11.04.1967
Efri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

151. mál, listamannalaun

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, skal ég vera stuttorður við þessa umr. Listamannalaun og úthlutun þeirra hefur lengi verið mikið vandamál og deiluefni. Það er vissulega ekki vandalaust að setja löggjöf um þessi atriði á þann veg, að sæmilegur friður geti orðið um þau mál, það skal ég viðurkenna, enda hefur það dregizt hjá löggjafanum óeðlilega lengi að gera það. Sá háttur, sem hafður hefur verið á varðandi úthlutun listamannalauna nú í mörg ár, að fela úthlutunina n., kjörinni venjulega í lok hvers þings og til eins árs í senn, hefur að allra dómi reynzt miður vel. Það er þess vegna fyrir löngu tími til þess kominn, að sett verði löggjöf um þetta efni, og hafa listamenn barizt fyrir því árum saman. Ég verð að láta það í ljós, að þegar ég sá það frv., sem nú liggur hér fyrir þessari hv. d., frv. til l. um listamannalaun, varð ég fyrir verulegum vonbrigðum. Mér finnst þetta frv., satt að segja, furðu fátæklegt, og í því eru, því miður, fá þau nýmæli, að mínum dómi, sem gera það líklegt, að þetta geti orðið löggjöf til varanlegrar frambúðar í þessum málum. Ég hafði búizt við því, að slíkt frv. yrði innihaldsmeira, þegar það kæmi fram frá hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. menntmrh., sem ég veit, að hefur lengi haft sérstakan áhuga á því að leysa þessi mál á viðunandi hátt. Ég hafði búizt við því, að það yrði myndarlegar tekið á en mér virðist gert með þessu frv.

Ég skal ekki á þessu stigi fara út í einstök atriði. Til þess gefst tækifæri við 2. umr., en ég gat ekki látið hjá líða, nú þegar við þessa umr., að lýsa yfir hinum mestu vonbrigðum mínum með það, hversu fátæklegt þetta frv. er og hversu lítið nýtt er í því.