðra aðila rétt eins og forstöðumanninn, en ég tel sem sagt alveg útilokað, að nokkur úrskurðaraðili gæti komizt upp með slíkt.

Ég geri ráð fyrir, að þessi brtt. sé að vísu aðallega flutt í samræmi við 1. brtt. um skipan sálfræðings við aðalhæli ríkisins. Um það mál hef ég þegar tjáð mig og sé ég því ekki ástæðu til þess að samþykkja þessa brtt. Um 4. brtt. get ég orðið stuttorð. Það er að vísu alveg rétt, að það er ekki nauðsynlegt, að 12. gr. frv. standi í 1., en hún hefur verið sett til áréttingar og leiðbeiningar. Þetta ákvæði framfærslulaga um fólk, sem ekki vinnur sér framfærslurétt annars staðar vegna dvalar á einhvers konar stofnun, er tekið hér upp og ég ætla, að ég muni það áreiðanlega rétt, að svo muni einnig vera í öðrum l. Mér þykir alveg ástæðulaust að fella þetta niður úr frv., en um þá brtt., 4. brtt. ú þskj. 271, sem lagt er til að komi í staðinn, að 12. gr. orðist eins og þar segir, hef ég þegar tjáð mig. Ég tel það mjög varhugaverða till. og mundi því leggjast á móti samþykkt hennar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um brtt., nema sérstakt tilefni gefist til.

Á 45. fundi í Ed., 28. febr., var fram haldið 3. umr. um frv.