10.04.1967
Efri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

150. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fsp. hv. 9. þm. Reykv. er algerlega eðlileg og ég hef á því fullan skilning, að hún skuli koma fram. Það, sem hv. þm. sagði í ræðu sinni um aðdraganda hins nýja embættis í fyrra, var allt saman nákvæmlega rétt. Ég lagði það frv. fram skv. beiðni háskólans, og sú beiðni var rökstudd með nauðsyn þess að stofna embætti í réttarsögu. Mér var það persónulega mikil ánægja að geta flutt það frv., vegna þess að ég tel, eins og raunar kom fram í þeim orðum, sem hv. þm. las úr grg. háskólans fyrir frv., að sérstaka og brýna nauðsyn beri til þess að stofnað sé til sérstaks prófessorsembættis í íslenzkri réttarsögu. Og ég bar frv. fram skv. ósk háskólans og rökstuðningi hans, með beztu samvizku, og Alþ. samþykkti frv. auðvitað í því skyni, að stofnað yrði til embættis í réttarsögu. Mér var að vísu ljóst, að ekki væri völ á mörgum sérfróðum mönnum hér á Íslandi á þessu sviði, en helzti sérfræðingur núlifandi í íslenzkri réttarsögu er einmitt starfandi prófessor við lagadeildina, þ.e.a.s. núverandi rektor háskólans, prófessor Ármann Snævarr. Og ég hafði gert ráð fyrir því, að ef frv. næði fram að ganga, mundi hann taka að sér réttarsögukennsluna og helga sig þá um leið nauðsynlegum rannsóknum í réttarsögu, enda held ég, að enginn muni draga það í efa, að hann væri til þess færastur íslenzkra manna.

Þegar frv. hafði hins vegar verið samþ. og lög voru komin á um þetta nýja embætti í lagadeildinni, var það auglýst nákvæmlega samkv. ákvæðum háskólalaga og eins og embættin við háskólann eru ávallt auglýst, en í háskólalögum segir, að ákveðin tala embætta sé í hverri deild, og deildin skiptir síðan sjálf verkum milli kennara sinna. M.ö.o.: samkv. ákvæðum háskólalaga eru prófessorsembætti aldrei auglýst í ákveðnum greinum, heldur eru þau eingöngu auglýst sem prófessorsembætti í hlutaðeigandi deild, og það er deildarinnar að ákveða, hvað hver einstakur kennari kennir, en ekki ráðh. Hann hefur engin skilyrði til afskipta af því.

Það, sem svo gerist, þegar þetta embætti er auglýst, er, að tveir umsækjendur sækja um það. Það er skipuð dómnefnd þriggja manna með venjulegum hætti, með einum frá háskólaráði, einum frá deild og einum frá menntmrh. Sú dómnefnd varð sammála um að telja báða umsækjendur hæfa til starfans. Þegar hún hafði lokið störfum, sendi ég umsögn nefndarinnar til deildarinnar með venjulegum hætti, og deildin staðfesti þann dóm dómnefndarinnar, að báðir væru hæfir til starfsins. Ég valdi því annan þeirra, báðir gátu að sjálfsögðu ekki hlotið embættið, og ég valdi þann þeirra, sem þegar hefur kennt við háskólann sem aukakennari í allmörg undanfarin ár, og mér vitanlega hefur engin gagnrýni komið fram á þá embættisveitingu. Ég hef a.m.k. ekki orðið hennar var. En hitt er rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. vakti athygli á í ræðu sinni áðan, að réttarsögukennslan hefur ekki verið aukin í kjölfar stofnunar þessa embættis. Kennararnir fimm endurskiptu með sér verkefnum í deildinni, og í kjölfar þeirrar endurskiptingar hefur enn engin aukning orðið á réttarsögukennslunni og hún þá um leið ekki heldur háð skilyrðum til nýrrar rannsóknar í réttarsögu. Hitt er án efa rétt, að mjög brýn nauðsyn var orðin á almennri aukningu kennslukrafta í lagadeild sökum mjög vaxandi nemendafjölda. Fjórir prófessorar ásamt aukakennurum gátu með mjög illu móti annað nauðsynlegri, reglulegri kennslu í deildinni.

Ég hef það fyrir satt, því að ég hef athugað málið síðar, út frá alveg sama þankagangi og lá að baki ræðu hv. 9. þm. Reykv., og fengið þær upplýsingar, sem ég trúi, að skortur á kennslukröftum til almennrar kennslu í lagadeildinni hafi verið orðinn svo mikill, að það hafi beinlínis valdið því, að nám nemenda í deildinni hafi dregizt óeðlilega á langinn. Fjölgun þessara embætta úr 4 upp í 5 mun því tvímælalaust stuðla að því, að laganemar eigi þess kost að ljúka námi sínu á skemmri tíma eftir fjölgunina en áður. Einkum og sér í lagi mun þetta verða nemendum til hagsbóta og stuðla að auknum námsstarfa hjá þeim, þegar sjötta embættið verður stofnað, sem ég vona, að verði skv. þessu frv.

Ég held, að þrátt fyrir allt þurfi Alþ. ekki að hafa vonda samvizku af því að hafa samþ. embættið í fyrra og af því að samþykkja þetta embætti núna. Það auðveldar mjög alla kennslutilhögun í lagadeildinni og gerir kleift, að íslenzkt þjóðfélag fái laganema fyrr til starfa en ella hefði átt sér stað.

Um hitt er ég alveg sammála hv. 9. þm. Reykv., að ég harma það, að enn skuli ekki hafa verið efnt til þeirrar auknu kennslu og sérstaklega til þeirra auknu rannsókna í réttarsögu, sem ég var í góðri trú um, að mundi sigla í kjölfar samþykktar frv. í fyrra. Það er ekki á valdi mínu að ákveða neitt um þetta. Þó vil ég segja að gefnu þessu tilefni, að ég tel það mjög koma til athugunar að breyta ákvæðum háskólalaga um þetta efni. Ég tel þetta og fleiri tilefni vera til þess að taka það til alvarlegrar athugunar, ekki á þessu þingi, heldur á því næsta, hvort það sé rétt, að það sé algerlega á valdi einstakra deilda, hvað kennt sé í deildunum og hvernig kennslunni er skipt á milli kennaranna, og jafnframt, að það sé tekið til athugunar, hvort það eigi að vera algerlega á valdi einstakra deilda, jafnvel einstakra háskólakennara, hvað hver um sig kenni mikið. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að háskólinn hefur algert sjálfdæmi í þessum efnum, hver deild getur ákveðið, hvort kennari kennir þar einn tíma á viku eða hvort hann kennir þar 10 tíma á viku og allt þar á milli. Ég tel það vel koma til athugunar, í framhaldi af þessu og fleiru, að taka ákvæði l. um þetta efni til athugunar, ekki vegna þess að ég telji stjórnarráðið eða menntmrh. eiga að skipta sér í smáatriðum af starfsemi stofnunar eins og háskólans, heldur af því, að ég tel eðlilegt, að l. tryggi hliðstæða starfsemi einstakra deilda innan háskólans, en það gerir lagasetningin, eins og hún er nú, ekki. Nokkurt aðhald frá stjórnarráðinu eða hlutaðeigandi rn. hygg ég að öllum stofnunum sé hollt, a.m.k. ef því er beitt af hófsemi og sanngirni, og ég held, að engin ástæða sé til að óttast, að það mundi ekki gerast af hálfu menntmrn., hver sem svo þar er í forsvari.

Af því að ég hef fullan skilning á aths. 9. þm. Reykv. um þetta efni og finnst hún af hálfu hans og Alþ. vera algerlega eðlileg, skal ég að síðustu láta þess getið, að ég hef rætt þetta mál við forsvarsmenn háskólans og tel von til þess, þ6 að ég vilji ekki segja meira, vegna þess, að það er ekki á mínu valdi að taka neinar ákvarðanir um þetta efni, að þegar núverandi rektor, sem er tvímælalaust hæfasti sérfræðingur Íslendinga á sviði réttarsögu, lætur af rektorsstarfi, taki lagadeild þá ákvörðun að fela honum sérstaklega réttarsögukennsluna og þá um leið rannsóknir í réttarsögu. Ef þetta verður niðurstaðan af hálfu deildarinnar, þótt svolítið síðar væri, tel ég, að málið hafi fengið farsæla lausn og vel hafi verið á því haldið. En ég undirstrika enn, að hér er um að ræða mál, sem lagadeildin ákveður sjálf án nokkurra afskipta af hálfu menntmrn.