09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

111. mál, ríkisreikningurinn 1965

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til samþykktar á ríkisreikningnum fyrir árið 1965. Við 1. umr. fjárl. gerði ég ítarlega grein fyrir afkomu ríkissjóðs á því ári og skýrði þær umframgreiðslur, sem orðið hefðu á árinu annars vegar og orsakir umframtekna hins vegar. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka þau rök hér. Frv. þetta er samið eftir ríkisreikningnum, sem hefur verið endurskoðaður og liggur hér fyrir hinu háa Alþ., ásamt með aths. yfirskoðunarmanna og svörum rn. við þeim og enn fremur úrskurði yfirskoðunarmanna á þeim svörum. Að svo miklu leyti sem kynni að vera ástæða til umr. um reikninginn, geri ég ráð fyrir, að það muni að venju fremur verða við 2. umr., eftir að frv. hefur verið athugað í n. Ég sé því ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið að sinni, en legg til, herra forseti, að frv, verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.