14.04.1967
Efri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Frv. þetta er, eins og fram hefur komið í umr. hér á hv. Alþ., ávöxtur samninga, sem gerðir voru milli Stéttarsambands bænda annars vegar og ríkisstj. Íslands hins vegar í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða á s.l. hausti. Það má að sjálfsögðu um það deila, hvort semja eigi um önnur mál í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða heldur en þau, sem snerta verðlagið beint, og það má líka um það della, ef samið er um vissa þætti mála, hvaða mál eigi að sitja í fyrirrúmi og hver ekki, því að af mörgu er að taka í landbúnaðinum, og sjálfsagt kann okkur nokkuð að greina á um það, hvað eigi að hafa forgang og hvað ekki. Þetta mál, Jarðeignasjóðurinn, er að sjálfsögðu þýðingarmikið, þótt ég líti þannig á, að það kæmi sér engu síður vel fyrir bændastéttina, að um ýmis önnur mál væri samið, og vil ég minna á nokkur mál, sem hér liggja fyrir hv. Alþ. og við höfum flutt, framsóknarmenn.

Ég vil í fyrsta lagi minna á frv. til l. um breyt. á l. um Búnaðarbanka Íslands, varðandi veðdeild Búnaðarbankans, en þetta frv. felur í sér verulega réttarbót fyrir bændastétt landsins. Nú mun kannske einhver segja, að um það hafi einnig verið samið á s.l. hausti, að veðdeild Búnaðarbankans fengi 20 millj. kr. að láni til útlána á þessu ári. Rétt er það, að veðdeildin á að fá 20 millj. kr., en þess vil ég geta í leiðinni, að veðdeild Búnaðarbankans skuldar meira en 20 millj. kr., þannig að hún er jafnnær eftir sem áður, til að taka myndarlega á útlánum, þótt hún fái þessar 20 millj., sem ennþá liggur ekki neitt fyrir um, hvenær kann að verða. En þörfin fyrir útlánastarfsemi veðdeildarinnar er allmikil, það vitum við allir.

Þá vil ég líka minna á það, að við framsóknarmenn höfum flutt frv. til l. um Bústofnslánasjóð, en það er ekki lítið í húfi hjá þeim, sem hefja búskap nú, vegna þess að þeir fá svo litla opinbera fyrirgreiðslu, að þeir eiga við mikla fjárhagsörðugleika að etja. Ég minni á þessi mál, ef til þess skyldi koma í framtíðinni, að samið yrði um viss málefni bænda í sambandi við verðlagningu, eins og það frv., sem hér liggur fyrir, ber með sér og er einn ávöxtur af þeim samningum. Það er fyrst og fremst stjórn Stéttarsambands bænda, sem hefur beitt sér fyrir þessu máli og öðrum þeim málum, sem hv. frsm. gat um, og nú hafa verið lögð fyrir Alþ. á yfirstandandi þingi.

Þá vil ég minna á það, að búnaðarþing gerði allmargar breyt. á frv. til l. um Jarðeignasjóð, og hafa flestar þær breyt. verið teknar til greina í hv. Nd. Ein till. frá Búnaðarfélagi Íslands varðandi 8. gr. frv. hefur þó ekki verið tekin til greina, en hún fjallar um það, hverjir eiga að taka þátt í að meta þær jarðir, sem Jarðeignasjóður kann að kaupa. En eins og till. okkar flm. á þskj. 495, þ.e.a.s. 2. till. varðandi 8. gr. frv., ber með sér, felur hún þá breyt. í sér, að í staðinn fyrir að Hæstiréttur tilnefni einn af þremur í matsnefndina, verði það Búnaðarfélag Íslands. Ástæðan fyrir því er í fyrsta lagi sú, að Búnaðarfélag Íslands hefur í höndum öll gögn varðandi framkvæmdir á jörðum í landinu, og þar eru menn, sem eru öllum málum kunnugir, að því er varðar jarðir og jarðasölur. Nú efast ég ekki um það, að Hæstiréttur, eða fulltrúi hans í þessum efnum, myndi geta aflað sér þessara upplýsinga, en þess ber að geta, að það hefur oft komið fyrir, að málaferli hafa risið út af jarðasölum, og ég tel því ekki rétt, að sá aðili, sem fer með æðsta dómsvald í landinu, hafi á frumstigi þessara mála aðstöðu til að fella úrskurð um verðlag. Það er því eðlilegra að fela það öðrum aðilum, og þá ekki sízt Búnaðarfélagi Íslands, sem hefur tillögurétt og úrskurðarvald

í flestum þeim málum, sem varða bændastétt landsins. Ég tel, að það sé vel fyrir því séð, að fjmrn. hafi fulltrúa í þessari n. og að hann skuli jafnframt vera form. n., eins og við leggjum til og 2. till. á þskj. 495 ber með sér, og vænti ég þess, að hv. þm. samþ. þessa till., því að ég tel hana á allan hátt hyggilegri en eins og hún er nú orðuð í því frv., sem hér liggur fyrir.

Þá er það önnur breyt., þ.e.a.s. till. á þskj. 495, og hún er við 4. gr. frv., og felur það í sér, að kaupverð jarða þeirra, sem getur um í þessu frv., sé ekki háð fasteignamati, eins og gert er ráð fyrir í frv. Í sambandi við 4. gr. frv. er vitnað í fasteignamat, skv. l. nr. 28, frá 29. apríl 1963. Þetta mat átti að vera gengið í gildi fyrir nokkru síðan, en er ekki enn komið til framkvæmda, og enginn veit hvenær það öðlast gildi, og í öðru lagi hefur enginn hugmynd um, hvernig það verður, þ.e.a.s. hvað miklar hækkanir það hefur í för með sér. Þess vegna leggjum við flm. til, að það fasteignamat, sem kann að gilda í landinu, verði ekki látið ráða neinum úrslitum um verð eða mat á þessum jörðum. Ef það sýnir sig síðar, að þetta fasteignamat, sem kann að öðlast gildi eftir nokkur ár, verður réttlátt í öllum meginatriðum, er það hægur heima að breyta þessum l. á þann veg, ef það eitt sýnist rétt vera.

Ég skal ekki, herra forseti, tefja fyrir máli þessu, en ég tel það hafa lagazt mikið í höndum Alþ., því að blærinn á upphaflega frv. var alls ekki góður, þar sem 1. mgr. 1. gr. hljóðaði þannig, með leyfi forseta: „Stofna skal sjóð, er nefnist Jarðeignasjóður ríkisins. Hlutverk sjóðsins skal vera það að kaupa jarðir í þeim tilgangi að fella þær úr ábúð“. Það var eini tilgangur þessa frv. í upphafi, en á þessu hefur orðið meginbreyting, og tel ég það vera til verulegra bóta. En hins vegar er ég sannfærður um það, að þar sem um jafnmikið stórmál er að ræða og hér er, á það eftir að sýna sig, að ekki verður hjá því komizt að endurskoða þessa löggjöf eftir nokkur ár, því að við eigum eftir að reka okkur á ótalmargt í sambandi við þetta mál, sem við sjáum ekki fyrir nú, og býst ég við að við verðum, áður en langir tímar líða, að taka þetta frv., ef að l. verður, til endurskoðunar. En þá koma tímar og þá koma ráð og þá geta menn breytt því á hagkvæmari hátt og kannske meira til heilla fyrir land og þjóð en við höfum möguleika á í dag. Ég vænti þess, að hv. þm. taki til greina þær till., sem hér liggja fyrir frá hv. 4. þm. Austf. ásamt mér, og samþ. þær. Ég veit, að það mun ekki valda neinum töfum á framgangi þessa máls á hv. Alþ., enda þótt nú sé talað um, að þingi eigi senn að ljúka, því að mér finnst, að það megi ekki hraða þingstörfum meira en það, að þau mál, sem afgreidd verða frá hv. Alþ., verði til sóma fyrir þingið, en ekkí á annan veg, eins og ég ætla að muni verða kannske um sum þeirra mála, sem þingið kann að fjalla um þessa dagana.