14.04.1967
Neðri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

111. mál, ríkisreikningurinn 1965

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykn. var að mæla hér fyrir áliti meiri hl. fjhn., en það er nú reyndar ekki meiri hl., sem skrifar undir álitið, heldur aðeins 3 af 7 nm. En það er ekki enn búið að útbýta, og tæplega búið að prenta ennþá, nál. minni hl. Í honum er hv. 11. þm. Reykv. auk mín. Við erum búnir að skila þessu til skrifstofunnar, en það er ekki komið ennþá. En hins vegar, ef hæstv. forseti óskar þess, get ég talað fyrir okkar nál., þó að það sé ekki búið að útbýta því.

Þessi ríkisreikningur fyrir 1965 sýnir m.a. stórfelldar álögur á þjóðina, mikla eyðslu, en jafnframt mikla hlutfallslega lækkun á ríkisframlögum til verklegra framkvæmda. Yfirskoðunarmenn hafa gert nokkrar aths. við reikninginn, m.a. um miklar eftirstöðvar hjá innheimtumönnum og útistandandi skuldir hjá ýmsum ríkisfyrirtækjum, og hefur svo verið undanfarin ár.

Skömmu eftir að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, var allmikið talað um það af ráðh. og málsvörum þeirra, að nú mundi hafinn verulegur sparnaður í ríkisrekstrinum. Og ég minnist þess, að hæstv. fyrrv. fjmrh. kom með langan lista hér á Alþ. um sparnaðaratriði. Þau skiptu nokkrum tugum áreiðanlega, sem hann taldi, að væru til nákvæmrar athugunar hjá ríkisstj. Og fljótlega var sett á stofn af ríkisstj. eitthvert fyrirtæki, sem ég held, að hún nefni hagsýslu. Ég sé, að skv. þessum ríkisreikningi hefur verið varið til hagsýslunnar rúmum 700 þús. kr. Ég hef hins vegar ekki talið saman á ríkisreikningum fyrri ára, hve búið er að verja miklu fé samtals til reksturs á því fyrirtæki, en sjálfsagt er það orðin lagleg fúlga. En hins vegar hefur farið mjög lítið fyrir uppskeru af því sáðkorni. Ég vil aðeins nefna hér eitt dæmi um það, hvernig sparnaðarfyrirheit núv. ríkisstj. hafa reynzt í framkvæmdinni. Árið 1961 lagði stjórnin fyrir Alþ, frv. til nýrra laga um tekjuskatt og eignarskatt og fékk það frv. samþ. þá á þinginu. Það nýmæli var í þeim l., að skattanefndir í sveitarfélögum voru lagðar niður, en landinu skipt í 8 skattumdæmi með einum skattstjóra í hverju. Stjórnin og talsmenn hennar töluðu og skrifuðu um það sem mikið hreystiverk að leggja niður 219 skattanefndir með 657 mönnum og 24 yfirskattanefndir að auki, og um þetta sagði ríkisstj. m.a. í aths., sem fylgdu frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Fer ekki hjá því, að hér verði um talsverðan sparnað að ræða“.

En hvað segir ríkisreikningurinn okkur um sparnaðinn? Síðasta árið, sem eldra fyrirkomulagið um skattálagninguna var í gildi, en það var 1961, var kostnaður við skattanefndir, skattstofur og ríkisskattanefnd samtals 11 millj. 200 þús. kr. En skv. þessum ríkisreikningi var kostnaður við skattstofur og ríkisskattanefnd árið 1965 32 millj. 148 þús. kr. Þannig hefur kostnáður við álagningu skattanna um það bil þrefaldazt á 4 árum. Þannig fór um sparnaðinn, sem stjórnin sagði, að nýja kerfið mundi hafa í för með sér. Nú skal ég ekki segja um það, hvort skattálagningin er nokkuð betur framkvæmd nú en áður var. Um það treysti ég mér ekki til að dæma. En hitt vita allir, að nýja kerfið er langtum seinvirkara en það gamla, og það hefur í för með sér m.a. það, að það seinkar innheimtu á opinberum gjöldum, hvað skattskrárnar koma seint fram víða um land. Þess munu dæmi nú á síðari árum, að sýslumenn hafa ekki getað haldið manntalsþing fyrr en á jólaföstu, en það var venja í gamla daga að halda þau að vorinu.

Ég læt þetta eina dæmi nægja til að sýna það, hvað sparnaðarfyrirheit stjórnarinnar hafa haft mikið gildi.

Fjhn. hefur fengið afrit af skýrslu ríkisendurskoðunarinnar dags. 10. janúar s.l., sem hún sendi yfirskoðunarmönnunum. En á þeirri skýrslu sést, hvað eftir var að endurskoða af reikningum ríkisstofnana, embætta o.fl. hinn 31. desember 1966, þ.e.a.s. hvað eftir var að endurskoða af reikningum fyrir árið 1965 eða eldri tíma. Einnig hefur n. fengið yfirlit dags. 12. þ.m., er sýnir, hvað unnið hefur verið að endurskoðun þeirra reikninga, síðan skýrslan var gefin út. Af þessum gögnum sést, að enn er ólokið endurskoðun allmargra reikninga fyrir árið 1965 og nokkurra frá fyrri árum. Við teljum í minni hl. fjhn., að ríkisreikninga eigi ekki að samþykkja á Alþ., fyrr en endurskoðun þeirra er lokið. Þess vegna leggjum við til við hæstv. forseta, að hann fresti nú afgreiðslu málsins, taki það út af dagskrá, og það verði ekki tekið fyrir á þingi, fyrr en upplýsingar liggja fyrir um það, að endurskoðun reikninganna, ríkisreikningsins og þeirra undirreikninga, sem hann byggist á fyrir 1965, sé lokið. Þetta er sú regla, sem ég tel, að eigi að fylgja, og þetta er í samræmi við það, sem ég hef haldið fram hér á undanförnum þingum. Ég hef bent á það til samanburðar, að sýslunefndir samþykkja reikninga sveitarsjóða, og það mun aldrei koma fyrir, að sýslunefndir samþykki óendurskoðaða hreppsreikninga, heldur er því máli þá frestað, þar til endurskoðun er lokið, og Alþ. ætti ekki að vera linara í kröfum að þessu leyti með reikningsskilin en sýslunefndirnar. Þess vegna leggjum við það til, að málinu verði frestað, og ég vil beina því til hæstv. forseta.

Þegar menn sjá okkar nál., verður þar birt með þessi skýrsla ríkisendurskoðunarinnar, sem ég gat um frá 10. janúar og sömuleiðis bréf sömu stofnunar frá 12. apríl, og af þeim gögnum geta menn séð, á hvaða stigi endurskoðunin nú er.