10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

151. mál, listamannalaun

Frsm. (Axel Jónsson):

Menntmn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um listamannalaun. Í apríl í fyrra var samþ. hér á hv. Alþ. eftirfarandi till.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að ]áta undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþingi löggjöf um úthlutun listamannalauna. Skal við það starf haft samráð við Bandalag ísl. listamanna.“ Alþ. hefur um áraraðir veitt fé á fjárl. til styrktar listamönnum. Hefur fjárveitingin nú hin síðari ár verið annars vegar til handa ákveðnum listamönnum og hins vegar tiltekin fjárveiting,. sem síðar var skipt milli listamannanna af til þess kjörinni n. á Sþ. Áður hafði menntamálaráð úthlutun listamannalauna með höndum, og fyrir hefur komið að samtökum listamannanna sjálfra var falið að annast úthlutunina. Ekki hefur verið til löggjöf um listamannalaun og raunar ekki fastmótaðar venjur um veitingu þeirra. Hin þingkjörna n.,. sem annaðist um veitingu listamannalaunanna, var aðeins kosin til eins árs í senn, og hefur sú tilhögun tvímælalaust leitt af sér sundurlausari vinnubrögð frá ári til árs, sem svo öllu frekara sundurþykki og óánægju og gerðu framkvæmdina miklu erfiðari en ef fastari reglum hefði verið eftir að faxa. Vissulega hefur oft gætt nokkurrar óánægju með skiptingu listamannalaunanna, og auðvitað verða ekki nú settar þar um þær reglur, sem allir verða ánægðir með. En miklu varðar, að gerð sé tilraun til að skapa festu í vinnubrögðum varðandi úthlutun listamannalauna og um framkvæmd þess verks. Þm. hafa oft flutt frv. til l. um úthlutun listamannalauna, en þetta frv. er fyrsta stjfrv., sem flutt hefur verið um þetta efni. Af hálfu listamanna hefur oft verið óskað eftir því, að fastari skipan kæmist á þessi mál. Eins og ég vék að í upphafi míns máls, þá samþ. Alþ. í fyrra þál, um áskorun á ríkisstj. um að láta undirbúa, í samráði við Bandalag ísl. listamanna, löggjöf um úthlutun listamannalauna. Þetta hefur verið gert, eins og frv. ber vitni um. Ég vil sérstaklega taka það fram, að frv. er samið í samráði við öll aðildarfélög bandalagsins. Það er skoðun stjórnar bandalagsins, að í öllum aðalatriðum sé það til mjög mikilla bóta frá því, sem verið hefur. Fram komu að vísu óskir um breyt. á smærri atriðum, sem þó var ekki talið mögulegt að verða við, enda ekki um algjöra samstöðu bandalagsfélaganna í því efni að ræða.

Eins og ég áður sagði, eru bandalagsfélögin samþykk öllum meginatriðum málsins, og einmitt þess vegna er nauðsynlegt að tryggja frv. framgang nú á yfirstandandi þingi.

Í 1. gr. frv. segir, að Alþ. veiti árlega fé á fjárl. til að launa listamenn. Getur það bæði veitt tilteknum listamönnum ákveðin heiðurslaun og að auki veitt eina upphæð, sem síðan er skipt af n. 7 manna, sem kosin verður af Sþ. að afloknum alþingiskosningum, en í fyrsta skipti þegar eftir að lög þessi öðlast gildi. Þarna er gert ráð fyrir því, að sami háttur verði á hafður hér eftir sem hingað til, að Alþ. veiti árlega fé á fjárl. til að launa listamenn. Þá er einnig kveðið svo á, að Alþ. geti einnig veitt tilteknum listamönnum heiðurslaun. Er þetta skv. eindregnum óskum Bandalags ísl. listamanna. Þá er í þessari grein og gert ráð fyrir því, að þingkjörin n. skipti fénu eins og verið hefur, en lagt er til, að kjörtímabil n. verði allt að fjögur ár, þ.e.a.s., að n. verði kosin að afloknum alþingiskosningum. En til þessa hefur n. verið kosin árlega. Það er einnig skv. óskum Bandalags ísl. listamanna, að þingkjörin n. annist skiptingu fjárins, og sú breyt. að kjósa n. til lengri tíma en áður var gert, er veigamikil og mun stuðla að skipulagðari vinnubrögðum og skapa meiri festu í framkvæmd.

Í 2. gr. frv. er þýðingarmikið nýmæli. Það er það, að launaflokkar þeir, sem n. er ætlað að skipa listamönnum í, verði hér eftir aðeins tveir, en undanfarið hefur verið um 4–6 launaflokka að ræða. Þessir mörgu launaflokkar hafa einmitt sætt mikilli gagnrýni listamanna og styður Bandalag ísl. listamanna eindregið það nýmæli að fækka launaflokkunum í tvo. Í gr. er kveðið svo á, að launin í öðrum fl. verði helmingi hærri en í hinum. Þá er í 2. gr. frv. kveðið á um, hvernig þeir listamenn verði valdir, sem launin hljóta. Enn fremur segir, að ef Alþ. hafi ekki veitt tilteknum listamönnum heiðurslaun, geti n. í upphafi starfs síns ákveðið að veita sérstök laun, sem séu hærri en launin í þeim tveim launaflokkum, sem gert er ráð fyrir í gr. þessari, og dregst þá heildarupphæð þeirra launa frá heildarfjárveitingu þeirri; sem n. úthlutar skv. reglum 2. gr.

Það er og merkt nýmæli, að skv. ákvæðum 3: gr. frv. er aðildarfélögum Bandalags ísl. listamanna veittur réttur hverju um sig til að tilnefna 2 fulltrúa til samstarfs við n. þá, sem Alþ. kýs til þess að ákveða listamannalaunin. Listamannafélögin eru ekki skyldug að tilnefna slíka fulltrúa. Þeim er það í sjálfsvald sett, hvort þau nota þann rétt sinn eða ekki. Fulltrúar bandalagsfélaganna eiga rétt á, áður en til atkvgr. kemur í n., að láta í ljós skoðanir sínar á tillögugerð um listamenn á því sviði, er hlutaðeigandi bandalagsfélag starfar á. Með þessu ákvæði er það tryggt, að n. gangi ekki til atkvæða, fyrr en fulltrúar þeirra félaga, sem vilja nota rétt sinn til umsagnar um till., hafa látið í ljós álit sitt. Þetta er mjög athyglisverður réttur fyrir listamennina, enda munu þeir sjálfir leggja mikið upp úr þessu ákvæði, Þá er í 3. gr. frv. ákvæði um réttindi og skyldur nm. og fulltrúa bandalagsfélaganna, er lýtur að því, hvenær heimilt sé að skýra opinberlega frá till. og umsögnum varðandi val á listamönnum, er laun hljóta.

Það er rétt að geta þess, að eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. menntmrh. við 1. umr. málsins, kom frá listamönnunum till. um, að fulltrúar bandalagsfélaganna hefðu neitunarvald. Á þessa till. var ekki fallizt, enda mundi af samþ. hennar leiða margþætt vandamál, sem listamennirnir sjálfir mundu ekki kæra sig um að standa andspænis. Auk þess væri fráleitt að ætla þingkjörinni n. það hlutverk, að aðilar utan hennar geti stöðvað þær till., sem n. samþykkir.

Eins og hæstv. menntmrh, tók fram í sinni framsöguræðu, þá mun stjórn Bandalags ísl. listamanna hafa lýst sig alfarið mótfallna því, að listamennirnir tækju skiptingu listamannalaunanna í sínar eigin hendur. Það er vikið að því í grg. frv., að í viðræðum milli hæstv. menntmrh. og stjórnar Bandalags ísl. listamanna um þetta frv., hafi það komið mjög ákveðið í ljós, að innan bandalagsins sé mikill áhugi fyrir því að fá lögfest ákvæði um sérstakt styrkjakerfi til handa listamönnunum. Hæstv. menntmrh. vék að þessu í sinni framsöguræðu og gat þess, að eindreginn áhugi væri fyrir því meðal listamanna að koma á fót kerfi, sem gæti styrkt listamenn, sem t.d. ynnu að ákveðnum verkefnum, og gerði, þeim þannig kleift að helga sig þeim í tiltekinn tíma, allt frá 1/2 ári að 2 árum. Eins og kemur fram í grg. hefur ríkisstj. því ákveðið að skipa n. til þess að athuga þetta mál, jafnframt því sem athugaðir verða möguleikar á því að samræma starfsemi sjóða, sem nú starfa á þessu sviði. Gert er ráð fyrir því, að Bandalag ísl. listamanna eigi fulltrúa í umræddri n. Bandalagið hefur, eins og ég áður sagði, mikinn áhuga á slíkri nefndarskipun.

Herra forseti. Af því, sem ég hef hér rakið, er augljóst, að það frv., sem hér um ræðir, miðar að því að koma á heilsteyptari skipan þessara mála og leggur grundvöll að meiri festu í vinnubrögðum við skiptingu listamannalauna en verið hefur til þessa. Þá eykur það mjög gildi frv., að listamennirnir eru samþ. öllum meginatriðum þess. Því er mikil nauðsyn á, að frv. verði að lögum nú á þessu þingi. Eins og fram kemur á þskj. 309 mælir menntmn.

þessarar hv. d. með samþykkt þess, en einstakir nm. lýsa þó yfir því, að þeir hafi óbundnar hendur við afgreiðslu þess.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur lagt hér fram brtt. á þskj. 327. Þar er lagt til, að allt að 10 tilteknum listamönnum verði ákveðin heiðurslaun. Ég tel eðlilegra, að núverandi skipan haldist áfram, sú sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., að þetta sé frjálst, já, ag meira að segja, að Alþ. sé ekki skyldugt til að veita slík heiðurslaun, ef þannig er ástatt í landinu á einhverjum tíma, að engir séu taldir þeirra verðir og einnig spursmál, hvort binda á þá töluna endilega við tíu. Við getum einnig staðið andspænis því, að það séu fleiri, sem slíkt ættu að fá. Mér finnst það minna um of á visst kvótakerfi að nefna nokkra tiltekna tölu listamanna, sem eigi rétt á því að fá heiðurslaun frá Alþ. sjálfu. Einnig finnst mér ekki eðlilegt fyrir mitt leyti, að bundin sé í þessum l. ákveðin fjárupphæð, sem ákvarðast á fremur við afgreiðslu fjárlaga. Varðandi brtt. hv. 3. þm. Reykv. við 2. gr. frv. um val þeirra listamanna, sem launin hljóta, vil ég segja það, að ég tel rétt, að það mál verði skoðað betur og vona að færi gefist til þess í n. að athuga þessi ákvæði enn frekar. Varðandi nýja gr. brtt., sem yrði 4. gr., vil ég vitna til þess, sem ég sagði hér um þá nefndarskipun, sem ákveðin er og um getur í grg. frv., og tel eðlilegt, að í stað þess að taka hana þegar inn í þessi l., þá skili sú n. áliti um þann þátt, sem þar um ræðir. Varðandi brtt. um nýja grein, 5. gr., þá tel ég að fela eigi það Alþ. hverju sinni að ákvarða þá upphæð, sem veitt er til þeirra, sem heiðurslaun hljóta, og þá upphæð, sem hin þingkjörna n. skiptir milli annarra listamanna.

Herra forseti. Eins og ég áður sagði, þá tel ég eðlilegt, að menntmn. þessarar hv. d. fái tækifæri til þess að fara yfir þær brtt., sem hér liggja frammi á þskj. 327 og óska því eftir því, að þessari umr. ljúki ekki fyrr en n. hefur verið gefinn kostur á því.