05.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég get verið fáorður í þetta sinn, þar sem tveir hv. þm. hafa eindregið stutt þá brtt., sem ég flyt við þetta frv. á þskj. 299. Sé ég ekki þörf á að endurtaka það, sem ég hef áður sagt um það, en ég vil þó benda enn á það, að höfuðreglan, sem matsnefndinni er skylt að fara eftir, er gangverð á þessum jörðum. Það er ekki aðeins, að ég leggi til að úr 4. gr. falli burt það ákvæði, að ekki megi kaupa jarðirnar hærra verði en fasteignamat er, heldur falli líka niður það ákvæði, að farið skuli eftir gangverði hliðstæðra jarða. Því að eins og ég hef sýnt fram á, þá er gangverð á óseljanlegum eyði jörðum bókstaflega ekkert til. Og það eru fyrst og fremst þessar óseljanlegu eyðijarðir, sem frv. er miðað við. Ég vil þó endurtaka eina fsp. mína til hæstv. ráðh., en hún er um það, hvernig eigi að fara að, þegar einhver vill selja jörð sína ríkinu eða Jarðeignasjóði og á henni hvílir skuld, sem er hærri en fasteignamatið. Er það þá ekki alveg ótvírætt, að allar þær jarðir eru útilokaðar frá því að Jarðeignasjóður kaupi þær? Ég skil frv. svo, ef á að halda sig við þetta ákvæði 4. gr., að allar þessar jarðir verði útilokaðar.

En hitt þarf ekki að fara mörgum orðum um, að hvíli á annað borð eitthvert lán á þessum jörðum, eitthvert umtalsvert lán, þá er það hærra en fasteignamatið. Það fyndist mér alvarlegur ágalli á þessum l., ef þau yrðu þannig úr garði gerð, að enginn bóndi gæti selt eyðijörðina sína, þó hann vildi, af því að það hvíldi kannske nokkrum þús. kr. hærra lán á henni en fasteignamatið væri.

Ég vænti þess, — og væri náttúrlega ekki til of mikils mælzt, — að hv. landbn. athugi nú þessar brtt., sem liggja fyrir, áður en endanlega er gengið frá þessu máli í þessari hv. d. En ég vænti þess einnig, að hv. þm. taki til greina þessar bendingar, sem hafa komið fram um 4. gr., enda skildist mér á frsm. landbn., sem nú er horfinn af þingi í bili, að hann teldi margt rétt í þeirri röksemdafærslu sem ég viðhafði, er ég talaði fyrir þessari till. Hann sagði aðeins, að n. hefði ekki tekið afstöðu til till., en það væri margt rétt í þessu. Svo að ég býst við, að þeir finni það, að l. komi ekki að ýkja miklu gagni, ef frv. verður afgr. með þessum hætti.