07.03.1967
Efri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

122. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er í rauninni fylgifrv. með frv. til I. um afnám heimildar til einkasölu á viðtækjum, sem nýlega hefur verið afgreitt héðan úr hv. d. Þegar viðtækjaeinkasalan hefur verið lögð niður, þá hlýtur auðvitað um leið að falla niður það einkasölugjald, sem krafizt hefur verið af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum, þannig að ef hið opinbera á ekki að missa verulega í tekjum vegna þeirrar ráðstöfunar, þá verður að afla þeirra tekna með öðru móti, og er þá auðvitað eðlilegt, að hækkaður verði tollur á þessum tækjum. Sú leið er líka valin skv. frv. því, sem nú liggur fyrir, að hækka tollinn úr 80% í 100%. Af tolltæknilegum ástæðum mun það varla framkvæmanlegt að hafa mismunandi toll á sjónvarpstækjum og hljóðvarpstækjum, þannig að til þess að tekjuöflunin verði sem næst því, sem verið hefur, þá hefur þessi leið verið valin, sem mundi þýða það, að útvarpstæki koma til með að lækka nokkuð í verði, eða um 8%, en sjónvarpstæki hins vegar hækka um því sem næst 6%. Fsp. kom fram um það í n., hvort þessi breyt. væri líkleg til þess að hafa nokkur áhrif á vísitölu framfærslukostnaðar og þá á hvern veg. Ég ræddi þetta mál því við hagstofustjóra, sem tjáði mér, að miðað við núv. vísitölugrundvöll mundi þetta engin áhrif hafa, blátt áfram af því, að hvorki útvarpstæki né sjónvarpstæki eru í honum. Varðandi nýjan vísitölugrundvöll, sem nú er unnið að, tjáði hagstofustjóri mér, að ekki væri að vísu hægt að segja um það með nákvæmni, hvaða áhrif þetta kynni að hafa á hann, þar sem ekki væri fullkomlega frá þessum grundvelli gengið. Hins vegar fullyrti hann, að þó að vísu væri gert ráð fyrir því, að bæði sjónvarpstæki og útvarpstæki væru þar með, þá hlytu áhrifin að verða mjög óveruleg og ekki unnt að segja um það, á hvern veg þau yrðu.

Hvað snertir afstöðu n. til þessa frv. þá er hún eðlilega í samræmi við þá afstöðu, sem tekin var til frv. um afnám viðtækjaeinkasölunnar, þar sem þetta frv. er aðeins í rauninni fylgifrv. með því, þannig að við 6, sem stöndum að meiri hl. nál. á þskj. 285, mætum með samþykkt frv., þó þannig, að einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja þeim. Einn nm., hv. 4. þm. Norðurl. e., hefur hins vegar skilað séráliti og vísar í því til afstöðu flokks síns til frv. um afnám viðtækjaverzlunarinnar og mælir þar af leiðandi ekki með því, að þetta frv. verði samþ.