21.03.1967
Neðri deild: 57. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Aðaltilgangurinn með þessu frv. mun vera sá að gefa þeim bændum kost á að koma eignum sínum í nokkurt verð, sem verða að neyðast til þess að hætta búskap, og mér sýnist, að þetta sé reyndar eini tilgangurinn með frv. Það er hafið yfir allan vafa, að það er mikil nauðsyn á því, að þessi viðleitni, sem í frv. felst, geti borið nokkurn árangur. Fjöldi bænda um allt land, sem hefur orðið að hætta búskap, hefur orðið fyrir því að verða að ganga frá eignum sínum, sem eru aðallega óseljanlegar eyðijarðir, og hafa ekki getað komið þeim í neitt verð. Afleiðingin hefur svo orðið sú, að þessir bændur hafa ekki getað aflað sér eiginlega neinnar staðfestu annars staðar, þar sem eignir þeirra voru þannig bundnar og ekki hægt að koma þeim í peninga. Hefur þetta komið sér illa fyrir margan manninn, sem vegna heilsuleysis eða aldurs hefur orðið að hætta búskap. Hefur varla verið um neitt annað að ræða hjá mörgum þessara manna en að selja bústofninn og sjá svo af eyðijörðinni óseljanlegrí. En ef l. eiga að bera einhvern árangur, sýnist mér, að það verði að tryggja bændum einhvern umtalsverðan hluta af verðmæti þessara eigna. Það verður að tryggja þeim andvirði einhvers umtalsverðs hluta af jarðeignum sínum, sem eftir eru og þeir geta ekki hagnýtt sér á annan hátt. En mér sýnist, að með þessu frv. sé gengið nokkuð skammt í þessu efni. Ákvæðin í 4. gr. frv. eru á þá leið, að mér sýnist ekki, að vonir standi til þess, að þessir bændur fái mikið verð fyrir jarðir sínar. Í 4. gr. frv. segir, að kaupverð jarða, sem Jarðeignasjóður kaupir skv. 1. gr. þessara l., skuli vera skv. matsgerð þriggja manna nefndar. En svo segir: „Við ákvörðun matsverðsins skal hafa hliðsjón annars vegar af gangverði hliðstæðra jarða, hins vegar af þeim fjármunum, sem eigandi hefur lagt í jörðina.“ Og loks segir, að kaupverðið megi þó ekki vera hærra en fasteignamat jarðanna er á hverjum tíma. Það eru tvær meginreglur settar þarna fram, sem takmarka mjög það verð, sem bændurnir geta fengið fyrir þessar jarðir. Önnur reglan er sú, að það skuli vera gangverð jarðanna. Við getum gert okkur í hugarlund, hvað muni vera gangverð óseljanlegra eyðijarða, en það eru fyrst og fremst þær, sem koma þarna, til greina, jarðir sem ekki er hægt að selja með venjulegum hætti.

Ég held, að það sé tilgangslítið að setja það sem meginreglu, að þetta skuli verða matsverð jarðanna. En þetta á tvímælalaust að vera meginregla, því að í aths. með frv. um þessa 4, gr. segir: Hér er fylgt þeirri meginreglu, að kaupverð jarða skuli miðast við framboð og eftirspurn. Eftirspurnin eftir þessum jörðum er nú ekki meiri en þetta, að þær reynast í flestum tilfellum óseljanlegar og þetta á að vera meginreglan, sem á að meta jarðirnar eftir. Hin reglan, sem ég nefndi, er sú, að Jarðeignasjóður megi þó ekki kaupa jarðirnar hærra verði en á fasteignamatsverði. Að vísu á sú regla ekki að taka gildi fyrr en væntanlegt fasteignamat tekur gildi, þ.e.a.s. það er ekki bundið við núverandi fasteignamat, heldur á þetta að vera bundið við hið væntanlega fasteignamat. Ég held þó, að þó að þetta hámark verðsins sé ekki bundið við núverandi fasteignamat, breyti þetta ákaflega litlu, fyrst hitt á að vera aðalreglan, að það sé gangverð jarðanna, sem á að fara eftir. Og þegar gangverðið er nú ekki til, fara menn varla að meta jarðirnar langt yfir fasteignamat. En í aths. segir einmitt um þetta: „Þó er sá varnagli sleginn, að kaupverðið megi aldrei vera hærra en fasteignamat jarðarinnar á hverjum tíma.“ Þetta á þó að vera önnur aðalreglan um verð á þessum jörðum. Annars vegar gangverð jarðanna, sem er í raun og veru ekkert, og hitt er fasteignamatið. Þetta eru þá þeir fjármunir, sem bændur eiga von á að fá fyrir jarðir sínar, ef Jarðeignasjóður á að kaupa þær.

Nú er ekki vitað, hvernig næsta fasteignamat verður, en það er talið af ýmsum, að það muni verða verulega hærra en núgildandi fasteignamat er á jörðum, og það er ekki ótrúlegt, þó ekki væri vegna annars en þess, hvað peningar hafa rýrnað í verðgildi. Jafnvel þó að ekki hafi verið gerðar umbætur á jörðunum, ætti það að vera eitthvað hærra af þeim ástæðum. En er nú mikil von til þess, að það verði farið að meta jörð hærra en hún var metin síðast, eftir að hún er komin í eyði og er orðin óseljanleg, sem var þó í byggð, þegar núverandi fasteignamat fór fram? Ég held, að það séu ákaflega litlar líkur til þess að nokkur matsnefnd fari að meta jarðirnar hærra verði eftir að jörðin er komin í eyði og er ekki seljanleg. Mér sýnist því, að það beri allt að sama brunni um það, að verðið sem bændur eiga von á að fá fyrir þessar jarðir sínar, getur ekki orðið sem neinu verulegu nemur hærra en núverandi fasteignamat er á þeim, ef það verður þá ekki lægra. Það segir að vísu í þessari grein, að það skuli hafa hliðsjón af fjármunum, sem eigandi hefur lagt í jörðina. En það ákvæði hefur þó svo lítið að segja, þegar búið er að binda hámarkið við fasteignamatið. Mér þykir sennilegast, að ef einhverjar umbætur hafa verið gerðar á jörð, jafnvel þó að ekki hafi verið byggt nema eitt fjárhús eða hlaða, þá séu komnir fjármunir í jörðina, sem eru miklu meiri en fasteignamatsverðið, svo að það er ekkert gagn að þessu.

Ég hef litið yfir fasteignamat á jörðum í einu sveitarfélagi á Vestfjörðum, þar sem ég er kunnugur. Þ. á m. eru 14 jarðir, sem eru allar í byggð núna, en ég tel litlar líkur til, að það komi ábúandi á þær, þegar núverandi bændur hætta búskap, af því að jarðirnar eru litlar, hafa takmarkaða ræktunarmöguleika og eru ekki vel í sveit settar. Mér þykir það fremur ótrúlegt, að nokkur af þessum 14 jörðum byggist aftur, þegar núverandi bændur hætta. En hvað um fasteignamatið á þessum jörðum? Það er hæst 12200 kr. og lægst 3000 kr., en meðalfasteignamat á öllum 14 jörðunum er 5960 kr. Nú skulum við hugsa okkur, að þessar jarðir hækkuðu eitthvað í næsta mati, jafnvel þó að þær yrðu komnar allar í eyði og reyndust óseljanlegar. Ef til vill yrðu þær hækkaðar eitthvað, við skulum segja um 50%, og þykir mér það þó frekar ótrúlegt. Þetta eru þá fjármunirnir, sem þessir bændur eiga kost á að fá fyrir jörðina, það eru kannske 6, 8, 10 þúsund, hæst upp í 18 þús. kr., dýrasta jörðin af þessum 14. Ég held að þessir bændur standi nokkurn veginn jafnréttir, hvort sem þeir fá þetta verð fyrir jarðirnar sínar eða ekki.

Það á sérstök nefnd að meta þessar jarðir, áður en kemur til þess að Jarðeignasjóður kaupi þær, en þessi nefnd hefur ekki ýkjamikið hlutverk, því að hún má ekki, eða réttara sagt henni þýðir ekkert að meta þær hærra en fasteignamatið. Það eina, sem þessi matsnefnd ætti þá að gera, væri að úrskurða, hvort jörðin skyldi seld lægra verði en fasteignamatið er, því á hærra verði má ekki selja hana. Ég hef því lagt til í brtt., sem ég flyt á þskj. 299, að fellt verði niður úr 4. gr. frv. ákvæðið um, að fara skuli eftir gangverði þessara jarða, sem ég hef sýnt fram á, að er ekkert til, og legg líka til að fella skuli niður það ákvæði, að ekki megi kaupa jarðirnar hærra verði en fasteignamatið er. Mér sýnist alveg óhætt að gefa matsnefndinni frjálsar hendur um að meta þessar jarðir og setja mönnum ekki þannig stólinn fyrir dyrnar, að ekki megi kaupa þær hærra verði en fasteignamatsverðið er. Í fyrsta lagi þarf hvort sem er að leita álits landnámsstjóra um þessar jarðir, í öðru lagi þarf að leita álits viðkomandi sveitarfélags, svo að hin væntanlega matsnefnd mundi fá það fullnægjandi upplýsingar um verðmæti þessara jarða, að henni væri trúandi til að meta þær, og Jarðeignasjóði þá heimilt að kaupa þær með því verði, sem nefndin telur sanngjarnt, en vera ekki að setja þessar hömlur á, sem hér er gert ráð fyrir.

Þá er mér ekki ljóst, hvernig fara á um þær jarðir, sem fasteignaveðslán hvíla á. Nú er það trúlegt, að á öllum fjölda þessara jarða hvíli einhver lán, jafnvel þótt litlar umbætur hafi verið gerðar á þeim, einhverjar byggingar, einhver ræktun, þá hvíla á þeim mjög sennilega einhver fasteignaveðslán. Hvernig fer um þessa bændur eða jarðir þeirra, þegar þeir hætta og geta ekki selt jörðina, en vilja selja hana Jarðeignasjóði? Á jörðinni hvílir lán, ekki kannske neitt ýkjahátt, en þó miklu hærra en fasteignamatið er á jörðinni, kannske margfalt og þarf ekki mikið til. Getur Jarðeignasjóður keypt slíkar jarðir eða falla þær allar út, þannig að þær koma ekki til greina? Ég er ósköp hræddur um, að það fari svo, að Jarðeignasjóður kaupi engar slíkar jarðir, ef á þeim hvíla lán, sem nema meiru en fasteignamatinu, af því að það á að banna Jarðeignasjóði að kaupa jarðirnar dýrari en nemur fasteignamatsverðinu. Sé lánið hærra getur Jarðeignasjóður ekki tekið það á sig, því að þá er hann að kaupa jörðina hærra verði. Hvað á þá bóndinn að gera? Á hann þá að greiða upp lánið fyrst og fara svo að selja Jarðeignasjóði jörðina fyrir ekki meira verð en þetta? Ég get ekki ímyndað mér, að það sé hugsað þannig, en það teldi ég stóran ágalla á lögunum, ef bændur yrðu allir útilokaðir frá að geta selt Jarðeignasjóði jarðir sínar, þar sem veðskuldir eru meiri en fasteignamatsverðið er.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram út af þessari grein, en ég endurtek. að það er ákaflega mikil nauðsyn, að koma þessum bændum til nokkurrar aðstoðar, sem ekki geta selt jarðir sínar, en að þessi aðstoð verður hégómi einber að mínum dómi, ef á að setja skorður við því, að enga jörð megi kaupa hærra verði en fasteignamatsverðið er, og í annan stað, að það eigi að fara eftir gangverði, gangverði á óseljanlegum eyðijörðum. Þess vegna hefði ég talið það mjög hyggilegt að lagfæra þessa grein og sé enga hættu á ferðum, þó að það væri gert.