27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, er búnaðarþing nú að störfum hér í Rvík, og mér finnst alveg sjálfsagt, að búnaðarþing fái þetta frv. til athugunar og umsagnar. Formaður Búnaðarfélagsins mun hafa vikið að þessu máli í ræðu, sem hann flutti á búnaðarþingi, og kom þar fram hjá honum, að hann teldi, að það væru gallar á þessu frv., og mun hann því vilja gera á því einhverjar breyt. Ég vil leyfa mér að skora á hv. landbn. að senda frv. nú þegar til búnaðarþings með ósk um, að það taki málið til athugunar, og geri þá, ef því sýnist svo, einhverjar till. um breyt. á frv. Og ég vil vænta þess, að hv. n. geti fallizt á þetta, og einnig hitt, að málið verði ekki afgr. héðan úr þessari hv. d., fyrr en umsögn búnaðarþings liggur fyrir. Enn meiri ástæða er til að gera þetta vegna þess, að Búnaðarfélag Íslands mun ekki hafa verið kvatt til að eiga neinn hlut að samningu frv.

Ég vildi aðeins koma þessari áskorun á framfæri við hv. n., og jafnframt þá við forseta þessarar hv. d., að málið verði ekki látið ganga hér út úr d., fyrr en búnaðarþingi hefur gefizt kostur á að segja álit sitt um þetta mikilsverða mál.