08.04.1967
Efri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

35. mál, bátaábyrgðarfélög

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., hefur ekki náðst samstaða í hv. sjútvn. um afgreiðslu þessa máls. Við hv. 3. þm. Norðurl, v. og ég teljum, að það þurfi að athuga þessi mál nánar í því skyni að tryggja sem hagkvæmastar vátryggingar fyrir bátaútveginn. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er kostnaður við tryggingar fiskiskipanna mjög veigamikill þáttur í útgerðarkostnaðinum. 73% af útflutningsgjaldinu rennur til þess að standa undir tryggingarkostnaði fiskiskipa og skv. áætlunum, sem lágu hér fyrir hv. Alþ. í fyrra um útflutningsgjaldið, var talið, að það mundi nema um 280 millj. kr. og 73% af því eru rétt rúmar 200 millj. kr. á ári hverju. Hér er um miklar fúlgur að ræða og það skiptir miklu máli, hvernig þessum peningafúlgum er varið. Það var þess vegna ekki óeðlilegt, að þegar starfaði hér á s.l. ári n. til þess að kanna hag vélbátaútgerðarinnar, hinna minni fiskiskipa, sem stunduðu fyrst og fremst þorskfiskveiðarnar, beindi hún m.a. athygli sinni að tryggingamálunum. Í skýrslu hennar kom í ljós, að í gegnum Vátryggingasjóð fiskiskipa hafa á undanförnum 5 árum, árunum 1961–1966 runnið hátt á 7. hundrað millj. kr. Ég nefni þessar tölur til þess að við gerum okkur grein fyrir því, hvað hér er um stórt og þýðingarmikið mál að ræða. Það er mjög brýnt nauðsynjamál að það sé gert, sem hægt er, til þess að tryggja það, að þessu fé sé vel varið og þessi gífurlega mikli kostnaður sé lækkaður eins og frekast er unnt. Þegar á það er litið, að verðmætin, sem íslenzki fiskiskipaflotinn aflar, eru á árinu sem leið sennilega frekar innan við en yfir 3000 millj. kr., verður því ekki á móti mælt, að það er næsta óeðlilegt hlutfall, að bara til vátrygginga þessara framleiðslutækja skuli ganga kannske 200 millj. kr. Þetta frv. til l. um bátaábyrgðarfélög, sem nú liggur hér fyrir, felur í sér þrjár meginbreytingar frá gildandi l. Í fyrsta lagi, og er sú breyt. að sjálfsögðu langveigamest, er gert ráð fyrir því, að stærðarmörkin fyrir skyldutryggingunni hjá bátaábyrgðarfélögunum séu hækkuð úr 100 rúml. upp í 400. Þetta er talin eðlileg afleiðing þess, að bátaflotinn hefur verið sífellt að stækka, og nýjustu fiskiskipin eru nú yfirleitt allmiklu stærri en 100 rúml., enda flest á síðari árum smíðuð til síldveiða, eins og mönnum er kunnugt. Önnur breyt., sem þetta frv. felur í sér, er sú, að bátaábyrgðarfélögin geti tekið að sér fleiri tegundir trygginga en nú er, og lýtur raunar ein brtt. hv. meiri hl. sjútvn. að því að víkka þá heimild enn meir og í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir því, að vátryggingaskilmálar séu ákveðnir með reglugerð. Þessi tvö síðari atriði eru trúlega til bóta, miðað við gildandi reglur, en fyrstnefnda atriðið er þó að sjálfsögðu langveigamest, og afstaðan til málsins hlýtur að verulegu leyti að ráðast af því, hvort mönnum finnst sú breyting eðlileg eða ekki. En einmitt gegn því atriði, hækkun stærðarmarksins, hafa á því tímabili, sem þetta frv. hefur legið fyrir hv. Alþ., streymt mótmælin frá þeim, sem þarna eiga hlut að máli, nefnilega eigendum þeirra skipa, sem með þessu féllu undir skyldutrygginguna. En frv. hefur nú legið fyrir Alþ. í rauninni í tvö ár, vegna þess — held ég, að sé óhætt að segja, að það hefur í rauninni enginn haft verulegán áhuga fyrir framgangi þess, vegna þess að menn hafa ekki trú á því, að það feli í sér neitt, sem leysi í rauninni neinn vanda. En mjög margir eigendur hinna stærri fiskiskipa, 100—400 rúml., hafa sent mótmæli til Alþ., sem hafa verið til athugunar í sjútvn. Þessir útvegsmenn telja, að þeim sé það mjög mikið hagsmunamál að vera ekki bundnir með tryggingar sínar á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur geti þeir haft frjálsræði til þess að leita þeirra hagkvæmustu skilmála, sem fáanlegir séu á markaðnum á hverjum tíma. Og það er bezt að segja það eins og það er, að með tilliti til afstöðu hv. meiri hl. til málsins í heild er það næsta undarlegt, að meiri hl. hefur fallizt á þau sjónarmið, sem þessi mótmæli hafa birt, með því að flyt ja nú brtt. um að færa stærðarmarkið aftur í hið fyrra horf, nema burt úr frv. þá veigamestu breyt: á gildandi reglum, sem það felur í sér. Ég get að sjálfsögðu fallizt á það, að þetta sé heldur til bóta, en finnst það bara alls ekki ganga nægilega langt, ekki vera nægur skilningur á þeim sjónarmiðum, sem ég tel, að hér beri að leggja til grundvallar. Ég fæ ekki séð, að nein nægilega veigamikil rök hnígi að því, að binda skuli hin minni skip við þessar skyldutryggingar, fyrst ekki er talið fært að binda meginþorra hinna nýrri fiskiskipa við þær. Við, sem stöndum að áliti minni hl. sjútvn., teljum, að með því móti að veita útvegsmönnum olnbogarými til þess að leita sér að hagkvæmustum kjörum, sem fáanleg eru, sé hægt að lækka tryggingakostnaðinn og þar með annað tveggja að lækka útflutningsgjaldið, sem undir þeim stendur, og þá verja þeim peningum á annan hátt, t.d. til hækkunar fiskverðsins, eða með öðrum hætti, að hagkvæmari tryggingakostnaður kæmi að sjálfsögðu útgerðinni til góða. Við erum þeirrar skoðunar, að bátaábyrgðarfélögin gætu, eftir sem áður, haft veigamiklu hlutverki að gegna sem frjáls samtök þeirra einstaklinga og félaga á útgerðarsviðinu, sem vilja hafa með sér frjáls samtök til þess að tryggja skip sín, bjóða tryggingar þeirra út eða koma á annan hátt fram sameiginlega á tryggingamarkaðinum. Við erum þeirrar skoðunar, að frjáls samtök manna, framleiðenda og annarra, til þess að sjá hagsmunum sínum borgið séu vænleg leið til þess að auka hagkvæmni og framfarir í efnahag atvinnuveganna og einstaklinganna, en höfum litla trú á lögþvinguðum samtökum í því skyni. Það er þess vegna till. okkar, að þessu frv. til l. um bátaábyrgðarfélög, og raunar öðru frv., sem því fylgir og er á dagskránni síðar um Samábyrgð Íslands, verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún láti fara fram nýja athugun á þessum málum með þau sjónarmið í huga, sem ég hef hér verið að gera grein fyrir.