05.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við upphaf þessarar umr. fyrir alllöngu gerði ég grein fyrir tveimur brtt., sem ég flutti við þetta frv. Önnur þeirra er á þskj. 361, og er þar um að ræða till. um breyt. á einni af till. hv. landbn., sem hún flytur á þskj. 331. Í þeirri till. n. er lagt til að inn í frv. verði sett ákvæði um, að heimilt sé að selja þær jarðir, sem keyptar verða skv. væntanlegum l., einstaklingum til varanlegrar ábúðar, eins og þar segir. Ég legg til, að við þennan tölulið og staflið bætist: „Einnig sé heimilt að byggja jarðirnar á erfðaleigu.“ Hin till., sem ég hef flutt og gerði þá einnig grein fyrir, er á þskj. 297 og fjallar um það að fella burt 13. gr. frv., en hún kveður svo á, að um leið og l. þessi öðlast gildi, skuli falla úr gildi 1. um jarðakaup ríkisins frá 1936. Hæstv. landbrh. hefur nú viðurkennt, að það sé engum til meins, að sú löggjöf fái að halda gildi sínu áfram, l. frá 1936, og hann viðurkenndi einnig, að það gæti komið fyrir, að síðar yrði þörf fyrir slíka lagaheimild fyrir ríkið til að kaupa jarðir með það fyrir augum að leigja þær á erfðafestu. Ég tel því, að öll rök mæli með því að brtt. mín um að fella niður 13. gr. frv. verði samþykkt.

En við upphaf þessarar 3. umr. bar ég fram fsp. til hæstv. landbrh, og hún var um það, hvað væri að frétta af störfum n., sem skipuð mun hafa verið árið 1963, skv. þál. sem afgreidd var frá hinu háa Alþ. 9. apríl 1963, um ráðstafanir til að tryggja, að hlunnindajarðir haldist í ábúð, og athugun á því, hvers vegna góðar bújarðir fari í eyði. Hæstv. ráðh. talaði eftir að ég hafði borið fram þessa fsp., en minntist ekkert á málið, og ég vildi nú leyfa mér að ítreka þessa fsp. og þætti gott, ef hann gæti gefið upplýsingar um störf, þessarar n. og árangurinn af þeim, því ég minnist þess ekki, að neitt hafi komið fram opinberlega um málið eða störf þessarar n.