08.04.1967
Efri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

35. mál, bátaábyrgðarfélög

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um bátaábyrgðarfélög er stjfrv., sem einnig lá fyrir síðasta Alþ., en varð þá ekki útrætt.

Á s.l. ári var málið sent til umsagnar ýmsum þeim, sem hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum, og bárust n. þá svör frá þeim aðilum. Höfðu þá einnig borizt álitsgerðir fleiri aðila, sem hér eiga hagsmuna að gæta, en þeir höfðu snúið sér til n. með skriflegar aths. við frv.

N. hefur kynnt sér allar þessar álitsgerðir og aths., sem fram hafa komið við frv., og segja má, að aðalgagnrýnin, sem fram hefur komið, hafi beinzt að því að mótmæla því ákvæði frv. að hækka hámarksstærð þeirra fiskibáta, sem falla undir skyldutryggingarákvæði laganna, þ.e. að skipastærðin hækki úr 100 smálestum í 400 smálestir. Eins og fram kemur í nál. um málið, náðist ekki samstaða innan n. um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ., en hefur leyft sér að flytja nokkrar brtt. við það, eins og fram kemur á sérstöku þskj.

1. brtt. meiri hl. n. er við 3. gr. frv., en hún er um, að skyldutrygging vélbátanna hjá bátaábyrgðarfélögunum skuli miðast við óbreytta hámarksstærð eða 100 rúmlestir. Það kemur greinilega í ljós í þeim umsögnum, sem ég gat um áðan, að mikil andstaða er gegn því á meðal útgerðarmanna, að sú breyt., sem frv. felur í sér í þessu efni, nái fram að ganga. Hefur meiri hl. n. fallizt á þetta sjónarmið, eins og brtt. felur í sér.

2. brtt. er fram komin eftir beiðni Samábyrgðarinnar, en hún er um, að skylt sé að vátryggja skip, þegar svo stendur á, að þau hafa ekki vegna ágalla haft haffærisskírteini samfleytt um tveggja ára skeið. Till. Samábyrgðarinnar var að vísu á þá leið, að ekki þyrfti nema eitt ár, sem skip hefði ekki haffærisskírteini, til þess að tryggingaskyldan félli niður. Í 3. gr. frv. er þetta ákvæði ekki nægjanlega ákveðið, að dómi Samábyrgðarinnar, en þar segir með leyfi forseta: „Eigi er skylt að vátryggja skip, sem vegna ágalla hefur ekki haffærisskírteini, enda leiði skoðun í ljós, að eigi sé útlit fyrir, að gert verði við skipið eða viðgerð hafi ekki hafizt innan eðlilegs tíma. Þegar svo stendur á, skal bátaábyrgðarfélag segja tryggingu skipsins upp, en tilkynna skal það veðhöfum með 14 daga fyrirvara.“

Það er þetta ákvæði í gr., að viðgerð skuli hafin innan eðlilegs tíma, sem talið er of teygjanlegt og ekki nægjanlega ákveðið. Meiri hl. n. féllst á, að nauðsynlegt væri að kveða skýrar á um þetta, en telur, að eftir atvikum geti tíminn 2 ár talizt eðlilegur.

Þá er till. við 5. gr. frv., en hún er um, að gr. orðist svo með leyfi forseta:

„Ráðh. getur heimilað, að bátaábyrgðarfélögin taki að sér allar aðrar tryggingar, sem snerta útgerð fiskiskipa, svo sem tryggingar á vélum, tækjum, afla, veiðarfærum og lausum munum skips og skipshafnar, slysa- og ábyrgðartryggingar á sjómönnum.“

Í þessari brtt. felst það, að heimildin til að taka að sér ýmsar aðrar tryggingar, er snerta útgerð fiskiskipa, er hér gerð víðtækari en fram kemur í frv. Sérstaklega er það vélatryggingin, sem er nýmæli. Útgerðarmenn minni bátanna hafa oft látið í ljós óánægju yfir því, að þeirra trygging hefur ekki náð til þess að bæta vélatjón á sama hátt og á sér stað með stærri fiskibátana. Hefur þetta í mörgum tilfellum komið sér illa fyrir útgerðina, sérstaklega þegar um stærri tjón er að ræða, eins og t.d. ef sveifarás brotnar eða annað slíkt á sér stað. Ég tel, að það geti verið álitamál, hve langt á að ganga í þessum efnum, en tel sjálfsagt, að útgerðin geti a.m.k. tryggt sig fyrir öllum stærri tjónum, sem eiga sér stað.

Aðrar till., sem meiri hl. n. flytur, tel ég, að skýri sig sjálfar, og ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það. Ég vil leyfa mér að vænta, að þessar brtt. verði samþ. og frv. þannig breyttu, að lokinni þessari umr., vísað til 3. umr.