14.03.1967
Neðri deild: 54. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

151. mál, listamannalaun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mig langar til að segja fáein orð um brtt. hv. 3. þm. Reykv., sérstaklega 2. till., sem hann raunar nefndi einkum í ræðu sinni áðan. Um hinar tvær, 1. og 3. till., get ég verið mjög fáorður. Ég treysti mér ekki til að mæla með samþykkt þeirra. Ég tel ekki eðlilegt, að ákveðið sé í sjálfum lögunum um listamannalaun, hversu margir skuli njóta heiðurslauna, né heldur, hver skuli vera heildarupphæð listamannalaunanna. Þetta tel ég, að Alþ. eigi að ákveða hverju sinni með afgreiðslu fjárlaga, svo sem raunar verið hefur öll undanfarin ár.

Um 3. till., sem fjallar um starfsstyrkina, er það að segja, að ríkisstj. hefur þegar ákveðið, skv. ósk Bandalags ísl. listamanna, að skipa n. til að fjalla um þetta mál í samráði við listamennina. Það kom greinilega fram í þeim viðræðum, sem ég átti við stjórn Bandalags ísi. listamanna, að skoðanir eru nokkuð skiptar um, hvernig haga eigi slíkum starfsstyrkjum, ef ákveðið verður að taka þá upp. Það koma ýmsar leiðir til greina, hugmyndina má framkvæma með mörgum hætti og ég tel sjálfsagt; að það mál verði rannsakað mjög ýtarlega, áður en sett eru annaðhvort lagaákvæði eða reglugerðarákvæði um það, hvernig starfsstyrkjunum skuli hagað. Einmitt í því skyni verður n. skipuð, eins og ríkisstj. hefur þegar ákveðið. Ég veit ekki betur en forsvarsmenn listamanna séu algerlega ánægðir með þá tilhögun á þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið, að athuga málið gaumgæfilega í n., áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar, og mér finnst ekki ástæða vera til þess, og það jafnvel vera nokkurt fljótræði, að taka inn í l. um listamannalaun bein ákvæði um það, að starfsstyrkir skuli teknir upp, áður en málið er rætt við listamannasamtökin sjálf, eins og nú hefur verið efnt til.

Varðandi seinni liðinn í 3. till. er það að segja, að öll undanfarin ár hefur verið framkvæmd hækkun á heildarupphæðinni, sem til listamannalauna er ákveðin, nokkurn veginn í samræmi við þær breyt., sem hafa orðið á vísitölu verðlags og launum opinberra starfsmanna. En þá kem ég að aðalatriði málsins, sem er 2. brtt. Ég get mjög vel skilið þá hugsun, sem þar er að baki, og finnst það algerlega eðlilegt, að menn velti fyrir sér, hvort ekki væri hugsanlegt annað form á vali þeirra manna, sem listamannalaun skulu hljóta, en einföld listakosning eða einföld meirihlutakosning. Það kemur mér síður en svo á óvart, að stungið skuli upp á öðrum hætti í þeim efnum en frv. gerir ráð fyrir og raunar er í grundvallaratriðum sami hátturinn og alltaf hefur verið á hafður um þetta. Hvort sem val listamannanna. hefur verið í höndum þingkjörinnar n. eða í höndum annars aðíla, svo sem menntamálaráðs, hefur aldrei fundizt nein önnur aðferð en einföld meirihlutakosning við valið á launþegum. Síðan þessi till. kom fram, hef ég athugað hana gaumgæfilega og rætt hana við ýmsa aðila, bæði menn, sem setið hafa í úthlutunarn. Alþ. undanfarin ár, og menn í stjórnum listamannafélaga. Og niðurstaðan af þessum athugunum og viðræðum er sú, að ég treysti mér ekki til þess að mæla með því, að þessi till. nái fram að ganga, að breyt. verði gerð á valaðferðinni, eins og hún gerir ráð fyrir. Skýringin er sú, að þótt margt mæli með slíkri aðferð, þegar um er að ræða að velja einn verðlaunahafa, tvo eða þrjá, kannske upp í fimm, eins og á sér stað, þegar valin er bezta bók ársins, þegar valinn er bezti íþróttamaður ársins, þegar valdar eru þrjár bækur til að fá verðlaun ritdómenda blaðanna, verður aðferðin svo flókin og svo mikil óvissa henni fylgjandi, að hún má teljast nær óframkvæmanleg, þegar um er að ræða að velja hundrað menn skv. aðferðinni eða nokkuð á annað hundrað menn, eins og hér er um að ræða. Einföld prófun á framkvæmd aðferðarinnar, sem ég sé ekki ástæðu til að þreyta alþm. á að lýsa hér, leiðir í ljós, að þegar um er að ræða val á á annað hundrað mönnum skv. slíkri stigaaðferð, getur niðurstaðan orðið algerri tilviljun háð, og það getur auðvitað ekki verið til bóta frá sjónarmiði neins. Það er því ekki að óathuguðu máli, heldur þvert á móti að gaumgæfilega athuguðu máli, sem ég tek það fram, að ég treysti mér ekki til þess að mæla með því, að till. nái fram að ganga. Hins vegar hef ég ekkert á móti því, ef hv. flm. óskar þess, að þessari umr. verði frestað, og skal gjarnan taka undir ósk hans um það, til þess að n., fái tækifæri til þess að ræða málið. Ég þykist þess fullviss, að þegar hún ræðir málið og gerir sér grein fyrir, hvernig þessi regla mundi vera í framkvæmd, komist hún að raun um, að hún væri ekki til bóta, vegna þess um hve marga menn er að tefla í því tilviki, sem hér er um að ræða.