10.04.1967
Efri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

150. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki heyrt upphaf þessara; umræðna, en mér skilst, að þær hafi nokkuð snúizt um prófessorsembættið í lagadeild, sem stofnað var til hér á Alþ. í fyrra. En með því frv. fylgdi grg. frá lagadeild, þar sem gert var ráð fyrir að sérstök nauðsyn væri á að stofna til prófessorsembættis í réttarsögu. Það er misskilningur hjá hv. 9. þm. Reykv., að sú grg. hafi verið byggð á nokkrum fölskum forsendum, eða það prófessorsembætti, sem þá var stofnað, hafi verið stofnað á röngum forsendum. Hins vegar var ekki tekið fram í sjálfu frv., að þetta væri prófessorsembætti í réttarsögu, heldur aðeins að um væri að ræða fjölgun prófessora við lagadeild háskólans, en þannig hefur formið verið á þessu, eins og mér skilst líka, að hæstv. menntmrh. hafi gert grein fyrir, að prófessorum við lagadeild hefur ekki í l. verið ákveðið sérstakt verkefni, heldur hafa þeir skipt verkefninu með sér sjálfir. En þar sem svona var í pottinn búið, þótti réttast að auglýsa prófessorsembættið sem almennt prófessorsembætti, enda hefur það tíðkazt, þegar átt hefur sér stað fjölgun prófessorsembætta í lagadeild, sem reyndar hefur nú ekki verið mjög oft, því að tala kennara við lagadeild var óbreytt miklu lengur en við nokkra aðra deild háskólans. Þá hefur það og verið venja, þegar nýju embætti var bætt við, að stokka upp, ef svo mætti segja, kennslugreinarnar, þegar sá nýi prófessor kom til sögu. Þess vegna þótti það rétt nú líka að auglýsa aðeins laust prófessorsembætti, án þess að í þeirri auglýsingu væri tekið fram, hverjar kennslugreinar þeim prófessor væru ætlaðar. Ég hygg, að það hafi verið gert í fullu samráði bæði við lagadeild og menntmrn., enda var það svo, að réttarsaga hefur verið kennd áður og ákveðinn prófessor hefur kennt hana, og það þótti ekki óeðlilegt að gefa honum eða eldri prófessorum kost á því að velja sér þetta prófessorsembætti í réttarsögu, ef þeir vildu það. En það hefur raunar alltaf verið gert ráð fyrir því, að þetta prófessorsembætti yrði nokkuð sérstaks eðlis, að því leyti til, að það hefur aldrei verið meining lagadeildarinnar að gera mikla kennslugrein úr réttarsögu, og líklega litlu meiri kennslu í sjálfu sér í henni en nú er, en ætlunin var og er að gera það prófessorsembætti að sérstöku rannsóknarembætti í réttarsögu.

Nú var þetta prófessorsembætti ekki veitt fyrr en í janúarlok í vetur, ef ég man rétt, svo að það var í raun og veru lítill tími þá til stefnu til þess að breyta mjög til um kennslutilhögun, það sem eftir var vetrar. Þess vegna var það ráð tekið að fresta fullnaðarákvörðun um skiptingu kennslugreina á milli prófessora, þangað til nú í vor. Einmitt nú alveg á næstunni verður þetta tekið til athugunar. Því fer mjög fjarri, að það sé að neinu leyti horfið frá fyrirætlun lagadeildar um það, að einn af þeim prófessorum, sem nú eru við lagadeildina, fáist sérstaklega við rannsóknir í réttarsögu, en hafi auðvitað jafnframt á hendi kennslu í henni og auðvitað ekki bundið alveg þannig, að hann kenni ekkert annað, heldur er allt eins líklegt, a.m.k. eins og nú háttar til, á meðan starfskraftar eru ekki meiri en þeir nú eru, að hann þurfi að kenna eitthvað jafnframt. Hver það verður, sem tekur þetta réttarsögustarf að sér sérstaklega, skal ég ekkert fullyrða um hér, en það liggur í augum uppi, að ef sá maður, sem hefur kennt réttarsöguna, og er, eins og hæstv. menntmrh. gat um áðan, vafalaust fróðastur í henni, kýs það embætti sér til handa, fær hann það að sjálfsögðu. Nú, ef hann kýs það ekki, er þeim nýja prófessor, sem veitingu hlaut, það auðvitað ljóst, að svo getur farið, að það komi í hans hlut að fást við réttarsögu. Það vissi hann, og hver sem sótti, að það gat komið til greina.

Þetta vil ég aðeins taka fram til þess að fyrirbyggja misskilning, af því að ég gat ekki fellt mig við það, sem hv. 9. þm. Reykv. gaf í skyn í því efni, að það prófessorsembætti, sem hér var samþ. í fyrra, hafi verið veitt á fölskum forsendum. Hins vegar má að sumu leyti taka undir það, sem hæstv. menntmrh. sagði, að það gæti verið allt eins eðlilegt, að prófessorsembætti væru bundin við alveg tilteknar kennslugreinar fyrir fram, og það væri auglýst. Það hefur augljóslega sína kosti, vegna þess að þá er frekar hægt að miða veitingu prófessorsembætta við sérfræðikunnáttu í alveg tiltekinni og afmarkaðri grein. En á hinn bóginn hefur hitt kerfið líka þá kosti, að menn geta skipt með sér verkum og hagað skiptingu kennslugreinanna eftir því, sem hentugt þykir, og það kemur sér ekki sízt vel, þegar kennslukraftar hafa verið af skornum skammti, eins og þeir lengst af hafa verið í lagadeild.