07.03.1967
Efri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

148. mál, Lífeyrissjóður barnakennara

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Að undanförnu hafa komið fram raddir um það, og raunar till. hér á hinu háa Alþ., að æskilegt væri að gera breyt. á l. um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna í þá átt að tryggja betur hagsmuni þeirra manna, sem hafa verið um alllangt árabil í þjónustu ríkisins, en hafa látið af störfum. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hafa verið teknar upp verðtryggingar á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna á þann hátt, að nú eru eftirlaunin miðuð við þau laun, sem gildandi eru fyrir viðkomandi starf, þegar eftirlaunaréttur mannsins tekur gildi. Mismunurinn á rétti manns, sem er í störfum hjá ríkinu allt þar til hann hefur fullnað sitt starfsæviskeið, og hins, sem lætur af störfum alllöngu áður en til þess kemur, er því auðsjáanlega sá, að sá, sem hefur látið af starfi sínu áður, myndi ekki njóta þessarar verðtryggingar. Hér er vitanlega um mikið hagsmunamál að ræða fyrir lífeyrisþegana, en hins vegar verður um leið að gera sér grein fyrir því, að hér er um svo mikilvæg réttindi að ræða, að það verður að setja við því allstrangar skorður, að þetta gildi ekki nema í þeim tilfellum, þar sem um augljóst réttlætismál er að ræða. Nú er það almenn regla, að menn hafa heimild til þess að flytja réttindi sín á milli lífeyrissjóða. Annars vegar geta það verið lífeyrissjóðir, sem eru óverðtryggðir, og hins vegar verðtryggðir, og það er augljóst, að ekki er hægt að ganga svo langt að láta slíkar reglur gilda um réttindi þessara manna. Með hliðsjón af þessum rökum öllum og þar sem, eins og ég sagði, það hafa komið fram óskir um það oftar en einu sinni hér á hinu háa Alþ., að þetta mál yrði tekið til athugunar, hefur ríkisstjórnin látið undirbúa frv. til breyt. á l. um Lífeyrissjóð barnakennara og frv. til l. um sams konar breyt. á l. um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Þar er veitt heimild til þess að maður, sem hefur verið í ríkisþjónustu í 15 ár eða lengur, skuli njóta þessarar verðtryggingar að fullu, taka eftirlaun og önnur hliðstæð laun miðað við það, sem þau eru þegar lífeyrisgreiðslurnar byrja, enda þótt hann hafi alllöngu áður látið af störfum í þágu ríkisins. Eins og hv. þdm. sjá, þá eru hér sem sagt þau takmörk sett, annars vegar að það skuli vera 15 ár, sem maðurinn hafi verið sjóðfélagi samfellt, og hins vegar, að þetta gildi eingöngu um þá, sem hafa verið svo lengi samfellt í þjónustu ríkisins, þannig að flutningur úr öðrum sjóðum gildir ekki að þessu leyti.

Ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á, að hér hafi verið farið eðlilegt bil beggja í þessu efni, og það er ótvírætt, að þessi frv. lagfæra mjög verulega hagsmuni þeirra manna, sem hafa verið um alllangt árabil í þjónustu ríkisins.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. þessu verði að þessari umr. lokinni, vísað til hv. fjhn.