05.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hér eru þrjár brtt. við frv., sem hafa verið gerðar nokkuð að umtalsefni. Í fyrsta lagi brtt. hv. 3. þm. Vestf. við 4. gr., sem lýst hefur verið og rætt hefur verið um, og ýmsir hv. þm. hafa mælt með. Þeir mæla með þessari till., vegna þess að þeir telja, að ef hún verður ekki samþ., þá geti svo farið, að bændur sem vilja selja jarðir sínar fái alltof lítið fyrir þær, þar sem miðað er við það, að kaupverðið skuli ekki fara yfir fasteignamatsverð. En nú er það svo, og það vissi n., sem samdi frv., að það er að koma nýtt fasteignamat, og þetta nýja fasteignamat hefur til hliðsjónar þau verðmæti, sem komin eru í jarðirnar, og þær byggingar, sem á jörðunum eru. Þess vegna er það eðlilegt, að miðað sé við fasteignamatið og þegar lög um Jarðakaupasjóð ríkisins voru samþ. 1936, þótti sjálfsagt að hafa þennan hemil á. Það er ekki heimilt skv. þeim lögum að kaupa jarðir á hærra verði en fasteignamati, og það er meira í þeim lögum, sem ekki er í þessu frv. Þar segir orðrétt, að kaupverðið megi ekki fara fram úr þeim fasteignaveðslánum, er á jörðinni hvíla við opinbera sjóði og lánastofnanir, og aldrei yfir fasteignamat.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. leggur mikla áherzlu á það, að gömlu l. með þessum ákvæðum megi áfram vera í gildi, en hann vill alls ekki, að lík ákvæði þessum, sem þó eru ekki nærri eins ströng, verði í hinum nýju jarðeignasjóðslögum. Þetta fæ ég nú ekki skilið, og eins og það var eðlilegt 1936 að miða við fasteignamatið er það einnig eðlilegt nú, og það er réttlátara nú, vegna þess að nú er nýtt fasteignamat að koma, sem á að verða nokkuð í samræmi við þau verðmæti, sem á jörðunum eru. Þess vegna vil ég ekki mæla með þessari till., af því að ég tel hana óþarfa. Ég tel, að með nýja fasteignamatinu og öðrum þeim reglum, sem ráðgert er að fara eftir, muni hlutur þeirra bænda, sem selja jarðir skv. þessum l., vera nokkuð tryggður.

Hv. 3. þm. Vestf. er alltaf að tala um eyðijarðir. Jarðeignasjóði ríkisins er ekki fyrst og fremst ætlað að kaupa eyðijarðir, kannske miklu síður eyðijarðir, heldur kaupa jarðir, sem ekki byggjast eða líklega ekki byggjast, þegar fráfarandi bóndi fer, og eyðijörð er það vitanlega ekki, fyrr en fólkið er flutt í burtu.

Hv: 1. þm. Norðurl. v. var að tala um það, að ég væri því nú raunverulega hlynntur, að gömlu jarðakaupasjóðslögin væru áfram í gildi. Þetta hefur nú eitthvað misskilizt, eða þá, þegar ég talaði hér síðast, að það hafi ekki verið nógu skýrt mælt. Ég skal ekkert fullyrða um það, en mig minnir þó, að ég hafi talið, að það væri alger óþarfi að hafa þessi l. í gildi. Það er rétt, að ég mun hafa sagt, að þau myndu engum tjón gera, vegna þess að eftir þeim hefur ekki verið starfað. Í meira en 20 ár hefur engin jörð verið keypt skv. þessum l., vegna þess að sjóðurinn hefur ekkert fé haft, og jafnvel þó að sjóðurinn hefði haft fé, hefði ekki verið sanngjarnt, núna síðustu árin a.m.k. að kaupa jarðir af bændum á því fasteignamati, sem hefur verið í gildi fram að þessu, því að það er, eins og við vitum, mjög lágt. Ég held satt að segja, að þó þessir hv. þm. hafi flutt till. um þetta, þá sæki þeir það nú ekki fast og hafi þegar gert sér grein fyrir því, að þetta er ekki sá kjarni eða aðalatriði málsins, sem tekur að sækja af kappi. Hitt er svo eðlilegt, að menn hafi skiptar skoðanir á þessu máli, eins og öðru, því að þetta getur verið álitamál, hvernig að skuli fara.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. flytur hérna till. á þskj. 361 um það, að það sé einnig heimilt að byggja jarðir á erfðaleigu. Það er náttúrlega ekkert, sem bannar það, skv. gildandi l., að byggja jarðir á erfðaleigu og ef það er vilji stjórnarvalda og þess, sem jörðina tekur; er ekkert í l., sem hindrar það eða bannar. Og þess vegna er þessi till. hv. þm. heldur ekki nauðsynleg, og engin ástæða til að bæta henni við till. hv. landbn.

Um fsp., sem hv. þm. lagði fyrir mig nú og síðast, þegar þetta mál var hér til umr., um n., sem var skipuð 1963 til þess að endurskoða gildandi l. um þetta efni, hef ég það að segja, að ég hef því miður ekki ennþá séð nál. frá þessari n., og verður því að ætla, að hún hafi ekki ennþá lokið störfum. Ég hef ekki ennþá orðið var við þetta nál., en ég ætlaði mér fyrir þennan fund að vera búinn að kynna mér nánar, hvað störfum n. liði og hvenær von væri á nál., en það féll nú niður. En því get ég lofað hv. þm., að ég skal grennslast rækilega eftir því á hvaða stigi þetta er, en ég geri mér alveg grein fyrir því, að þessi endurskoðun er vandasöm og vil ekki segja neitt ljótt um það, þó störfum væri jafnvel ekki lokið. Við skulum vona, að það verði þá ennþá betri till., þegar þær koma, eftir langan undirbúning og mikla umhugsun um þetta mál, en sem sagt ég mun kynna mér á hvaða stigi þetta er nú.