08.04.1967
Neðri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

151. mál, listamannalaun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hefði frekar óskað þess, að hæstv. menntmrh. hefði verið viðstaddur hér. Hann var ekki við 2. umr. þessa máls, þegar afgr. voru nokkrar brtt., sem ég var með, og vegna þess að við lentum í nokkurri deilu um það, hvort framkvæma mætti þetta stigakerfi, sem ég lagði til, hefði ég gjarnan viljað heyra hans skoðun á þeim brtt., sem ég þá flutti. Ég hef því kosið að hafa þá aðferð að flytja nú skrifl. brtt. um aðeins eitt atriði úr því, sem ég flutti áður, og raunar er hún nokkurn veginn samhljóða, þó ekki alveg, þeirri brtt. minni, sem er 2. liður c á þskj. 327 og felur í sér að breyta 3. mgr. 2. gr. þannig, að fyrstu tveir málsliðirnir hljóði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Nm. gera till. um listamenn þá, er þeir álíta, að til greina komi, og hafa samráð við aðildarfélög Bandalags ísl. listamanna, svo sem segir í 3. gr., áður en endanlega er gengið frá til1. Þegar till. eru fram komnar, skulu gerðir kjörseðlar með nöfnum allra þeirra, sem till. hefur komið fram um í hverri grein lista, að hljóta skuli hærri launin.“

Og svo eins og var áður. Af því að þetta er 3. umr., hefði ég viljað mælast til þess, að hæstv. forseti frestaði þessari umr., til þess að við gætum heyrt, hvernig hæstv. menntmrh. lítur á þessa brtt. Þær aths., sem hann gerði við 2. umr. málsins, voru gerðar út frá því sjónarmiði, að um væri að ræða að greiða atkv. í einu um 120 listamenn, og þá kæmi stigakerfið ekki að notum og það er alveg rétt. En svo, eins og ég skýrði, greinilega frá hér í gær, þegar búið er fyrst að skipa niður í hina mismunandi flokka, þegar búið er að afgreiða þá listamenn, sem allir eru sammála um, og eftir er við skulum segja í sambandi við fyrri flokkinn að gera út um 10–12 rithöfunda eða kannske 5–8 málara, hver af þeim skuli hljóta þessi laun, þá nýtist þetta stigakerfi fullkomlega. Ég vakti athygli á því sérstaklega við 2. umr. málsins, að svo fremi sem haldið verður fast við þetta kerfi, sem nú er fyrirhugað, þýðir það að láta meiri hl., sem kosinn er pólitískt, ráða því algerlega, hverjir eigi að fá launin, í staðinn fyrir að með því að beita stigakerfi, njóta hinar mismunandi persónulegu skoðanir manna, hvort heldur þær kunna að vera pólitískar, listrænar eða af öðrum toga spunnar, sín fullkomlega. Og af því að við erum ná að reyna með miklum erfiðismunum að finna eitthvert kerfi, sem gæti orðið varanlegt og ekki eins óvinsælt og það, sem farið hefur verið eftir undanfarið, finnst mér, að áður en við afgreiðum svona mál, eigi a.m.k. hæstv. menntmrh. að segja sína skoðun á því, þar sem það liggur nú fyrir á allt annan máta en það gerði, þegar 2. umr. fór fram. Ég vil þess vegna leyfa mér að afhenda þessa skrifl. till. hæstv. forseta og vonast um leið til, að hann gangi inn á að fresta málinu, þannig að hæstv. menntmrh. geti sagt sína skoðun á því.