09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

5. mál, fávitastofnanir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um fávitastofnanir er búið að hljóta afgreiðslu í Ed., en eins og segir í aths. við frv., skipaði ég í nóvembermánuði 1965 n. þriggja manna til þess að endurskoða löggjöf hér að lútandi og semja það frv., sem hér liggur fyrir. Formaður n. var Benedikt Tómasson skólayfirlæknir, Björn Gestsson forstöðumaður fávitahælisins í Kópavogi var einn nm. og Hrafn Bragason lögfræðingur sá þriðji, en hann hafði verið skipaður skv. tilnefningu menntmrh., en menntmrh, hafði óskað endurskoðunar fávitalaganna með tilliti til kennslu fávita á skólaskyldualdri, er dveljast utan hæla. Það er í 8 liðum gerð grein fyrir aðalefni þessa frv., a.m.k. í meginatriðum Í fyrsta lági fjallar frv. um fávitastofnanir og vistmenn þeirra, um skiptingu fræðsluskyldu milli heilbrigðisyfirvalda og fræðsluyfirvalda, þegar í hlut á andlega vanþroska fólk, og heimild til að veita því félagslega aðstoð. Í öðru lagi er gert ráð fyrir einu ríkisreknu hæli eða aðalfávitahæli ríkisins, sem skal vera deildaskipt og í senn hjúkrunarhæli, uppeldis- og kennsluhæli og vinnuhæli. Heimilað er að koma upp útibúum frá aðalhælinu, er hvert um sig ræki tiltekið hlutverk. Í þriðja lagi má veita bæjar- og sveitarfélögum og einkaaðilum leyfi til að reka fávitahæli og dagvistarheimili fyrir fávita. Í fjórða lagi skulu allar fávitastofnanir háðar eftirliti frá aðalhælinu og allar umsóknir um vist á fávitastofnunum berast þangað. Í fimmta lagi eru ákvæði ríkisframfærslunnar um fávita tekin upp í frv. og fávitar á dagvistarheimilum geta einnig notið hennar, að hluta, að undangengnum sams konar úrskurði og þarf til greiðslu dvalar á fávitahæli, Í sjötta lagi er sérstakt ákvæði um greiðslur ríkisins á kennslukostnaði á fávitastofnunum, sem ríkið rekur ekki, og í sjöunda lagi er ákvæði um rekstur skóla við aðalhælið til að sérmennta fólk til fávitagæzlu. Í áttunda lagi er frv. í heild, eftir því, sem n. segir, miðað við þá þróun, sem gerzt hefur í fávitamálum undanfarið í grannlöndunum, en tillit er tekið til sérstöðu vegna fámennis íslenzku þjóðarinnar.

Ég vil umfram það, sem nú er sagt, aðeins vekja athygli á því, sem fram kemur einnig í grg., að það vantar mikið á, að við höfum enn nægjanlegt rými fyrir vangefna eða fávita hér á landi. Það er gerð grein fyrir því, hver tala rúma og vistmanna sé á hinum einstöku hælum, á Kópavogshælinu 111 rúm og í smíðum 15 rúm, þegar grg. er samin. Þessum 15 rúmum er nú lokið, og það er unnið af kappi að því að byggja áfram og stækka fávitahælið í Kópavogi. Í Skálatúni eru 15 rúm talin og í smíðum 30, mér er ekki kunnugt um, hversu langt þeim er komið nú. Í Sólheimum eru 40 rúm og í Tjaldanesi 10. En af þessu má sjá, að mikið vantar á, að nægjanlegt rými sé miðað við þá áætlun, sem n. hefur gert og þó að nokkuð sé erfitt að komast að nákvæmri niðurstöðu í því, var og þó hennar niðurstaða sú, að það vantaði hælispláss fyrir allt að 400 manns hér á landi. Byggingu fávitahælisins í Kópavogi hefur miðað vel áfram og ég held eftir mjög góðu og grunduðu skipulagi. Árið 1962 fékk heilbrigðismálastjórnin, að frumkvæði landlæknis, hingað til lands yflrmann málefna vangefinna í Danmörku, forsorgschef Bang Nilsen. Hann kynnti sér ástand þessara méla hér á landi og skilaði rækilegri og langri grg., þar sem hann lýsti skipan fávitamála í Danmörku og gerði till. um skipan þeirra hér á landi. Fyrir þeim till. hans, sem einkum varða þetta frv., er svo nánari grg., sem ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að rekja hér.

Það kemur annars staðar fram, að umfram þau hæli, sem ég nefndi áðan, hefur verið veitt heimild til þess að reisa fávitastofnun á Akureyri, sem unnið er að. Styrktarsjóður vangefinna er sá aðili, sem kostað hefur að mestu leyti byggingar þessara hæla, en tekjustofn Styrktarsjóðs vangefinna er fenginn af ákveðnu gjaldi, sem lögboðið hefur verið af hverri flösku gosdrykkja og öls, sem framleitt er í landinu. Upphaflega var þetta ákveðið með 1. 1958, 10 aurar á hverja flösku, síðan breytt með l. 1962 í 30 aura á hverja flösku og svo með l. á síðasta þingi í 45 aura á hverja flösku. Það er einkum síðari árin, sem þetta hefur orðið verulega drjúgur tekjustofn, en flöskugjaldið nam árið 1958 975 þús. kr., 1959 1 millj. 993 þús. kr., 1960 2 millj. 44 þús. kr., 1961 2 millj. 190 þús., 1962 6 millj. 397 þús. kr., 1963 9 millj. 174 þús. kr., 1964 10 millj. 892 þús. kr. og 1965 11 millj. 789 þús. kr. Uppgjörið af flöskugjaldinu fyrir árið 1966 liggur ekki endanlega fyrir, en í nóvemberlok var það orðið 13 millj. 939 þús. kr. Þá er eftir desembermánuður, sem jafnan er tekjuhæstur vegna meiri sölu gosdrykkja og öls í þeim mánuði en aðra mánuði ársins. Ef það væri reiknað rúmar 2 millj. kr.; sem er ekki mikið í lagt, mundi gjaldið væntanlega á árinu 1966 reynast eitthvað á 17. milli. kr. Tekjurnar af flöskugjaldinu höfðu í árslok 1965 orðið 45 millj. 455 þús. og ef þar bætast við rúmar 16 millj. kr., er þetta komið yfir 60 millj. kr. frá því að þessi tekjulind fyrst varð til um s.l. áramót. Þetta hafði skipzt svo á milli hælanna í árslok 1965, því miður hef ég ekki nákvæmlega skiptinguna 1966, að í Kópavogshæli höfðu farið 26.1 millj. kr., í Lyngás, dagvistarheimili, 800 þús., í Skálatún 11.7 millj., Sólheima 5 millj. 157 þús. og Tjaldanes 1.5 millj., eða samtals 45 millj. 278 þús. Í þennan sjóð hafa síðan þessi skýrsla var gerð bætzt, eins og ég sagði, rúmar 16 millj. kr.

Það er nýmæli í 6. gr. þessa frv., að fáviti, sem dvelst á viðurkenndu dagvistarheimili skv. þessum l., á rétt á að njóta styrks, sem nemur hæfilegu dagvistargjaldi, enda hafi hann verið úrskurðaður styrkhæfur með sama hætti og segir í 5. gr. Aldrei skal þó slíkur styrkur nema meiru en 3/5 af þeim styrk, sem fáviti nýtur á aðalfávitahæli ríkisins. Ríkissjóður greiðir 2/3 hluta styrks á dagvistarheimili, en framfærslusveit styrkþega 1/3 hluta. Af þessu leiðir nokkuð aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, eins og gerð er grein fyrir í aths. við þessa gr., en þó er á það að líta, að dagvistarheimilið Lyngás, sem rekið er af Styrktarfélagi vangefinna, er eina dagheimili sinnar tegundar í landinu. Það hefur bætt úr brýnni þörf í Reykjavík, þar sem það hefur tekið til dagvistar um 40 reykvísk börn og þó liðlega það, sem langflest a.m.k. myndu vera á fávitahæli, ef hælisrúm væri til. Því kemur heimilið raunverulega í stað fávitahælis, og þó að þarna verði nokkuð aukinn styrkur, er hann þó miklu minni en útgjöld ríkissjóðs myndu verða, ef þessi börn væru raunverulega vistuð á fávitahæli.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þetta frv. hljóti afgreiðslu hér í þessari d., og þar með á þessu þingi, og um það geti orðið gott samkomulag, og að með þessu frv. sé sniðinn heilsteyptur og farsæll rammi löggjafarinnar í sambandi við þau viðkvæmu mál, sem hér er um að ræða, hvaða félagslega aðstoð á hverjum tíma er hægt að veita hinum vangefnu í þjóðfélagi okkar.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.