14.04.1967
Neðri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og fram kemur í aths. með þessu frv., var það flutt vegna þáltill., sem fram kom í lok síðasta þings og náði þá ekki afgreiðslu. Ég gaf yfirlýsingu um það, að ég mundi láta fram fara þá endurskoðun, sem óskað var eftir, að l. um almannavarnir væru endurskoðuð í því skyni að fella inn í þá löggjöf fyllri ákvæði að því er varðar hættur af völdum náttúruhamfara, svo sem jarðskjálfta, eldgosa og hafíss, sem kynni að loka siglingaleiðum umhverfis land, einstökum höfnum eða svæðum. Þetta hefur verið gert, en flm. þessarar till. á síðasta þingi var Jónas Pétursson, hv. 3. þm. Austf.

Hér var talað um það áðan af hv. þm., sem síðast talaði, 5. landsk. þm., að l. um almannavarnir hefðu ekki nema að litlu leyti komið til framkvæmda. Að svo miklu leyti sem þau hafa ekki komið til framkvæmda, er það náttúrlega á ábyrgð sveitarfélaganna, sem ekki hafa hirt um að setja upp almannavarnanefndir, en það hefur verið gert í Reykjavík. Þá hafa átt sér stað ýmiss konar athuganir og undirbúningur þessara mála, fyrir utan almennan undirbúning, sem átt hefur sér stað á vegum forstöðumanns almannavarna. Eins og kunnugt er, eru í byggingu núna verulegar birgðaskemmur uppi í Mosfellsdal fyrir ýmsar birgðir, sem voru á við og dreif og ekki nægilega tiltækilegar, og einnig hafa farið fram margs konar athuganir á aðvörunarkerfi um allt landið, ef til ófriðar kæmi. Það hafa farið fram kannanir á skýlingu í kjöllurum í Reykjavík, og liggja fyrir um þetta allt saman ýtarlegar skýrslur. Það er þess vegna alveg ástæðulaust af þeim sökum, sem vitnað er til, að fresta nokkuð framkvæmd þessa máls. Um hitt skal ég svo ekkert segja, hvort lögin geti ekki verið betur úr garði gerð og mætti ekki endurskoða þau. Það geta þm. auðvitað tekið til athugunar, eftir því sem þeim sýnist. Það er talað um að gera þessa endurskoðun í samráði við Rauða kross Íslands og Slysavarnafélag Íslands. Það hefur alltaf verið haft samráð við þessa aðila, og þetta frv. var sent báðum þessum aðilum til umsagnar frá Ed., og báðir aðilar lögðu eindregið til, að frv. yrði samþ. Og forstöðumaður Rauða krossins, dr. Jón Sigurðsson, borgarlæknir í Reykjavík, var annar þeirra tveggja manna, sem ég á sínum tíma fékk til þess að undirbúa löggjöfina um almannavarnir. Það er sem sagt ekki meira um þetta af minni hálfu að segja. Ég tel mjög þýðingarmikið, að þetta frv. verði afgr. nú og einnig mjög þýðingarmikið, að við séum ekki svo andvaralausir, einir allra, að láta okkur ekki detta í hug að hafa nokkurn viðbúnað til almannavarna, ef til ófriðar kæmi. Ég vil þess vegna eindregið leggja að hv. þm. að ganga frá þessu máli nú. (Gripið fram í.) Já, ég var nú í Ed. í framsögu og heyrði hana ekki. Það var talað um að leggja fram einhverja skýrslu. (Gripið fram í.) Ég vissi ekki, hvaða skýrsla það var. (RA: Má ég með leyfi forseta endurtaka spurninguna? Ég spurði ráðh. að því, hvort hann vildi ekki leggja fyrir þm. þá skýrslu, sem forstöðumaður almannavarna samdi hér að tilhlutan dómsmrh. og var prentuð í allstóru upplagi, hún mun vera einhvers staðar niður komin.) Það liggur fyrir fjöldi skýrslna um almannavarnir í dómsmrn., og ég skal taka það til athugunar, hverjum þeirra þætti hæfilegt að gera þm. grein fyrir á sínum tíma.