11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

166. mál, Iðnlánasjóður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi, að ég var staðráðinn í því að lýsa minni afstöðu til þessa máls burt séð frá því, hvort hv. 5. þm. Reykv. hefði beint til mín sérstökum orðum eða ekki. En ræða hans gefur kannske tilefni til að fara nokkrum fleiri orðum um þetta mál, því að hann ræddi það með þeim hætti, sem einkennir svo margar ræður þessa hv. þm. Hann lét í það skína, að hann vissi ósköp lítið, hver hefðu orðið afdrif þess frv. um verðjöfnunargjald af veiðarfærum, sem vísað var til sérstakrar veiðarfæranefndar. Þó býst ég við því, að jafn fróðleiksfús maður og hv. 5. þm. Reykv. er og fréttaþyrstur, hljóti að hafa fylgzt með afgreiðslu þessa máls í hinni svokölluðu veiðarfæran., svo að ég býst við því, að hér sé hann að látast og að hann viti betur. Það hefur greinilega komið í ljós, að sjálfsögðu hafa hans flokksmenn í veiðarfæran. engan veginn legið á því frekar en við hinir, að hjá veiðarfæran. fóru fram viðræður við ráðuneytisstjórana, sem stóðu að samningu þessa frv., og forstj. Hampiðjunnar. Að þeim viðræðum loknum kannaði form. veiðarfæran. viðhorf nm. til þessa frv., og kom þá í ljós, að stjórnarandstaðan, ásamt 2. landsk. þm. og mér úr stjórnarliðinu, var andvíg frv. í þeirri mynd, sem það lá fyrir. Þetta veit ég, að hv. 5. þm. Reykv. var vel kunnugt um og þar strandaði málið. Síðan hefur það gerzt, að ríkisstj., sem hefur haldið sér við það að leggja verðjöfnunargjald á veiðarfæri, en ekki haft til þess stuðning ákveðinna þm. úr stjórnarliðinu, og þar er ég meðtalinn, hún tekur til þess ráðs að taka ákveðin veiðarfæri út af frílista og þau eru háð leyfisveitingum eða kvóta. Þegar svo er komið, var mikil óánægja ríkjandi, bæði hjá innflytjendum veiðarfæra og útvegsmönnum almennt. Með því móti kemur einnig skattur, 1/2% leyfisgjald, eða yfirfærslugjald réttara sagt, á veiðarfæri, og við útvegsmenn kröfðumst þess almennt, að þessi veiðarfæri yrðu aftur sett á frílista og ekki háð leyfum. Við það vildi ríkisstj. ekki sætta sig, því að hún hugðist styrkja innlendan veiðarfæraiðnað, sem hv. 5. þm. Reykv. virðist bera mjög fyrir brjósti. Með því að ganga til samninga við ríkisstj., geng ég inn á frv. í þeirri mynd, sem það nú er. Þó að ég sé á engan hátt glaður eða ánægður yfir því að leggja nokkurn veiðarfæraskatt á, sætti ég mig við frv., þar sem fyrir liggur fyrirheit og loforð ríkisstj. um það, að veiðarfærin verði aftur sett á frílista og gjaldið lækkað um helming frá því, sem það var í vetur. Vil ég það heldur en búa við leyfisveitingu á innflutning veiðarfæra. Þetta er í fáum orðum mín afstaða til málsins.

En hún er einnig nokkuð ýtarlegri, því að mál þetta var lagt fyrir stjórnarfund í Landssambandi ísl. útvegsmanna fyrir nokkru síðan. Ég hafði þá ekki tekið endanlega afstöðu til málsins og vildi alls ekki gera það, fyrr en stjórn samtakanna hafði gert það. Þar samþ. stjórnin með öllum atkv. að falla frá mótmælum við 1% innflutningsgjaldi af veiðarfærum, ef öll veiðarfæri yrðu aftur látin á frílista, eins og áður var. Eins og alltaf, þegar menn þurfa að semja um hlutina, fá ekki allir það, sem þeir vilja. Ríkisstj. og meginþorri stjórnarliðsins vildu samþykkja verðjöfnunargjaldið á veiðarfæri eins og það lá fyrir með frv., sem flutt var hér í haust, eða 2%. Við einstakir stjórnarþm. vildum engan skatt á veiðarfærin og lögðumst gegn málinu, þ. á m. ég, sem hafði mig einna mest í frammi við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d. Eftir það, sem hefur síðan gerzt, tel ég skynsamlegra að fallast á samninga, til þess að ríkisstj. falli frá því að láta veiðarfærin vera háð leyfisveitingum og taki þau aftur inn á frílista, þótt það kosti útgerðina nokkuð, þó að ég sé á engan hátt ánægður.

En það er mikill misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv. að halda það, að það sé nóg fyrir ráðh. að taka mann undir vegg, og þegar sé búið að tala við mann undir vegg, eins og hann komst að orði, sé allur vindur úr okkur, og þá segjum við ekki annað en já og amen. Það getur vel verið, að hv. 5. þm. Reykv. sé hlýðinn og auðsveipur við sína húsbændur og sína yfirmenn í Framsfl. og það sé nóg að taka hann undir vegg, þá sé allur vindur úr honum og það getur vel verið, að afstaða hans til mín í þessu tilfelli mótist af þeim þrælsótta, sem hann virðist eiga við að búa og hafi kannske átt við að búa mestan hluta ævinnar, frá því að hann varð fullorðinn maður. En ég ætla að segja hv. 5. þm. Reykv. það í fullri hreinskilni og vinsemd, að þó að maður sé ráðh., ráðuneytisstj. eða opinber embættismaður, beygir hann mig ekki neitt til fylgis við sig, ef ég er á annarri skoðun. Hitt er svo annað mál, að í okkar þjóðfélagi og í lýðræðisþjóðfélögum þurfa menn oft að semja um hlutina. Það þarf að semja í vinnudeilum, það þarf að semja um alla hluti og þá fær enginn maður allt það, sem hann vill, ef á að ganga til samninga og láta hlutina fara friðsamlega fram. Þetta hygg ég, að jafngreindur maður og 5. þm. Reykv. skilji mæta vel, þó að hann láti í annað skína, þegar hann kemur hér í ræðustólinn.

Í sambandi við þá till., sem minni hl. iðnn. flytur um það að verja 50 millj. af tekjuafgangi til iðnaðarins og það, sem hv. ræðumaður sagði varðandi sjávarútveginn, að það væri meira gert fyrir sjávarútveg en iðnað, vil ég engan veginn ganga inn á það, að það sé meira gert fyrir eina atvinnugrein en aðra. Hins vegar verður þessi hv. þm. að gera sér grein fyrir því, að sjávarútvegurinn er með yfir 90% af útflutningsframleiðslu þjóðarinnar. Sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir stórum skakkaföllum á liðnu ári, eða í lok ársins 1966, með gífurlegu verðfalli á helztu tegundum sjávarafurða og til þess að koma til móts við sjávarútveginn, hefur ríkisvaldið orðið að hlaupa undir bagga. Þær eru upp á hvorki meira né minna en 250 millj. kr. skuldbindingar ríkisins, sem það hefur tekið á sig nú í byrjun þessa árs, eingöngu vegna verðfalls á sjávarafurðum erlendis, bæði til að koma til móts við fiskimennina og þá, sem afla bolfiskjarins, með fiskverðshækkuninni, sem ekki var grundvöllur fyrir, vegna þess að það hafði orðið lækkun á sjávarafurðum erlendis og sömuleiðis vegna hinnar miklu lækkunar, sem varð á frysta, fiskinum, og ætlað er, að muni kosta þjóðfélagið um 140 millj. kr., en fiskverðshækkunin um 100 millj kr. Ég tel, að þessar greiðslur séu rétthærri og nauðsynlegri en nokkrar aðrar fyrirgreiðslur við atvinnureksturinn, því að hér snertir það útflutningsatvinnuvegina, og þess vegna hefur verið tekið myndarlega á þessum málum, og það þolir engan samanburð við nokkra aðra starfsgrein í þjóðfélaginu, því að allar aðrar starfsgreinir standa og falla með því, að sjávarútvegurinn fái staðizt og geti gengið með eðlilegum hætti. Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vona, að ég hafi sýnt hv. 5. þm. Reykv. og öðrum hv. þm. fram á það, að mín skoðun í þessu veiðarfæramáli er óbreytt, en það eru samningar, sem hér hafa átt sér stað, sem ég ætla að standa við með því að greiða þessu frv. atkv.