18.10.1966
Sameinað þing: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1967

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1967, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er að fjárhæð á sjóðsyfirliti 4 milljarðar 652 millj. kr. Hækkun frá fjárlögum ársins 1966 er 852 millj. kr. eða yfir 22%.

Þegar ég virði fyrir mér niðurstöðutölur fjárlagafrv. og hækkunina frá núgildandi fjárlögum, minnist ég 1. umr. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1959, er fór fram hér á hv. Alþingi 20. okt. 1958. Það fjárlagafrv. var að niðurstöðutölum til á sjóðsyfirliti 900 millj. kr., eða lítið eitt hærra en hækkun fjárlagafrv. er nú. Það fjárlagafrv. þótti þó svo hátt, að formaður Alþfl., sem var talsmaður sins flokks í þeirri umr., komst þá m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Svona hefur þetta farið mörg undanfarin ár. Fjárlög hvers árs eru hærri en ársins á undan. Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni.“ Hver hefði trúað því, er á þá ræðu hlýddi, að 8 árum síðar væri lagt fram hér á hv. Alþingi fjárlagafrv., sem væri 416% hærra en fjárlagafrv. fyrir árið 1959 var, er skaut formanni Alþfl. svo skelk í bringu sem ég hef þegar lýst? Og allan þennan tíma, sem liðinn er síðan, að 2 mánuðum undanskildum, hefur Alþfl. setið í ríkisstjórn og situr enn sem fastast. Hann ber því ábyrgð ásamt Sjálfstfl. á þeim risastökkum, sem hafa orðið í hækkun fjárlaga. Hvað segja þeir hæstv. Alþfl.-menn nú um þróun í fjármálum ríkisins? Þeim, sem eftir þessa ræðu formanns Alþfl. 1958 treystu Alþfl. til gætni í meðferð ríkisfjár og til að stöðva verðbólgu, ætti að vera það ljóst nú, að þar var um oftraust að ræða, traust, sem Alþfl. menn geta ekki notið, eftir að reynslan hefur sannað getuleysi þeirra til að fást við vandamálin.

En það voru fleiri en Alþfl.-menn, sem gáfu fögur fyrirheit um góða fjármálastjórn og gætni í meðferð ríkisfjár árið 1958. Sjálfstfl. lét ekki sinn hlut eftir liggja þá né síðar, er hann var kominn í valdastól. Í fyrstu fjárlagaræðu Viðreisnarstjórnarinnar, sem flutt var 8. febr. 1960, komst fjmrh. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Um leið og efnahagskerfi þjóðarinnar í heild er endurskoðað og endurbætt, þarf einnig að endurskoða og endurbæta allt starfskerfi og starfshætti ríkisins sjálfs, stjórnarráðs og ríkisstofnana. Á vegum fjmrn. er hafinn undirbúningur að skipulegri hagsýslu í þágu ríkisrekstrarins.“

Kafla fjárlagaræðunnar um hagsýslu, bætt vinnubrögð, sterkari verkstjórn, meiri festu í stjórn fjármála og sparnaði lauk fjmrh. með þessum orðum: „Og það ætla ég, að allir góðir Íslendingar séu sammála um, að nauðsynlegt sé að hafa sívökult auga á öllu því í rekstri ríkisins, er til sparnaðar má horfa, bættra vinnubragða og aukinnar hagsýni.“

Þessi fögru fyrirheit gáfu óneitanlega von um góð vinnubrögð.

Á árunum 1960–65 hefur verið varið úr ríkissjóði 4.3 millj. kr. til hagsýslustarfa. Það er að vísu ekki há fjárhæð, en mestu máli skiptir um árangurinn. Um árangurinn af þessum tilburðum segir hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, svo í grg. fjárlagafrv., á bls. 85, með leyfi hæstv. forseta:

„Annað tæknilegt viðfangsefni, sem ekki kemur fram í þeim athugasemdum, sem hér hafa verið gerðar, er skortur á upplýsingum fyrir miðstjórn ríkisrekstrarins til að tengja hvert viðfangsefni, sem unnið er að, við þær fjárhæðir, sem um er beðið eða veittar eru í fjárlögunum. Eins og málum er nú háttað, er grundvöllur fjárveitinga að jafnaði rekstur tiltekinna stofnana, sem hafa tilgreindan fjölda starfsmanna. Kostnaður við rekstur stofnunarinnar er síðan áætlaður eftir tilkostnaði eða fjárveitingum síðustu ára með álagi fyrir tilkostnaðarhækkuninni. Tilvera stofnunarinnar sem skipulagseiningar skyggir þannig á eða dregur athygli frá þeim verkefnum, sem skipulagseiningin á að afkasta.“ Og síðar: „Með þeim hætti fæst oft ekkert mat á því, hversu vel eða illa stofnunin hefur sinnt sínum viðfangsefnum, þar eð fjárveitingin til stofnunarinnar miðast ekki við ákveðið viðfangsefni, heldur við rekstur stofnunarinnar.“

Hvað finnst hv. þm. og áheyrendum um þennan vitnisburð hæstv. fjmrh. eftir nærri 7 ára stjórn Sjálfstfl. á fjármálum ríkisins með hagsýslusérfræðinga, innlenda og erlenda, sér við hlið? Eftir margendurteknar yfirlýsingar um bætt vinnubrögð og sérstaka yfirlýsingu um, að þeirra sívökula auga hvíli á öllu, er til bættra vinnubragða og sparnaðar megi horfa, kemur hæstv. fjmrh. til þjóðarinnar og segir: Við vitum ekkert um ríkisreksturinn. Okkur skortir allar upplýsingar til að tengja hvert viðfangsefni, sem unnið er að, þeirri fjárveitingu, sem um er beðið. Tilvera stofnana sem skipulagseiningar skyggir á eða dregur athyglina til sín frá þeim verkefnum, sem átti að leysa, eða a.m.k. frá þeim upplýsingum, sem við og hagsýslan okkar ætlum að afla. Við göngum því frá undirbúningi fjárveitinga með því að áætla kostnað eða fjárveitingu eftir tilkostnaði síðustu ára með álagi fyrir tilkostnaðarhækkunum. Ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. fjmrh. vera í meira lagi hreinskilinn, þegar hann kemur til þjóðarinnar, fórnar upp höndunum og hrópar, að hann viti sjálfur ekkert um ríkisreksturinn, ekkert um það, hvort ríkisstofnanir sinni vel eða illa sínum verkefnum. Þó að virða beri hreinskilni að verðleikum, eru hér gefnar upplýsingar, sem ég hefði ætlað, að væru ekki fyrir hendi, og sannarlega hefði ég treyst hæstv. fjmrh. til betri vinnubragða. Mér er það ljóst, að hinir mörgu ágætu ríkisstarfsmenn eiga ekki þennan dóm skilið fyrir sín störf, þó að hæstv. ríkisstj. hafi ekki tileinkað sér meira vald á fjármálum ríkisins en svo, að eftir 7 ára setu miðar hún nánast fjárveitingu við heiti stofnana, en ekki þau verkefni, sem vinna á að.

Það þarf engan að undra, er þetta er haft í huga, þótt hækkun fjárl. eigi sér stað, eins og nú gerist með slíku heljarstökki, að það líkist því, að það eitt hafi verið haft hugfast að setja met, en ekki, hver yrði afleiðing stökksins. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að þessi játning um vinnubrögð er gerð af þeirri ríkisstj., sem mest hefur heitið þjóðinni bættum vinnubrögðum og óspart gumað af hagsýslu og ráðdeild í meðferð ríkisfjár.

Sparnaður í ríkisrekstrinum var eitt af þeim fyrirheitum, er Sjálfstfl.-menn gáfu þjóðinni fyrir valdatöku sína og í upphafi hennar. Við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1959 tók núv. hæstv. fjmrh. þátt í umr. af hálfu Sjálfstfl. Við það tækifæri komst hann m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er áreiðanlega hægt að spara á mörgum sviðum. En það þarf í senn réttsýni og kjark til þess að gera slíkar ráðstafanir. Án einbeittrar forustu fjmrh. á hverjum tíma er þess ekki að vænta, að andi sparnaðar og hagsýni ráði í ríkisrekstrinum.“

Svo mörg voru þau orð. Skal nú að því vikið, hvernig til hefur tekizt með þessi fyrirheit.

Á það hefur verið bent fyrr í þessari ræðu, að fjárlagafrv. þetta er yfir 400% hærra en fjárlagafrv. fyrir árið 1959 var. Það segir að vísu ekki allt um það, hvort sparnaðar hafi verið gætt í ríkisrekstrinum eða ekki. Þar kemur fleira til, svo sem dýrtíðarstefnan, sem ríkisstj. hefur fylgt dyggilega. En með hliðstæðum samanburði má átta sig á þessu atriði. Ef t.d. eru borin saman óviss útgjöld á 19. gr. ásamt fyrningum fyrir árin 1959 og 1967, kemur í ljós, að kostnaðurinn hefur fimmfaldazt. Launuðum nefndum átti að fækka. Þær eru einum tug fleiri nú en árið 1958. Ferðakostnaður og gestrisni valdhafanna hefur hækkað um 300–400%. Innheimta og álagning skatta og tolla átti að lækka með breyttu skipulagi. Kostnaðurinn hefur fjórfaldazt og hækkar í fjárlagafrv. frá yfirstandandi fjárl. um 30%.

Annars gerist ekki þörf að fara svo langt aftur í tímann eins og til áranna 1958–1959 til þess að gera sér ljóst, að eyðsla og útþensla veður uppi í þessu fjárlagafrv. Þar nægir samanburður við núgildandi fjárlög og fjárlagafrv., og ætla ég að taka nokkur sýnishorn til þess að sanna mál mitt. Fjárveiting til stjórnarráðsins hækkar um 25%, til saksóknaraembættisins um 30%, til borgardómaraembættisins um 41%, til borgarfógetaembættisins um 37%, til lögreglustjóraembættisins um 37%, til lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli um 40%, til sýslumanna og bæjarfógeta um 32%, til ríkislögreglunnar um 34% og til almannavarna um 46%. Þessi lestur ætti að sanna það, að í þessu fjárlagafrv. er allt annað en sparnaður í rekstri ríkisins, sem þar er til staðar.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvar voru hin mörgu svið, sem hægt var að spara á haustið 1958? Skorti nú kjark til þeirra verka eða forustu þar um? Voru það kannske verklegar framkvæmdir, sem sparnaðinum var stefnt að? Þar hefur verið dregið úr fjárveitingum, eins og ég mun sýna fram á.

Á sama tíma, sem fjárlög hækka um 416%, hækkar fjárveiting til samgangna á sjó, þ.e. til Skipaútgerðar ríkisins og flóabátanna, um 100%, og á sama tíma, sem fjárlög hækka um 22% og fjöldamargir útgjaldaliðir um 30–40%, hækka framlög til þessa málaflokks um 15%. Ástand það, sem nú er að skapast hjá Skipaútgerð ríkisins, er mjög alvarlegt, og aðgerðarleysi stjórnvalda í þeim málum sýnir úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. og viðhorf hennar til landsbyggðarinnar.

Á fjárlfrv. 1967 er varið sömu fjárhæð í krónutölu til nýrra hafnarframkvæmda og á núgildandi fjárlögum. Í árslok 1965 voru vanskil ríkisins við hafnirnar um 40 millj. kr., og miðað við framkvæmdaáætlun fyrir árið 1966 verða þær um 50–60 millj, kr. í árslok þessa árs. Með svipuðum framkvæmdum á næsta ári og þeirri fjárveitingu, sem fjárlfrv. gerir ráð fyrir, má reikna með, að vangreitt verði frá ríkissjóði til hafnargerða, — þar eru ekki taldar með landshafnir, — ca. 70–80 millj. kr. Þannig er það í ýmsum verklegum framkvæmdum, sem ríkið á að sjá um hér á landi, til þess er nú notað lánsfé. En hvenær getur ríkissjóður greitt sinn hluta af verklegum framkvæmdum, ef það er ekki hægt í slíku góðæri eins og verið hefur nú undanfarin ár? Verður það betra, þegar hann þarf einnig að borga afborganir af lánum, sem nú eru tekin?

Framsfl. flutti frv. á síðasta þingi og hefur lagt það fyrir aftur um breytingu á hafnarlögum, er í voru mörg og merk nýmæli, þ. á m. aukin hlutdeild ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum og ákvæði um greiðsluskyldu ríkisins. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að skýra, hversu fráleitt það er að veita til hafna, sem leggja í framkvæmdir upp á nokkra tugi millj., fjárveitingar, sem eru 500–700 þús. kr., eins og nú er gert. Það sýnir skilning valdhafanna á undirstöðuatriðum atvinnulífsins, þegar fjárlagafrv. hækkar um 850 millj. kr., að ekki skuli vera unnt að auka um eina krónu framlag til framkvæmda í hafnargerð. Þar má koma við sparnaði.

Annar málaflokkur, sem hæstv. ríkisstj. sá ekki ástæðu til að hækka fjárveitingu til, ekki einu sinni eftir reglulegum dýrtíðarvöxtum, eru nýbyggingar barna- og gagnfræðaskóla. Ástandið í þeim málum er þó þannig, að það eru 25 skólamannvirki, sem fjárveiting var veitt til á fjárl. 1964–65, sem ekki hefur verið fengið leyfi til að hefja framkvæmdir við enn þá þrátt fyrir valfrelsi „viðreisnarstjórnarinnar“. Auk þess eru 15 skólamannvirki frá síðasta ári, sem fengu þá fjárveitingu til undirbúnings, en ekki til framkvæmda. Það eru því alls 40 skólamannvirki, 30 barnaskólar og 10 gagnfræðaskólar, sem Alþ. hefur þegar viðurkennt nauðsyn á, að framkvæmdir skuli hafnar við, en standa þó enn við lokaðar dyr valfrelsisstjórnarinnar. Í þriðja flokki eru svo 25 skólamannvirki, sem enga áheyrn hafa hlotið við umsóknum sínum. Gerir hæstv. ríkisstj. sér ekki grein fyrir því, að þegar hún sýnir þá rausn að hækka fjárveitingar við hvert embættið á fætur öðru um 30–40%, eins og nú er gert, krefst þjóðin þess, að skólarými sé til, a.m.k. svo að börn og unglingar geti stundað skyldunám?

Eitt af þeim málum, sem verulegum deilum olli hér á hv. Alþ. við fjárlagaafgreiðsluna á síðasta þingi, var sú ákvörðun hæstv. ríkisstj. að fella niður á fjárl. þær 47 millj. kr., sem voru á fjárl. 1964–65 veittar til vegamála. Þegar frv. að nýjum vegal. var til meðferðar á hv. Alþ. í des. 1963, varð samkomulag um afgreiðslu málsins og því þá heitið, að fjárveiting á fjárl. yrði ekki lægri en þær 47 millj. kr., er þá voru veittar. Máli mínu til sönnunar þar um vil ég, með leyfi hæstv. forseta, tilfæra ummæli úr ræðu hæstv. samgmrh., Ingólfs Jónssonar, er hann flutti hér á hv. Alþ. 17. des. 1963, en þar segir svo m.a.:

„Engin hætta er á því, alveg útilokað, að ríkisframlag til veganna verði lækkað. Það er alveg útilokað. Þörf fyrir aukið vegafé frá ríkissjóði verður fyrir hendi, þó að vegamálunum hafi verið tryggt fé með benzíngjaldi, þungaskatti og gúmmígjaldi.“

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu var fjárveitingin felld niður. Það hefði mátt ætla, að þegar hæstvirt ríkisstjórn ráðstafar 850 millj. kr. til viðbótar fyrri tekjum, væri hægt að sjá af 47 millj. kr. til vegamála, ekki sízt þegar það er haft í huga, að gert er ráð fyrir 45 millj. kr. tekjuviðbót af leyfisgjöldum af bifreiðum. Ástandið í vegamálum hér á landi er slíkt, að lágmarkskrafa um fjárframlög frá ríkissjóði er, að öll leyfisgjöld af bifreiðum, 170 millj. kr., gangi til nýbygginga á vegum. Umferðin er víða orðin það mikil, að hún krefst þess, að vegir verði gerðir úr varanlegu efni, svo sem Austurvegur til Selfoss, a.m.k., hluti af Vesturlandsvegi og fjölförnustu vegir norðanlands og austan. Við eigum líka eftir að ljúka hringvegi umhverfis landið, auk ótalmargra smærri verkefna.

Hæstv. ríkisstj. verður að gera sér grein fyrir því, að þegar hún hækkar fjárlög á einu ári um 800–900 millj. kr. og hækkar fjárveitingu til margra embætta um 30–40% og þenur þannig út ríkiskerfið, una þeir illa og það að vonum, sem byggja hafnir og fá ekkert af viðbótarfénu, — þeir, sem neitað er um að byggja skóla, þótt þörfin sé brýn, — þeir, sem aka ófæra vegi, en greiða þó alltaf meira og meira fé til ríkissjóðs, — og þeir, sem bíða eftir rafmagni, en fá aðeins um 12% hækkaða fjárveitingu, sem nægir ekki til að framkvæma svipað verk og gert var á s.l. ári.

Hér að framan hef ég eingöngu rætt um útgjaldahlið fjárlagafrv., en nú mun ég snúa mér að tekjuáætluninni. Það, sem fyrst vekur athygli mína þar, er, að engin skýring er gefin á 2. gr. fjárlagafrv., þ.e. tekjum af sköttum og tollum. Hún er þó ekki ómerkilegri en það, að ætlazt er til, að hún gefi ríkissjóði tekjur að fjárhæð 4 milljarðar 63 millj. kr. og hækkar frá gildandi fjárl. um 774 millj. kr. Vonandi er hér um handvömm að ræða, þótt ótrúlegt sé, og hefur slíkur atburður ekki hent, síðan ég fór að kynnast fjárlagafrv. hér á hv. Alþ. fyrir áratug. Það vekur athygli, að gert er ráð fyrir, að tekjur af tekju- og eignarskatti hækki um 46% á næsta ári. Ef gerður er samanburður á tekjum þessa fjárlagafrv. af sköttum og tollum og fjárlagafrv. 1959, kemur í ljós, að hækkunin er 576%. Góðar efndir á fyrirheitinu um lækkun skatta og tolla, þetta!

Það kemur mjög greinilega fram hringlandaháttur og stefnuleysi hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjárlagaafgreiðslu á s.l. ári og verðlagsmálin. Þegar verið var að afgreiða fjárl. fyrir árið 1966, fór ríkisstj. víða til fanga og hirti þá ekkert um það, þó að tekjustofnar þeir, er þá voru upp teknir, hækkuðu verðlag og vísitölu jafnharðan. Þannig var það með rafmagnsskattinn, sem hækkaði allt rafmagnsverð í landinu um 10–20%. Sama er að segja um hækkun á flutnings- og fargjöldum, sem voru afleiðing af hækkuðum benzín- og þungaskatti. Hætt var niðurgreiðslum á nokkrum vörutegundum á s.l. vori, og nam sú upphæð um 50–60 millj. kr. Allar þessar ráðstafanir og fleiri, sem hér eru ótaldar, voru gerðar vegna þess, að að dómi ríkisstj. stóð fjárhagur ríkissjóðs svo illa, að leita varð allra ráða til þess að bjarga honum. Afleiðingin varð sú, að verðlagsvísitalan hækkaði um nokkur stig um sumarmánuðina, en þá fóru viðhorfin í verðlagsmálum að breytast. Dag einn í septembermánuði var tekin ákvörðun um að hækka niðurgreiðslur um ca. 100 millj. kr., og nú voru nógir peningar til í ríkissjóði til þess að framkvæma þá ákvörðun. Og þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1967 er lagt fram hér á hv. Alþ.; sýnir það sig, að tekjustofnarnir, sem talið var mjög hæpið að skiluðu þeirri fjárhæð, sem þeim var ætlað á s.l. ári, eru taldir skila á næsta ári 852 millj, kr. hærri upphæð en þá var áætluð. Og nú dregur enginn hv. þm, stjórnarliðs í efa, að tekjustofnarnir skili sínu. Hins vegar er nú komið upp nýtt vandamál, sem enginn þeirra stjórnarliða hafði áhyggjur af á s.l. vori, eða fram eftir þessu ári. Það er hækkun á verðlagi í landinu. Allt verður að gera til þess að stöðva verðhækkanir, segir hæstv. ríkisstj. Ekki stendur á forustu okkar þar um. — Og nú skorar hún á fólkið í landinu, hvar í flokki sem það er; að það standi fast með ríkisstj. í því að koma verðstöðvun í framkvæmd. Við erum. segir hæstv. ríkisstj., á vegamótum velgengni og vandræða. Það er stefnufesta þetta, eða hitt þó heldur. Eftir að ríkisstj. sjálf hefur með ráðstöfunum sínum svo að segja spanað upp verðlagið í landinu allt þetta ár, er nú þotið upp til handa og fóta og boðuð verðstöðvun, og á sama tíma og það er gert réttir ríkisstj. fram fjárlagafrv., sem er 800–900 millj. kr. hærra en gildandi fjárlög. Það er meiri hækkun en nokkru sinni fyrr á fjárl. og boðar að taka um 46% hærri tekju- og eignarskatt en á yfirstandandi ári. Það eru hraustir menn, hæstv. ráðh. okkar, að bera slíkt á borð samtímis, og trúgjarnir, ef þeir halda, að þetta tvennt sé framkvæmanlegt: að stöðva verðlagið og hækka fjárl. eins og hér er stefnt að. Ríkisstj., sem þannig heldur á málum, nýtur að vonum ekki þess trausts, sem hún þarf að njóta, til þess að taka á verðbólgunni eins og þörf er, enda veit enginn, hvort sú stefna, sem boðuð er úr stjórnarherbúðunum í dag, endist fram í næsta mánuð eða lengur. Ef að líkum lætur, eru litlar vonir til þess.

Í ræðu minni hér að framan hef ég að mestu haldið mig við að ræða fjármál ríkisins og framkvæmd hæstv. ríkisstj. á þeim. Ég mun nú víkja nokkrum orðum að stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum og horfum í þeim málum í dag, en vil fyrst vekja athygli á þeim möguleikum, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft á því að koma stefnu sinni í framkvæmd.

Ríkisstj. tók í sínar hendur strax í upphafi valdatímabilsins stjórn á peninga- og bankamálum í landinu. Hún hefur látið Seðlabankann framkvæma þá stefnu með því að hækka vexti, stytta lánstíma fjárfestingarlána, frysta hluta af sparifénu. Hún hefur sjálf, ríkisstj., staðið í beinum samningum um kaup og kjör við verkalýðinn undanfarin ár og einnig átt hlut að verði landbúnaðarafurða. Allt stjórnartímabilið hefur verið góðæri og nú síðustu árin afbragðsárferði, svo að aflabrögð hafa verið slík, að þau eru tvöföld á við meðalaflaár. Allt hefur selzt, er á land hefur komið, fyrir hærra verð en nokkru sinni fyrr. Það er ekki fyrr en á þessu ári, að á því hefur orðið breyting. Þetta stutta yfirlit sannar, að stefna ríkisstj. hefur getað notið sín og ríkisstj. hefur ekki við neinn að sakast nema sjálfa sig, hvernig komið er í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Og hvernig er ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar í dag? Það er í stuttu máli þannig, að helmingur togaraflota landsmanna er annaðhvort seldur úr landi eða bundinn við bryggju. Engin endurnýjun hefur átt sér stað á þeim flota síðustu árin og allt í yfirvofandi hættu með áframhald þeirrar atvinnugreinar. Sá hluti bátaflotans, sem aflar hráefnis fyrir frystihúsin, hefur ekki starfsgrundvöll. Ár er liðið síðan ríkisstj: tók það mál í sínar hendur með skipun n., en ekkert hefur enn þá heyrzt þrátt fyrir mjög alvarlegt útlit um áframhaldandi rekstur þessarar mikilvægu atvinnugreinar. Frystihúsin loka nú hvert af öðru vegna rekstrarfjárskorts og vegna þess, að rekstrargrundvöll vantar sökum verðbólgu og skorts á hráefni. Flest iðnaðarfyrirtæki í landinu eiga í vök að verjast vegna dýrtíðar og rekstrarfjárskorts og harðrar samkeppni frá erlendum fyrirtækjum. Sum iðnaðarfyrirtækin hafa orðið að hætta rekstri sínum vegna þess, hvernig stjórnvöldin búa að þessari atvinnugrein, og æ fleiri eru í hættu um, að rekstur þeirra stöðvist. Ekkert mun þó geta haft jafnmikil áhrif til viðhalds jafnvægi í byggð landsins og aukinn og vel rekinn iðnaður. Þetta er flestum ljóst nema hæstv. ríkisstj. Hennar orka og umhyggja fer til þess að hagræða fyrir erlendum fyrirtækjum til atvinnurekstrar í landinu.

Hver er ástæðan fyrir þessu erfiða ástandi atvinnuveganna mitt í góðærinu? Ég hef hér að framan sýnt fram á stjórnleysi og hringlandahátt hæstv. ríkisstj. Það hefur sitt að segja um ástand þessara mála, en aðalástæðan er þó álöguæði það, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið haldin af. Hún mun ekki láta sér nægja að innheimta til ríkissjóðs 576% hærra í sköttum og tollum, eins og stefnt er að með þessu fjárlagafrv., heldur hefur hún hrúgað saman alls konar sérsköttum svo að segja með hverju máli. Má þar nefna launaskatt, bændaskatt, iðnlánasjóðsgjald, veitingahússkatt, margfaldaðan benzín- og þungaskatt, sementsskatt, timburskatt, umferðarskatt, ríkisábyrgðasjóðsgjald og e.t.v. eitthvað fleira. Þar við bætast svo háu vextirnir og óhagstæð fjárfestingarlán. Allt þetta skattafargan og ráðstafanir í peningamálum hafa verið hugsaðar af hendi valdhafanna sem tæki, sem gerði þeim auðveldara að stjórna efnahagsmálunum og þjóðinni. Allt hefur þetta mistekizt. Dugnaður og framsækni fólksins í landinu hefur komizt yfir allar hindranir og því tekizt að halda fram gegn rangri stjórnarstefnu með síaukinni orku. Þetta hefur í för með sér, að allar ráðstafanir stjórnarvaldanna, svo sem háu vextirnir og háu skattarnir, leika nú lausum hala í efnahagsmálum þjóðarinnar og verka þar sem aflgjafi á vöxt verðbólgunnar. Hæstv. ríkisstj. situr eins og illa gerður hlutur, úrill og úrræðalaus, mitt í vandræðaástandinu, sem nú er að skapast, og rembist eins og rjúpa við staur að halda sér í ráðherrastólunum og kenna öðrum um sín eigin mistök, - þessi mistök, sem eru orðin það alvarleg, að hæstv. forsrh. sendi út neyðarskeyti til stjórnarandstöðunnar á Varðarfundinum í gærkvöld og bað þá um aðstoð, sem var eitthvað á þá leið: Okkur sýnist sem góðærið sé að verða búið í bili. Viljið þið hjálpa okkur til þess að hanga í ráðherrastólunum fram yfir kosningar? Eftir það þurfum við ekkert á ykkur að halda, ef við vinnum þær.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu, en vil að lokum undirstrika þetta: Í fyrsta lagi: hækkun þessa fjárlagafrv. er slík, að undrum sætir. Frv. er að fjárhæð 4 milljarðar 652 millj. kr., þ.e. sama fjárhæð og níu fjárlög Eysteins Jónssonar voru á árunum 1950–1958. Þau voru samtals 4 milljarðar 654 millj. kr. Ekki var að undra, þó að þeim Morgunblaðsmönnum þættu þau fjárlög há. Í öðru lagi hef ég vakið athygli á þeim vinnubrögðum, sem hæstv. ríkisstj. greinir frá, að viðhöfð séu við stjórn á fjármálum ríkisins. Í þriðja lagi hef ég bent á þá eyðslu og útþenslu í ríkiskerfinu, sem einkennir þetta fjárlagafrv. Í fjórða lagi er sýnt fram á það, hve hlutur verklegra framkvæmda rýrnar með hverju fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. Í fimmta lagi hef ég vakið athygli á hinu alvarlega viðhorfi í atvinnumálum þjóðarinnar, Í sjötta lagi hef ég sýnt fram á það, að hæstv. ríkisstj. hefur fengið góð tækifæri til þess að stjórna málefnum þjóðarinnar, en vegna rangrar stjórnarstefnu og hringlandaháttar hefur það mistekizt. Í áttunda lagi legg ég áherzlu á það, að hér verður engu um þokað til umbóta í fjármálum ríkisins nema með breyttri stjórnarstefnu.

Að allra síðustu þetta: Ef hæstv. ríkisstj. hefur talið sig eiga það erindi, er hún hóf ferð sína í valdastólana, að stjórna málefnum þjóðarinnar, hefur hún fyrir löngu gleymt erindinu. Það er því mikils virði fyrir þjóðina, að stutt er nú að ferðalokum. — Góða nótt.