18.10.1966
Sameinað þing: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er í rauninni ekki margt, sem ég þarf að svara í ræðum háttvirtra stjórnarandstæðinga. Það má segja, að það sé sorglegast, að það er augljóst að þeir flokkar, sem nú eru í stjórnarandstöðu, hafa ekkert lært og engu gleymt á því tímabili, sem liðið er, þeirri 7 ára eyðimerkurgöngu, sem þeir hafa gengið, frá því að þeir hrökkluðust frá völdum 1958. Óg það er í rauninni sorglegt, að jafngreindur maður og hv. síðasti ræðumaður skuli flytja ræðu, sem er byggð upp á jafngersamlega óraunsæjan hátt og laus við alla viðleitni til að kryfja vandamálið til mergjar eins og hann gerði hér áðan, t.d. það að nota langan hluta sinnar ræðu í töluupplestra, sem allir eru byggðir á röngum forsendum, þar sem hann er að ræða um það, að kjör verkamanna hafi versnað mikið, og tekur og byggir á tvennum forsendum, annars vegar lægsta launataxta Dagsbrúnar, sem ekki er lengur til í notkun, og hins vegar miðar hann við það tímabil, þegar 17 vísitölustigin höfðu komið ofan á kaup verkamanna í árslok 1958, nákvæmlega þau 17 stig, sem vinstri stjórnin fór á fund Alþýðusambandsþings til þess að fara fram á að yrðu felld niður, vegna þess að það væri algerlega óraunhæf kauphækkun, og þessi kauphækkun gat auðvitað aldrei staðizt. Það er vitanlegt öllum, sem vilja vita, og ef menn lesa skýrslur með því að lesa ekki eins og skrattinn biblíuna, öfugt, að þá hafa kjör verkamanna batnað meir nú á s.l. árum heldur en nokkurn tíma hefur áður átt sér stað.

Það var sagt hér áðan af öðrum hv. ræðumanni stjórnarandstöðunnar, að ráðherrarnir væru úrillir og þeir hefðu sent frá sér neyðarákall til stjórnarandstöðunnar. Þetta er mikill misskilningur. Við erum í bezta skapi og höfum enga ástæðu til annars. En það eru aðrir menn, sem eru úrillir og langar til að sitja annars staðar en þeir sitja í dag. En ég er ósköp hræddur um það, að ef þeim lærist ekki að skoða málin frá nýjum sjónarhóli, ef þeim lærist ekki að líta á þau raunsærri augum en þeir gera nú, þá eigi þeir eftir að sitja áfram í þeim stólum, sem þeir nú sitja, og kannske fækkar jafnvel þeim stólum. En ég vona innilega þeirra vegna, að þeim skiljist betur eðli vandamálanna, hinn raunverulegi kjarni þeirra, þannig að þeir verði fremur viðtalshæfir en þeir eru í dag.

Það er svo enn eins og löngum áður, að vitnað er til blessaðrar vinstri stjórnarinnar og talað um það, að eitt og annað hafi breytzt og orðið verra en það var 1958. Nú er auðvitað endalaust hægt að leika sér með tölur, og ég skal ekki taka þátt í því. En ég freistast þó aðeins til þess að gera það í einu tilfelli, þar sem verið er að ræða um það, hvað stórkostlega fjárlög hafi hækkað. Ef litið er á vinstristjórnarárin og þá að sjálfsögðu tekin saman fjárlögin og útgjöld vegna útflutningsuppbóta og niðurgreiðslna, sem þá voru lögð í sérstakan sjóð, sem búinn var til, til þess að fjárlögin litu ekki eins illa út, — það hefur ýmislegt verið prófað, — þá vildi svo til, að þessi útgjöld hækkuðu á árinu 1957 um 53.8%, þessi sameiginlegu fjárlög Framsóknarstjórnarinnar þá, vinstri stjórnarinnar, 1958 um 22.8% og 1959, sem byggðist á gjöldum, sem lögð voru á 1958, um 43.9%. Og geta menn þá séð, hvort það er einsdæmi, að fjárlög hækki eins og nú gr. um 18% útgjöldin. Það er alveg rétt, að það hafa hækkað stórlega fjárlögin, og ég fór ekki dult með það í minni framsöguræðu, af hverju það væri. Ég reyndi ekki að fela neinar staðreyndir í því efni, heldur skýrði, eftir því sem ég bezt vissi, eins rétt og satt frá öllum atvikum mála og auðið er, hvað hefur hækkað. En það verður bara að gera sér grein fyrir, af hverju þetta hefur hækkað, og ég skýrði einnig frá því. Það hefur hækkað vegna kostnaðarauka, sem orðið hefur af margvíslegum orsökum, og langt frá því, að það stafi af verðbólguþróun einni saman, en ég mun koma lítillega að því síðar.

Hv. talsmaður Framsfl. hér, Halldór E. Sigurðsson, sem annars flutti hófsamlega ræðu, vék mjög að ummælum, sem uppi hefðu verið höfð bæði af mér og fyrrv. hæstv. fjmrh. um hagsýslustörf og nauðsyn sparnaðar. ég þakka honum fyrir að rifja upp þessi ummæli. Ég get endurtekið þau enn og er þeim algerlega sammála, og ég tel ekki, að neitt af því, sem ég sagði eða stendur í fjárlagafrv., stríði á móti því, sem áður hefur verið sagt í því efni. Það liggur ljóst fyrir, að þær hagsýslugerðir, sem unnið var að undir forustu fyrrv. hæstv. fjmrh., hafa boríð mikinn árangur. Dýrar stofnanir hafa verið sameinaðar og margt annað gert, sem hefur leitt til aukinnar hagkvæmni í ríkisrekstrinum. Þetta kemur í rauninni aldrei fram, það kemur ekki fram, hvað það er, sem hefur sparazt. Útgjöldin koma fram, en hvað útgjöldin hefðu orðið mun hærri, ef ekkert hefði verið aðhafzt, það kemur ekki fram og er tölulega aldrei hægt að sanna. Það er engum efa bundið, að hér hefur mikið áunnizt. En það er óendanlega margt enn ógert og á lengi eftir að vera ógert. Og margt af því, sem t.d. hv. þáv. fjmrh. Framsfl. vildi gera og ég vann að með honum um skeið, þá sem starfsmaður hans, og ég vissi, að hann hafði fullan hug á að gera, það tókst ekki allt að framkvæma.

Það, sem hv. þm. vitnaði á fjárlagafrv. og taldi, að væri fordæming á embættismenn ríkisins, er byggt á mesta misskilningi. Það, sem þar er sagt, er, að það þurfi grundvallarathugun á starfsháttum ríkisins til þess að gera veigamiklar breytingar til sparnaðar, og á þetta hefur hvað eftir annað verið lögð áherzla. Þegar meginhluti af útgjöldum ríkisins er lögboðinn og stofnanirnar, sem til eru í landinu, eru lögboðnar, þá verður ekki margt gert nema með því að taka málið til heildarendurskoðunar og skipulagningar. Þetta tel ég nauðsynlegt að gera, og ég veit, að hann sem fjárveitinganefndarmaður mun hafa einnig áhuga á þessu.

Það er auðvelt að halda því fram og benda á, að margt hækki, og það er talað um, að eyðsla vaði uppi, en það verður fróðlegt að vita og sjá framan í tillögur um það að draga úr þessari eyðslu, sem báðir þessir hv. þm., sem lengi hafa átt sæti í fjvn., ættu að hafa möguleika til að gera, ef hér er ekki aðeins um fullyrðingar að ræða út í loftið. Það verður fróðlegt að vita það, hvaða útgjaldaliðum þeir telja mögulegt að sleppa í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir staðreyndum, það verður að taka þá útgjaldaliði eins og þeir eru, og er ekki ha:gt að hætta að greiða þá, nema grundvallabreyting verði gerð á útgjöldum ríkisins. En það er fróðlegt að athuga það, af hverju hinn bætti fjárhagur ríkissjóðs nú stafar. Menn segja það stafa af auknum álögum. Þetta er ekki rétt. Það stafar fyrst og fremst af stórbættum hag alls almennings í landinu. Verðlag hefur ekki hækkað á þeim vörum, sem fluttar eru til landsins, og megintekjuauki ríkissjóðs stafar af aðflutningsgjöldum og söluskatti, heldur stafar það beinlínis af stórauknum innflutningi, sem stafar af stóraukinni kaupgetu almennings í landinu, þannig að hér er ekki um skattaauka að ræða, heldur aðeins aukna neyzlu þjóðfélagsborgaranna. Og það er eðlilegt, að kjörin batni þannig ár frá ári, og hin aukna neyzla þarf að vera þess umkomin að standa undir þeim aukakostnaði, sem verður við ríkisbúskapinn vegna launahækkana opinberra starfsmanna, sem eru stærsti útgjaldaliður ríkisins og það, sem mest hækkar nú. Og þar kem ég aftur að verðbólgunni.

Það er margt um verðbólguna talað, og það er ekki unnt á nokkrum mínútum að gera henni skil. En ég held, að mönnum séu að opnast augun fyrir því, að hún er allt annars eðlis í meginatriðum en oft er haldið fram. Það er talað um dýrtíðar- og verðbólgustefnu ríkisstj. Ríkisstj. hefur gert nákvæmlega það, sem rétt hefur verið að gera í sambandi við þetta viðfangsefni á hverjum tíma síðustu árin, og það hefur fengið staðfestingu í aðgerðum margra annarra ríkisstjórna, sem eru þó taldar fullkomlega vinveittar verkalýð og launþegum, að sú stefna, sem hér hefur verið fylgt, er rétt. En ástæðan til hækkananna, ástæðan til verðbólgunnar er fyrst og fremst sú, að það hefur batnað hagur alls almennings í landinu. Sjávarútvegurinn hefur sem betur fer fyrir dugnað útgerðarmanna og fiskframleiðenda í leit að betri nýtingu, aukinni tækni og vegna bættrar viðskiptaaðstöðu erlendis bætt svo kjör sín, að hann hefur verið þess umkominn allt til ársins í ár með smávægilegum styrkjum að standa undir stórfelldum kauphækkunum. Aðrir atvinnuvegir í landinu hafa hins vegar ekki getað staðið undir þessum hækkunum, og það hefur leitt til þess, að verðbólgan hefur vaxið. Þar er eitt höfuðvandamálið landbúnaðurinn og búvöruverðið, sem hefur alltaf stærst áhrif á hverju hausti. Landbúnaðurinn hefur ekki verið þess umkominn að taka á sig án hækkaðs vöruverðs þann kostnaðarauka, sem hefur leitt af launahækkunum. Og þessar launahækkanir sjávarútvegsins hafa eðlilega gengið yfir bæði til bænda, til iðnverkafólks og til opinberra starfsmanna, því að allar þessar stéttir hljóta að gera kröfu til þess að fá sambærileg kjör og sjómennirnir hafa notið. Hér er þess vegna ekki um neinar hörmungar út af fyrir sig að ræða, að aðalframleiðsluatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, skuli hafa verið þess umkominn, en það hefur leitt af sér önnur vandamál. Þegar því rætt er um það, að hin stóraukna framleiðsla sjávarútvegsins og verðhækkanir þar hafi orðið til þess að hjálpa ríkisstj. síðustu árin, þá er það misskilningur að þessu leyti.

Það hefur verið talað um, að það hafi verið dregið stórlega úr opinberum framkvæmdum, og það var á það bent af hv. talsmanni Framsfl. hér áðan, að það sýndi fjandskap við landsbyggðina. Þetta er mesti misskilningur. Þetta var úrræði hv. fjmrh. Framsfl. æ ofan í æ á sínum tíma, að draga úr verklegum framkvæmdum, og var það þó ekki af hliðstæðum ástæðum og nú er gert. Mér dettur ekki í hug að halda, að það hafi verið gert af fjandskap við landsbyggðina, heldur vegna þess, að þetta eru einu útgjöldin, sem í raun og veru eru ekki lögbundin, það eru eignahreyfingaútgjöldin — fjárfestingarútgjöld ríkissjóðs. Í dag kemur svo að sjálfsögðu það til viðbótar, að á þenslutímum er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa hóf á opinberum framkvæmdum og keppa ekki um of við uppbyggingarviðleitni einkaaðila, en á tímum minnkandi þenslu eða atvinnuleysis á að auka hinar opinberu framkvæmdir.

Það er ekkert launungarmál, að síðustu árin hefur með hliðsjón af almennum framkvæmdahraða í landinu þótt rétt að gæta hófs í aukningu opinberra framkvæmda. En því fer fjarri, að um samdrátt hafi verið að ræða. Segja fjárveitingar í fjárlögum ekki nema hluta þeirrar sögu, því að síðan framkvæmdaáætlunargerð hófst árið 1963 hefur mikils fjár verið aflað með öðrum hætti bæði til þarfa ríkis og sveitarfélaga. Þrátt fyrir aðhaldið er staðreyndin sú, að opinberar framkvæmdir hafa verið meiri síðustu árin en áður hefur þekkzt.

Reynt er að nota vegamálin til áróðurs gegn ríkisstjórninni, og í Tímanum í dag sjáum við lofgjörð um það framtak framsóknarmanna að leggja til að taka af ríkissjóði 170 millj. kr. og leggja til vegagerða: Það er þægilegt að vera stórtækur, þegar menn þurfa ekki að gera annað en skrifa nokkrar línur á blað. Sannleikurinn er þó sá, að síðustu árin hefur verið lagt miklu meira til vegagerðar en áður. Má þar til greina áður óþekkt stórátök, svo sem Keflavíkurveg, Strákaveg, Múlaveg, og vegagerð samkv. Vestfjarðaáætlun. Í flugmálum eru miklu meiri framkvæmdir í ár en nokkru sinni áður. Sama er að segja um sjúkrahúsabyggingar nú síðustu árin, og fjárveitingar eru nú hækkaðar til þeirra um 14 millj. kr. Skólabyggingum hefur verið haldið áfram með eðlilegum hraða og stórátök gerð í byggingarmálum framhaldsskóla, einkum menntaskólanna. Þótt skuldir ríkissjóðs við hafnargerðir hafi aukizt, er það afleiðing af miklum framkvæmdahraða á því sviði, sem ríkisvaldið hefur haft meginforustu um varðandi fjárútvegun. Þannig má halda áfram að telja.

Auðvitað er hægt að benda á ótal óleyst verkefni. En er það ekki svo í hverju einasta þjóðfélagi? Það er líka oft látið svo, að öll útgjöld ríkissjóðs, sem ekki eru beinlínis til verklegra framkvæmda, séu nánast vandræðaeyðsla. Þetta er mikill misskilningur. Menntun æskunnar og margvísleg rannsókna- og vísindastarfsemi er ekkert síður nauðsynleg fjárfesting, og á þessu sviði hækka útgjöld hvað mest árlega. Og er ekki sama að segja um heilsugæzlu og hin stórauknu útgjöld til félagslegra umbótamála?

Nei, það tjóar ekki það eitt að finna að því ástandi, sem ríkjandi er. Það verður líka að gera þá kröfu til stjórnarandstæðinga hverju sinni, að þeir bendi á, hvaða úrræði beri þá að velja til þess að leysa vandann eftir öðrum leiðum. Og það tjóar þar ekki, eins og ég áðan sagði, að fara með algerlega óraunhæfar fullyrðingar, eins og að tala um verzlunargróða og annað þess konar, sem allir vita í dag, að er algerlega út í hött. Þar bendir bezt á afkoma Sambands íslenzkra samvinnufélaga, og hv. þm., sem hélt þessu fram, mætti spyrja forráðamenn KRON, hvort verzlunargróðinn sé stórkostlega mikill. Það er einnig fróðlegt að heyra það frá talsmanni verkalýðssamtaka, sem telur sig vera, að ráðast að ríkisstj. fyrir það, að það hafi verið aukinn innflutningur á vörum, sem hafi skapað vissulega vandræði fyrir ýmis iðnaðarfyrirtæki. En af hverju hefur sá vandi skapazt? Af því að þessar vörur eru ódýrari. Og það hlýtur að sjálfsögðu að kosta það, ef á að halda uppi aukinni tollvernd og hindra innflutning vara, til þess að hægt sé að halda uppi vissum iðngreinum íslenzkum, sem ekki geta keppt, þá leiðir það til þess, að það verður að kosta almenning það, að hann borgi meira fyrir vöruna en ella hefði verið með hinum frjálsa innflutningi. Þannig rekur sig anzi margt hvert á annars horn, ef um þetta er rætt.

Það er ósköp auðvelt í ræðu að varpa því fram, að allt megi hækka nema kaupið, eins og sagt er, þegar hækkanirnar stafa ekki hvað sízt af því, að kaupið hefur hækkað. Það er vissulega rétt, að kaupið hækki, eftir því sem mögulegt er hverju sinni og atvinnuvegirnir geta borið. En það verður aldrei nein raunhæf kauphækkun úr því, ef krafizt er óeðlilegra hækkana, sem aðeins leiða til aukinnar verðbólgu og til þess ástands, að það verður að gera kröfur um auknar álögur og skatta á almenning. Við stöndum andspænis því í dag, sem hér hefur réttilega verið bent á, að við erum svo gæfusöm, að við höfum hagstæðan ríkisbúskap, sem gerir það mögulegt án nýrra skatta að stöðva þá verðbólgu, sem við er að stríða nú, og mæta vandræðunum með viðráðanlegum hætti, ef menn aðeins gefa sér tóm til þess að gera það og dæma vandamálin rétt.

Ég sagði í frumræðu minni, að sem betur fer benti margt til þess, að almenningur og stéttarsamtök væru farin að líta efnahagsmálin raunsærri augum en áður og gera sér grein fyrir því, að óábyrg afstaða í þeim efnum leiddi fyrst og fremst til vandræða fyrir þjóðina í heild, en ekki þá ríkisstj., sem sæti í það og það skiptið. Þetta er ekki hvað sízt að þakka aukinni upplýsingastarfsemi hlutlausra stofnana, samstarfsnefndum hagsmunasamtaka og ríkisvalds og nú síðast stofnun hagráðs. Fullkomin hreinskilni af hálfu ríkisstj, og einlægni í samvinnu hefur loks stuðlað að því andrúmslofti, sem leitt hefur til skynsamlegrar úrlausnar margra erfiðra vandamála og lengri samfellds vinnufriðar en áður. Því miður hefur hin pólitíska forusta stjórnarandstöðuflokkanna kosið að fara hina leiðina, leið blekkinga og ófriðar. Áframhald þess blómaskeiðs framfara og velmegunar, sem ríkt hefur síðustu 5 árin samfellt, er hins vegar því háð, að valin sé stefna raunsæis og friðsamlegs samstarfs. Það er sannfæring mín, að þjóðin hafi almennt trú á nauðsyn þessarar stefnu og því eigi öfgafullur málflutningur, blekkingar um eðli vandamálanna og ábyrgðarlaus yfirboð sér engan hljómgrunn. Vegna hinnar miklu efnahagslegu uppbyggingar síðustu ára stendur efnahagur þjóðarinnar traustum fótum, og nú er um það eitt að ræða að misstíga sig ekki. Það þarf enginn að fórna neinu, ef skynsamlega er á haldið, heldur þarf aðeins að nema staðar um stund og búa sig því betur undir næstu sóknarlotu til aukinnar velmegunar. - Góða nótt.