06.02.1967
Neðri deild: 35. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af n., sem ég skipaði 29. sept. s.l., en sú n. studdist við frv., sem samið var í júlí og ágústmánuði s.l. af tveimur mönnum, sem ég þá kvaddi til. Það voru Pálmi Einarsson og Sæmundur Friðriksson, framkvstj. Stéttarsambands bænda. N., sem starfaði frá 29. sept., studdist við þetta frv. um Jarðeignasjóð ríkisins, og hefur því aðeins örlítið verið breytt frá því, sem það var, þegar það kom frá n. Ástæðan til þess að þetta frv. er til orðið, er sú, að það hefur lengi verið erfitt fyrir menn, sem hafa viljað bregða búi og taka sig upp af jörðum, sem eru illa í sveit settar eða litlar og hafa lítið ræktunarland og framtíðarmöguleika, að selja þessar jarðir og koma þeim í peninga. Hins vegar hefur þetta oft verið það eina, sem þetta fólk hefur átt, jörðin, húsin og örlítill bústofn, ef um litla jörð er að ræða. Það er þess vegna eðlilegt, að menn hafi hugleitt, hvort ekki væri rétt að koma til móts við þetta fólk og koma um leið í veg fyrir, að menn bindi sig jafnvel árum saman á lélegum jörðum, á jörðum, sem ekki gefa af sér það lífsviðurværi, sem krafizt er í nútímaþjóðfélagi og allur almenningur í landinu býr við. Með þessu frv. er ætlunin, eins og tekið er fram í 1. gr., að stofna sjóð, sem nefnist Jarðeignasjóður ríkisins. Hlutverk sjóðsins skal vera það að kaupa jarðir í þeim tilgangi að fella þær úr ábúð, enda leiði athugun, sem um ræðir í l. þessum, í ljós, að það sé hagkvæmt. Heimild þessi tekur til jarða, sem svo er ástatt um, sem nánar greinir: Jörð, sem ekki selst með eðlilegum hætti, en eigandi hennar verður að hætta búskap vegna aldurs og vanheilsu, jörð, sem hefur óhagstæð búskaparskilyrði, jörð, sem ekki nýtur framlaga og lána, sem veitt eru til umbóta á lögbýlum, sbr. IV. kafla jarðræktarlaga, nr. 22 1965, jörð, sem er afskekkt og liggur illa við samgöngum. Þá er Jarðeignasjóði einnig heimilt að kaupa jarðir, sem hlunnindi fylgja og líkur eru til, að ekki verði nýttar til búrekstrar, en hafa sérstakt notagildi fyrir sveitarfélag eða ríki. Þá er Jarðeignasjóði einnig heimilt að veita lán til bónda, sem hefur haft jörð í ábúð undanfarandi 5 ár, sem er talin hafa góð búskaparskilyrði og vera vel í sveit sett, og lánið er þá ætlað til þess að bæta jörðina og tryggja varanlega ábúð á henni.

Skv. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að skipuð verði þriggja manna n., sem ákveður kaupin og metur, hversu hátt skuli fara með verðið. En við ákvörðun matsverðsins skal hafa hliðsjón annars vegar af gangverði hliðstæðra jarða og hins vegar af þeim fjármunum, sem eigandi hefur lagt í jörðina. En kaupverðið má þó aldrei vera hærra en fasteignamat jarðanna er á hverjum tíma.

Stofnframlag ríkissjóðs til Jarðeignasjóðs skal vera 36 millj. og greiðist það jöfnum greiðslum á næstu 6 árum, í fyrsta sinn á árinu 1967. Einnig má Jarðeignasjóður með samþykki fjmrh. gefa út skuldabréf með ábyrgð ríkissjóðs samtals að fjárhæð 36 millj. kr. Jarðir, sem ríkið eignast skv. l. þessum, má selja sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum, sem jörðin heyrir til. Að þessum aðilum frágengnum má selja þær öðrum félagsbundnum aðilum, svo sem sumarbústaðaeigendum. Í sölusamningi skal það tilskilið, að jarðirnar megi ekki byggja til búekstrar. Enn fremur má setja í sölusamninga frekari ákvæði um nýtingu og meðferð landsins. Þá er einnig heimilt skv. meðmælum Landnáms ríkisins að selja jarðir þessar öðrum jarðeigendum í sama sveitarfélagi til þess að bæta búrekstraraðstöðu þeirra, og hefur verið talsvert að því gert undanfarin ár að sameina tvær litlar jarðir, jafnvel þrjár og gera úr þeim eina góða bújörð. Hefur þetta gefizt vel og Jarðeignasjóður gæti vitanlega stuðlað að því, að þetta yrði gert, jafnvel í enn ríkara mæli en verið hefur.

Við sölu jarðanna skal þriggja manna n., sem um ræðir í 8. gr. þessa frv., gera till. til landbrn. um söluverð og greiðsluskilmála. Landnámi ríkisins er skylt, áður en kaup fara fram, að rannsaka búrekstrarskilyrði þeirra jarða, sem ríkinu eru boðnar til kaups, og gera rökstudda álitsgerð um hverja jörð fyrir sig, þ.e. hvort réttmætt sé og æskilegt, skv. ákvæðum þessara l., að ríkið kaupi jörðina. Sérstaklega skal gerð grein fyrir því í álitsgerðinni, hver áhrif það hafi fyrir hlutaðeigandi sveitarfélag, ef lögð verði niður ábúð á jörðinni.

Þá eru þau ákvæði í 8. gr. frv., að landbrh. skipar þrjá menn í n, til fjögurra ára í senn til þess að meta kaupverð jarða, sbr. 4. gr. frv. Einn nm. skal skipaður skv. tilnefningu fjmrh., annar skv. tilnefningu Stéttarsambands bænda, en þriðji nm. skal skipaður skv. tilnefningu Hæstaréttar og er hann formaður n. Þá skulu varamenn skipaðir með sama hætti.

Álitsgerð sú, sem getur um í 7. gr., skal send n. þessari ásamt umsögn hlutaðeigandi sveitarstjórnar um sölu jarðar til Jarðeignasjóðs, enda hafi sveitarsjóður áður afsalað sér forkaupsrétti. Þriggja manna n. sendir landbrn., jarðeignadeild, matsgerð ásamt till. og umsögn um jarðakaupin. Síðan tekur landbrh. ákvörðun um, hvort kaupin skuli gerð.

Þetta eru aðalatriði frv., og ef lánsheimild væri notuð og skuldabréfasalan ætti sér stað, hefði sjóðurinn að óbreyttum l. 72 millj. kr. til umráða á þessum sex árum og þó ríflega það með þeim tekjum, sem sjóðnum ættu að áskotnast. Reynslan verður vitanlega að skera úr því, hvort þessi fjárhæð er fullnægjandi eða ekki. Vitanlega verður að fara varlega í að kaupa upp jarðir. Það er alls ekki meiningin með þessu frv. að fara að auglýsa eftir jörðum eða fækka bændum á skipulegan hátt með því að svara eftirspurninni eftir því, hve mikið framboð er, heldur verður að stilla öllu slíku í hóf og kaupa aðeins þær jarðir, sem frá þjóðhagslegu sjónarmiði er talið eðlilegt, að verði teknar úr ábúð, og þær jarðir, sem eðlilegt er talið að kaupa, vegna þess að þeir, sem þurfa að fara frá jörðunum, geti annars ekkert fyrir þær fengið og verði slyppir frá að ganga.

Það er einsætt mál, að það er hættulaust, hvort það er fyrir ríki eða einstaklinga, að kaupa jörð. Ef einstaklingur hefur efni á því að eiga land, er það góð fjárfesting fyrir hann, því að það er öruggt, að landsverðið hækkar. Það er öruggt, að síðar gefst tækifæri til að nota það land, sem ekki eru e.t.v. beinlínis not fyrir í dag. Og þess vegna er það örugglega góð fjárfesting, að kaupa land, hvort sem það er ríkið, einstaklingur, sveitarfélag eða aðrir, sem það gera. En eignalitlir einstaklingar, m.a. gamalmenni, hafa ekki efni á því að binda allt sitt í jarðarverði, þeir verða að fá féð losað, m.a. til þess að geta eignazt þak yfir höfuðið og búið um sig í ellinni.

Ég hygg, að þetta frv., eins og það er hér lagt fram ásamt grg., skýri til fulls, hvaða hlutverk Jarðeignasjóði er ætlað að vinna og það sé að svo stöddu ekki þörf á að hafa öllu fleiri orð við þessa umr. málsins.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.