16.02.1967
Efri deild: 40. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

122. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur gert hv. d. grein fyrir frv. um að leggja niður Viðtækjaverzlun ríkisins og hefur skýrt orsakir þess, að það mál er hér flutt, sem eru í stuttu máli þær, að fyrirtæki þetta hefur ekki lengur neinn eðlilegan starfsgrundvöll. Síðustu árin hefur afkoma viðtækjaverzlunarinnar verið það slæm, að tekjur hennar sjálfrar hafa ekki nægt til að standa undir reksturskostnaði, heldur hefur einnig orðið að nota hluta af því fé, sem innheimt hefur verið sem afgreiðslugjald frá öðrum aðilum, sem viðtæki selja, til þess að greiða hallarekstur fyrirtækisins. Eins og hæstv. menntmrh. gat um, hefur það komið í ljós, að ekki væri auðið að halda lengur áfram rekstri þessa fyrirtækis með neinum viðhlítandi hætti, enda augljóst, að öll aðstaða nú í dag er gjörbreytt varðandi þá þjónustu, sem hér er um að ræða. Það eru ótal aðilar í þjóðfélaginu nú, sem vinna að þessum málum, ríkissjóði að kostnaðarlausu, og ef hægt er að tryggja með eðlilegum hætti þær tekjur, sem ætlunin var að afla með starfsemi þessarar stofnunar; ætti að vera augljóst, að það er hagkvæmara á allan hátt en að efna til stórkostlegrar fjárfestingar í því skyni að koma fótum undir fyrirtækið aftur, sem þó er alls ósýnt að tækist, þegar þess er gætt, hve margir aðilar vinna nú að þessum málum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um tollskrá, er eingöngu í sambandi við niðurlagningu viðtækjaverzlunarinnar eða till. um þá niðurlagningu, og er þar gert ráð fyrir, að verðtollur á sjónvarpstækjum og útvarpstækjum hækki úr 80 í 100%, og er þá við það miðað, að upp vinnist sá tekjumissir, sem leiðir af því, að afgreiðslugjaldið af þessum tækjum fellur niður. En það gjald var að sjálfsögðu svipaðs eðlis og verðtollur. Með þessu frv. er ekki ætlunin að afla ríkissjóði neinna tekna. Tekjurnar af viðtækjaverzluninni hafa ekki runnið til hans beint, heldur til ákveðinna þarfa, sem ríkissjóður hefur nú tekið á sig að verulegu leyti, annars vegar varðandi Sinfóníuhljómsveitina og hins vegar Þjóðleikhúsið. Eins og hæstv. menntmrh. lýsti hér, er greiðslu byggingarskulda Þjóðleikhússins lokið og þeirri byggingu, þannig að ekki er þörf sérstaks tekjustofns af þeirri ástæðu, og einmitt með það í huga hefur verðtollsákvörðunin verið miðuð, þannig að það er ekki gert ráð fyrir því að afla ríkissjóði aukinna tekna, því að miðað við 100% verðtoll af hljóðvarpstækjum mundu tekjur ríkissjóðs af þeim verðtolli vera allmiklu minni en sá hagnaður, sem verið hefur af viðtækjaverzluninni. Lætur nærri, að sá tekjumissir samsvari einmitt þeirri upphæð, sem gert hefur verið ráð fyrir, að rynni af tekjum viðtækjaverzlunarinnar til greiðslu á byggingarskuldum Þjóðleikhússins. Það verður hins vegar nokkur hækkun á tekjum sjónvarpsins með því að ákvarða 100% verðtoll á sjónvarpstækjum. Þær tekjur renna ekki í ríkissjóð, því að eins og hv. þdm. er kunnugt, er sérstök heimild til þess að láta allar innflutningstekjur af sjónvarpstækjum renna til uppbyggingar sjónvarps. Um það hefur mikið verið rætt hér á hinu háa Alþ. að undanförnu, hversu mikil nauðsyn væri að hraða uppbyggingu sjónvarpsins, og mun hv. þdm. því væntanlega ekki þykja það nein goðgá, þó að tekjur sjónvarpsins hækki eitthvað af þessu gjaldi, enda þótt mönnum sé stundum nokkuð mikið í mun, að tekjur ríkissjóðs aukist ekki verulega. Það er sem sé ekki ætlunin, að það verði með þessum hætti. Hins vegar þótti eðlilegt, að bæði sjónvarps- og hljóðvarpstæki bæru sama verðtoll eða 100%.

Í grg. frv. er getið um, að 100% verðtollur á sjónvarpstækjum mundi hafa gefið á 9 síðustu mánuðum ársins um 1.5 millj. kr. meiri tekjur. Reyndin varð sú, að innflutningur sjónvarpstækja á s.l. ári varð miklum mun meiri en reiknað hafði verið með, þannig að miðað við endanlegar tölur í því efni, sem lágu fyrir, eftir að þetta frv. var afgreitt, mundi þessi tekjuauki hafa numið allmiklu meiru á s.l. ári, eða nú um 4 millj. kr., en hins vegar hefði orðið um að ræða rýrnun á tekjum af hljóðvarpsviðtækjum. Hvort hv. þdm, telja það óeðlilegt, að þessi hækkun komi fram á sjónvarpsviðtækjum, sem leiðir af sér nokkurn tekjuauka til uppbyggingar sjónvarps, skal ég láta alveg ósagt. Það eru ekki hagsmunir ríkissjóðs sem slíks, sem hér koma til greina, en það var, eins og ég hins vegar sagði, talið, að skilningur ríkti á nauðsyn þess að byggja upp sjónvarpið, að mönnum mundi ekki þykja það nein goðgá, þó að um smávægilega hækkun yrði að ræða á þessu gjaldi. Samtals verður sem sagt ekki um heildarálöguaukningu að ræða, við ákvörðun gjalda, svo sem hér er lagt til, þar sem hljóðvarpstekjurnar minnka nokkuð á móti.

Það er gert ráð fyrir því í frv. að heimila að verja allt að 8% af þeim tolltekjum, sem innheimtar eru af hljóðvarpstækjum, til Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hingað til hefur það verið eingöngu hljóðvarpstækjasalan, sem hefur staðið undir bæði reksturskostnaði viðtækjaverzlunarinnar og einnig framlögunum til Þjóðleikhúss og Sinfóníuhljómsveitar, en sjónvarpsviðtækjatekjurnar hafa allar óskertar gengið til uppbyggingar sjónvarpsins. Þetta samsvarar því, að tekjurnar af hljóðvarpstækjum verði áfram notaðar til stuðnings Sinfóníuhjómsveitinni. Það má að vísu segja, að þetta skipti ekki öllu máli, þar sem Sinfóníuhljómsveitin er að verulegu leyti á framfæri ríkissjóðs og ríkisstofnana, en það þykir þó rétt að halda þessari aðferð, sem verið hefur í þessu efni, að þessar tekjur renni til hennar að hluta til.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum. Ef hv. n., sem fær málið til meðferðar, kýs að fá um það nánari upplýsingar, verða þær að sjálfsögðu veittar, en ef ekki gefst tilefni til frekari umr., mun ég ekki orðlengja um málið meira að þessu sinni, en legg til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. fjhn.