02.12.1966
Sameinað þing: 13. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1967

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða hér um fjárlögin almennt eða þá stefnu, sem í þeim birtist, heldur ætla ég að leyfa mér að drepa örfáum orðum á eitt mál, sem raunar er enn til athugunar í hv. fjvn. og hún hefur geymt sér til 3. umr. Ég á þar við stuðning ríkisins við vatnsveituframkvæmdir Vestmanneyinga.

Eins og kunnugt er, er ekki vatnsveita í Vestmannaeyjum. Vestmanneyingar fá sitt vatn með því að safna rigningarvatni, auk þess sem sjóveita er þar til fiskiðnaðarins, sem um eru 35 ára gömul lög. Auk þess er talsvert vatn flutt til Vestmannaeyja á ýmsum tímum, sérstaklega þegar þurrviðri eru, en þeir vatnsflutningar eru að sjálfsögðu tilfinnanlega dýrir. Þetta ástand er að sjálfsögðu óviðunandi til frambúðar fyrir mesta fiskiðnaðarbæ landsins.

Um langt árabil hefur verið leitað lausnar á þessum vanda. Það hafa farið fram dýrar boranir, sem ekki hafa gefið árangur, og niðurstaðan af undirbúningi þessa máls um árabíl hefur orðið sú, að ákveðið hefur verið að sækja vatn til lands. Gerður hefur verið undirbúningur að því að leggja slíka leiðslu úr landi, frá Eyjafjöllum og út í Vestmannaeyjar, og byrjunarframkvæmdir þegar hafnar. Kostnaðurinn við þessar framkvæmdir er áætlaðar 75–80 millj. kr. að frátöldum leiðslum í bæjarkerfinu. Ef bæjarfélagið eitt ætti að standa undir þessum framkvæmdum, mundi það leiða til annars tveggja, nema þá hvors tveggja, sem trúlegra er: óhæfilega hárra vatnsgjalda og milljónaframlaga úr bæjarsjóði um langt árabil. Hér er þó ekki um að ræða málefni, sem er þannig vaxið, að það sé hægt að kalla það mál bæjarbúa einna. Þarna er um að ræða þýðingarmikinn útflutningsiðnað, sem allir landsmenn eiga mikið undir. Auk þess ber að nefna, að stefna hefur verið mörkuð fyrir nær tveim áratugum með lögum um aðstoð við vatnsveitur um það, að ríkið skuli veita sveitarfélögum fjárhagslega aðstoð í þessum efnum, en framkvæmd þessara laga hefur takmarkazt nokkuð af því, að fjárframlög hafa á ýmsum tímum verið ófullnægjandi til þess að framkvæma þau sem skyldi. Í þessum lögum segir m.a., í 4. gr. laga nr. 53 frá 5. júní 1947: „Styrkur skal því aðeins veittur, að fyrirsjáanlegt sé, að sveitarfélag geti ekki með hæfilegum vatnsskatti staðið straum af stofn- og rekstrarkostnaði veitunnar.“ Af þessu virðist mér eðlilegt að gagnálykta, að lögin séu til þess ætluð að koma í veg fyrir, að óhæfilegir vatnsskattar þurfi að komast á og vatnsveitur að verða sveitarfélögum óhæfileg byrði.

Þetta mál er svo sérstaks eðlis, eins og ég geri ráð fyrir að öllum hv. þm. sé ljóst, að ég hef kosið að hreyfa því hér við þessa umræðu, þó að það sé enn til meðferðar í hv. fjvn., og ég treysti því fyllilega, að hún geri tillögur um þetta efni, sem miði að viðunandi lausn málsins.

Mér þykir rétt að taka það fram, þegar ég nefni þetta mál hér, að í Vestmannaeyjum hefur jafnan verið algjör samstaða allra flokka í þessu máli. Enginn stjórnmálaflokkur hefur gert neina tilraun til þess að eigna sér sérstaklega þetta mál. Á síðasta bæjarstjórnarkjörtímabili vann hv. 3. þm. Sunnl. sem bæjarstjóri að framgangi þessa máls og undirbúningi með fullum stuðningi þáv. minnihlutaflokka, og breyting á þeim vinnubrögðum hefur ekki orðið við breyttan meiri hluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Ég vil leyfa mér að láta í ljós þá von, að sams konar samstaða megi takast um þetta mál hér á hv. Alþingi.

Ég flyt þess vegna ekki neina till. að þessu lútandi við þessa umr. Ég treysti því fyllilega, að hv. fjvn. finni á því viðunandi lausn fyrir 3. umr., þó að ég vildi ekki láta 2. umr. fara hjá án þess að vekja athygli hv. þm. á þessu mikla máli.