07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

151. mál, listamannalaun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á s.l. Alþ. var samþ. með shlj. atkv. alþm. í Sþ. þál. um að skora á ríkisstj. að láta undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþ. löggjöf um úthlutun listamannalauna, og skuli við það starf haft samráð við Bandalag íslenzkra listamanna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að um langt skeið undanfarið hefur Alþ. árlega veitt fé á fjárl. til styrktar listamönnum. Hefur féð sumpart verið veitt til handa ákveðnum listamönnum og sumpart verið veitt tiltekin heildarfjárhæð, sem síðan skyldi skipt milli listamanna. Hin síðari ár hefur venjan verið sú, að Alþ. hefur sjálft kosið n. til að skipta hinni almennu fjárhæð. Áður hafði menntamálaráð um skeið úthlutun þessara listamannalauna með höndum. Það kom einnig fyrir, að samtökum listamanna var falið að annast úthlutunina, en aldrei hefur skapazt nein ákveðin regla um það, hvernig þessu fé skyldi varið, hvernig listamannalaunin skyldu ákveðin auk þess, sem ákvörðun hefur aldrei verið tekin um það nema til eins árs í senn, hverjir skyldu skipta þessu opinbera listamannalaunafé. Þetta hefur valdið því, að oft og einatt hafa spunnizt harðar deilur, ekki aðeins um úthlutunina hverju sinni, heldur einnig um það, hvernig úthlutuninni skyldi hagað í grundvallaratriðum. Af hálfu listamanna hefur mjög oft verið óskað eftir því, að fastari reglur yrðu settar um úthlutun listamannalaunanna.

Á undanförnum árum hafa einstakir þm. nokkrum sinnum — ja, mér er óhætt að segja, hvað eftir annað — flutt frv., þar sem settar væru tilteknar, fastar reglur um listamannalaunin. Sjálfur flutti ég á sínum tíma oftar en einu sinni þmfrv. um þetta efni, og það hafa einnig þm. úr öðrum flokkum gert. Á síðasta þingi voru t.d. flutt tvö þmfrv. um þetta sama efni. Síðan ég tók við forstöðu menntmrn. hef ég tvívegis gert tilraun til þess að ná samkomulagi milli listamanna annars vegar og milli ríkisstj. og listamannasamtakanna hins vegar um setningu löggjafar um þetta efni. En í bæði skiptin hefur farið svo, að ekki hefur náðst samstaða um flutning slíks frv. Í fyrra skiptið var fjölmenn n., sem fulltrúar allra listgreina áttu sæti í, orðin sammála um flutning frv., en þá reyndist ríkisstj., eða sá þingmeirihl., sem að baki henni stóð, ekki vera reiðubúin til að flytja það frv. Þetta var á stjórnarárum ríkisstj. Hermanns Jónassonar.

Seinni tilraunin, sem ég hef gert til þess að koma fram lagasetningu um þetta efni, var á stjórnarárum ríkisstj. Ólafs Thors. Þá var ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar orðin sammála um flutning frv. um þetta efni, en þá reyndist að mínum dómi ekki nægileg samstaða meðal listamanna til stuðnings við það frv., svo að ríkisstj. ákvað að flytja það ekki, og við svo búið hefur setið síðan, eða þangað til Alþ. gerði á síðasta þingi þá ályktun, sem ég gat og rakti í upphafi máls míns.

Þegar á s.l. hausti, eða á s.l. sumri raunar, hófst ég handa um að semja frv. í samræmi við ályktun Alþ. frá því í fyrravor. Þegar samningu þess var lokið, hóf ég viðræður við stjórn Bandalags ísl. listamanna um það frv. — uppkast, sem samið hafði verið í menntmrn., og stjórn bandalagsins veitti því viðtöku og sendi það öllum aðildarfélögum Bandalags ísl. listamanna til athugunar og umr. Öll félögin sýndu mikinn áhuga á málinu og ræddu málið mjög ýtarlega. Og svo kom, að stjórn bandalagsins kom á fund til mín nú fyrir 2–3 vikum og tilkynnti mér, að í öllum aðalatriðum teldi Bandalag ísl. listamanna það frv., sem nú er hér flutt, vera til stórmikilla bóta frá því skipulagi, sem ríkt hefur um þetta efni. Get ég því skýrt frá því, að þetta frv. er samið í fullu samráði við öll aðildarfélög Bandalags ísl. listamanna. Stjórn bandalagsins tilkynnti mér að vísu óskir um nokkrar breyt. á frv., sem ég hef ekki treyst mér til að leggja til við ríkisstj., að hún tæki upp í frv., en það hefur komið í ljós, að þau framfaraspor, sem stjórn Bandalags ísl. listamanna telur þetta frv. fela í sér, eru mun stærri og mikilvægari en þær óskir, sem bandalagið setti fram og ég treysti mér ekki til þess að leggja til við ríkisstj., að orðið yrði við, þannig að í aðalatriðum má segja, að þetta frv., eins og það hér liggur fyrir, hafi stuðning Bandalags ísl. listamanna. Í þessu sambandi tel ég rétt að láta þess sérstaklega getið, að af hálfu stjórnar bandalagsins var skýrt frá því, að innan bandalagsins væru mjög skiptar skoðanir um það, hvers eðlis stuðningur hins opinbera við listamenn í raun og veru skyldi vera. Það form, sem hefur verið haft á í raun og veru frá upphafi, er, eins og öllum er auðvitað kunnugt, í því fólgið, að listamönnum eru veitt tiltekin laun, upphaflega nefnd styrkir, nú nefnd laun, á hverju ári, án nokkurra tengsla við verk, sem listamaðurinn er að vinna að hverju sinni. Stjórn bandalagsins tjáði mér, að mikill áhugi væri á því innan bandalagsins, að jafnframt yrði komið á fót kerfi, sem hún nefndi starfsstyrkjakerfi, og væri í því fólgið, að listamenn gætu sótt um opinberan styrk eða opinber laun, ef þeir hefðu ákveðin verkefni á prjónunum, sem þeir þá gerðu grein fyrir, og gæti þeim með aðstoð slíkra styrkja orðið kleift að helga sig ákveðnu verkefni í 1/2 ár, 1 ár, 11/2 ár, jafnvel 2 ár, án þess að þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur á meðan unnið væri að því verki. Var sérstaklega vitnað í þessu sambandi til þess starfsstyrkjakerfis, sem Vísindasjóður hefur komið á fót, eftir að hann tók til starfa, en hann veitir einmitt slíka starfsstyrki að upphæð nú 120 þús. kr. á ári.

Þegar ég hafði flutt ríkisstj. þessar skoðanir stjórnar Bandalags ísl. listamanna, varð það niðurstaðan í ríkisstj., að skipuð skyldi n., sem Bandalag ísl. listamanna ætti aðild að, til þess að athuga möguleika á því, að þeim listamannalaunum, sem Alþ. veitir nú árlega, skuli að einhverjum hluta breytt í slíkt starfsstyrkjakerfi, og auk þess skyldi varið til slíkra starfsstyrkja því fé, sem Alþ. kynni síðar að veita í þessu skyni. Það kom í ljós, að stjórn Bandalags ísl. listamanna og stjórnir aðildarfélaga þess lögðu mjög mikið upp úr þessari ákvörðun ríkisstj., töldu hana mjög stórt spor í rétta átt, og verður þessi n. að sjálfsögðu skipuð.

Þá skal ég í örfáum orðum gera grein fyrir því, hver háttur yrði hafður á um úthlutun listamannalauna, ef þetta frv. næði fram að ganga. Í samræmi við óskir Bandalags ísl. listamanna er gert ráð fyrir því, að Alþ, haldi uppteknum hætti að veita sjálft nafngreindum mönnum ákveðin heiðurslaun, en jafnframt veiti Alþ. ákveðna upphæð, sem ákveðin er á fjárl. hverju sinni, til skiptingar milli annarra ísl. listamanna. Samkomulag er um það við samtök listamanna, að þingkjörin n. skuli úthluta þessu fé, og að n. sú, sem það gerir, skuli ekki kosin til eins árs í senn, sem verið hefur allar götur siðan Alþ. tók að kjósa slíka n., heldur skuli hún kosin til fjögurra ára í senn eða réttara sagt kosin af sérhverju, nýkjörnu Alþ. og sé kjörtímabil n. hið sama og starfstímabil Alþ. Já, ef ég mætti aðeins bæta við rökum fyrir því, að það er talið til mikilla bóta að kjósa úthlutunarn. til allt að fjögurra ára í senn. Það hefur þótt há sérstaklega starfsemi hinna þingkjörnu n., að þær hafa ekki getað gert áætlun um það, hvernig úthlutuninni skuli hagað, hver n. hefur orðið að reikna með því, að þetta yrði í eina skiptið, sem hún úthlutaði, og hefur því engar fastar reglur getað sett sér varðandi vinnubrögð sín. Ef n. veit það, að hún er kosin til allt að fjögurra ára, getur hún gert allt að fjögurra ára áætlun um úthlutun fjárins og þannig t.d. getur það, þó að ákveðinn listamaður fái ekki listamannalaun í eitt sinn, legið í loftinu, jafnvel verið ákveðið, að hann skuli fá þau öðru sinni, vegna þess að n. úthlutar fénu oftar en einu sinni. Þetta mundi auka mjög öryggi allt varðandi vinnubrögð n. og gefa henni mun betra svigrúm í reynd heldur en átt hefur sér stað undanfarið.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., og það er ein stærsta breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, að einungis verði um tvo launaflokka listamanna að ræða, en þeir hafa áður verið miklu fleiri. Undanfarin ár hafa þeir verið fjórir. Það, sem sætt hefur einna mestri gagnrýni af hálfu listamanna yfirleitt varðandi úthlutun listamannalaunanna, er það, hve flokkarnir hafa verið margir og listamenn hafa litið þannig á, að í skipun þeirra í fjóra, fimm eða jafnvei sex flokka sé fólgin einhvers konar einkunnagjöf til þeirra fyrir verk sín. Það hefur því mjög eindreginn stuðning stjórnar Bandalags ísl. listamanna að fækka launaflokkum ofan í tvo úr þeim fjórum, sem tíðkazt hafa undanfarið. Auðvitað fer það algerlega eftir því, hversu há listamannalaunin verða ákveðin, hversu margir muni fá þau. Af ákvæðum frv. hlýzt því ekki í sjálfu sér, að þeim, sem fá listamannalaun, hljóti að fækka frá því, sem verið hefur, en tala þeirra, sem hlutu listamannalaun í fyrra, var um það bil 130. Hins vegar getur væntanleg úthlutunarn. hæglega komið því þannig fyrir, að listamannalaunin hækki að meðaltali frá því, sem þau verið hafa til hvers einstaks, en ef sú hækkun á að verða veruleg, mundi af því hljótast, að þeim, sem fá listamannalaunin, mundi nokkuð fækka. Það ætti hins vegar ekki að þurfa að koma að sök, vegna þess að n., sem væntanlega verður kosin, ef frv. nær fram að ganga, hefur lengri starfstíma en eitt ár, þannig að hún gæti gert áætlun um það að láta þá, sem ekki fá listamannalaun í fyrsta skipti, fá þau í annað skipti eða þriðja skipti og þar fram eftir götunum. Gert er enn fremur ráð fyrir því í frv., að laun 2. flokksins séu helmingi hærri en hins flokksins, og er það ákvæði einnig sett í samráði við stjórn Bandalags ísl. listamanna. Þá er í frv. ákvæði um það, hvernig valið á þeim listamönnum, sem laun hljóta, skuli fara fram. Kjarninn í því kerfi, sem l. gera ráð fyrir, er sá, að samdir skuli kjörlistar yfir þá menn, sem einhver í n. hefur stungið upp á til þess að fá laun í öðrum hvorum flokknum, og síðan skuli fara fram skrifleg atkvgr. meðal hinna 7 nm. um það, hverjir skuli hljóta listamannalaunin í hvorum flokknum um sig. En gert er ráð fyrir, að í upphafi nefndarstarfanna ákveði n., hver skuli vera launahæðin í hvorum flokknum um sig og að því loknu geri hver einstakur nm., eða hver hópur nm., heildartill. um það, hvernig skipta skuli því fé, sem Alþ. hefur veitt til hinna almennu listamannalauna. Ætti þetta fyrirkomulag að auka mjög öryggi í vinnubrögðum n.

Í fjórða og síðasta lagi er svo það nýmæli í frv., sem mér er óhætt að segja, að sé annað merkasta nýmæli þess, að aðildarfélög Bandalags ísl. listamanna skuli eiga rétt á að tilnefna hvert um sig tvo fulltrúa til samstarfs við n., sem Alþ. kýs til þess að ákveða listamannalaunin. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar, að það væri rangt að fela listamönnum sjálfum eða samtökum þeirra úthlutun listamannalaunanna, og sömu skoðunar er stjórn Bandalags ísl. listamanna mjög eindregið. Ég vil láta það koma skýrt fram, að listamennirnir hafa ekki óskað eftir því sjálfir að fá úthlutun listamannalaunanna í sínar hendur. Hins vegar hefur það vafizt fyrir mönnum, bæði listamönnum, stjórnmálamönnum og öðrum, sem um þessi mál hafa hugsað, hvernig væri hægt að koma samt sem áður við nokkrum áhrifum listamannanna á það, hvernig og hverjir listamannalaunin hljóta. Það var mín hugmynd að ganga til móts við eðlilegar óskir listamannanna um þetta efni á þann hátt að veita aðildarfélögum Bandalags listamanna rétt á að tilnefna hvort um sig tvo fulltrúa til samstarfs við n., sem úthlutar listamannalaunum og veita þeim rétt á að láta í ljós álit sitt á öllum till., sem koma fram í n. um það, hverjir skuli fá listamannalaun. Ég vek athygli á, að listamannafélögin eru ekki skyldug til þess að tilnefna slíka fulltrúa. Ef þau óska ekki eftir því að hafa afskipti af því, hverjir fá listamannalaunin, er þeim það að sjálfsögðu frjálst. En þeim er veittur réttur á að segja skoðun sína frá listrænu eða faglegu sjónarmiði, á sérhverri till., sem fram kemur innan úthlutunarn., um það, hverjir skuli fá listamannalaunin. Það hefur komið fram í ýtarlegum viðræðum mínum við fulltrúa listamanna, að ekki má telja ólíklegt, að einstök listamannafélög muni ekki tilnefna sína meðlimi sem þennan umsagnaraðila, heldur menn utan sinna samtaka, en sem þeir þó bera fullt traust til og telja, að muni hafa faglega þekkingu og listrænt vit á þeim efnum, sem hér er um að tefla. Með þessu móti er það tryggt, að n. gangi ekki til atkv. um till. um veitingu listamannalauna, nema því aðeins að menn, sem hafa vit, áhuga og skilning á listrænum störfum þeirra manna, sem um er verið að fjalla, hafi getað sagt skoðun sína á því, hvort till. sé réttmæt eða óeðlileg. Þetta er mikilsverður réttur fyrir listamennina og ég mundi einnig segja, að í þessu væri fólgið skynsamlegt og hóflegt aðhald fyrir þá fulltrúa fjárveitingavaldsins, sem úthluta því fé, sem Alþ. hefur veitt í þágu listamanna. Það kom í ljós í umr. við listamennina, að þeir lögðu mikið upp úr þessu ákvæði.

Sú uppástunga þeirra, sem þeir báru fram við mig og ég treysti mér ekki til þess að leggja til við ríkisstj., að lögtekin væri í frv., gekk út á það, að n. mætti ekki veita listamannalaun, nema því aðeins að fulltrúi hlutaðeigandi aðildarfélags bandalagsins hefði samþykkt till. M.ö.o., hugmynd þeirra gekk út á það að veita þessum umsagnaraðilum Bandalags. ísl. listamanna eða aðildarfélaga þess algert neitunarvald um veitingu listamannalaunanna. Ég tjáði fulltrúum listamannanna, að mér þætti mjög ólíklegt, að Alþ. vildi fallast á að kjósa n. til þess að úthluta ríkisfé, en hafa það háð neitunarvaldi annars aðila, hverjir fengju féð, og ég teldi mjög ósennilegt, að nokkur alþm., eða menn yfirleitt, mundu taka að sér nefndarstörf, sem væru svo ströngum annmörkum háð, þar sem starf manna ætti að vera háð algeru neitunarvaldi annars aðila. Án þess að ég vilji eða hafi nokkurt umboð til þess að segja, að listamenn hafi fallizt á sjónarmið mín í þessu efni er mér þó óhætt að segja það, að þeim var ekki andmælt verulega. Og ég vona, að á því sé fullur skilningur af hálfu listamannanna, að ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að taka þessa till. þeirra upp í þetta frv.

Ég teldi það til mikilla bóta, ef þetta frv. næði fram að ganga, og í raun og veru er hér í fyrsta sinn um það að ræða, að flutt sé stjfrv. um listamannálaun hér á hinu háa Alþ., sem segja má, að í öllum aðalatriðum hafi stuðning listamannanna sjálfra. Það er mjög mikils virði fyrir Alþ., fyrir ríkisvaldið, að sem bezt samstarf sé við listamenn um veitingu listamannalaunanna. Það samstarf tel ég, að hafi tekizt við undirbúning þessa frv., og það samstarf vona ég fastlega, að muni halda áfram við framkvæmd málanna, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 3. umr. og hv. menntmn.