10.04.1967
Efri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

150. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. menntmrh. greinargóðar upplýsingar, en af þeim má ráða, að öll lögfræðideild háskólans hefur óskað eftir fjölgun prófessora í fyrra, eingöngu vegna skorts á almennu kennaraliði, en ekki af þeirri ástæðu, sem gefin var upp. Þessu tel ég mjög miður farið, að fara þannig að við hið háa Alþ. og ekki sízt, þegar í hlut á Háskóli Íslands, að slá sér eitthvað út hjá Alþ. á fölskum forsendum. Auk þess hef ég áhuga á því, þótt ég standi nú allfjarri lögfræði, að prófessor í réttarsögu fái sem allra bezta starfsaðstöðu, ekki aðeins til kennslu, heldur og til rannsókna og er fyllilega samþykkur því, sem ég las hér áðan upp úr grg. frv. frá í fyrra. En hér er ekki við hæstv. ráðh. að sakast, mér er það ljóst, þvert á móti hefur hann sýnt áhuga á að gera vel til Háskóla Íslands m.a. með fjölgun prófessora og ber að þakka honum það.