14.04.1967
Efri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

150. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í þessari hv. þd., gerði hæstv. menntmrh, ítarlega grein fyrir efni frv., og urðu allmiklar umr. um málið. Með vísun til þessa og þeirrar grg., sem frv. fylgir, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um efni þess. Það er í stórum dráttum það, að stofnuð verði sex prófessorsembætti við háskólann, þrjú þeirra skv. áætlun háskólaráðs, eða í samræmi við áætlanir háskólaráðs frá 1964, eitt nýtt prófessorsembætti við verkfræðideild og loks, að tveimur dósentsembættum verði breytt í prófessorsembætti.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 464, hefur menntmn, rætt frv. og leggur n. einróma til, að það verði samþykkt óbreytt.