14.04.1967
Efri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

166. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Á öndverðu þingi bar ríkisstj. fram frv. um innflutningsgjald af veiðarfærum eða verðjöfnunargjald, eins og það var kallað, og um það frv. var nokkur ágreiningur í Nd. Þetta frv. er svo fram borið til þess að koma í stað hins fyrra frv., og hef ég leitað samkomulags og samráðs um það við þm. og vænti þess því, að um afgreiðslu þessa máls geti orðið gott samkomulag í þinginu, í þessari hv. d. eins og Nd., m.a. vegna þess, að þó að ágreiningur væri um verðjöfnunargjaldið á veiðarfærunum, þá kom það fram frá þm. úr öllum flokkum, í umr. í Nd.; að menn hefðu allir áhuga fyrir því að styrkja veiðarfæraiðnað í landinu. Nú er málið í því formi, að þar sem áður var gert ráð fyrir, að gjaldið skyldi verða 2% af tollverði hinna innfluttu veiðarfæra, þá er það í þessu frv. lækkað niður í 1%, en að formi til er það líka með öðrum hætti, því að gert er ráð fyrir sérstakri veiðarfæradeild í iðnlánasjóði, og þá er gert ráð fyrir að tekjur þessarar lánadeildar verði þetta 1% gjald og framlög, sem veitt kunna að verða úr ríkissjóði eða á annan hátt, eins og vextir af stofnfé, en stofnfé með þessari deild er tilskilið frá ríkinu skuldabréf Síldarverksmiðja ríkisins, dags. 6. desember 1962, að eftirstöðvum 11,6 millj. kr. Svo er iðnlánasjóði, sem hefur þá með þessi mál að gera, heimilt, með fullu samþykki ríkisstj., að taka allt að 10 millj. kr. lán til starfsemi lánadeildar og veiðarfæraiðnaðar, og er ríkissjóði heimilt að ábyrgjast slík lán. Meginhugsun bak við þetta frv. er ekki eingöngu það að styðja þá einu veiðarfæragerð, sem nú er starfandi hér í landinu, a.m.k svo að nokkru nemi, heldur að reyna að leggja grundvöll að því, að komið verði á fót víðtækari veiðarfæraiðnaði, og þá verði veitt úr þessari lánadeild iðnlánasjóðsins til þess, annaðhvort beinlínis styrkir eða þá lán með mjög hagkvæmum kjörum, eins og fram kemur í þessu frv. Ég vil láta þess getið, að ég hef skipað 4 menn til þess að halda áfram rannsóknum á því, hvaða meginorsakir liggja til þess að veiðarfæraiðnaður hefur átt svo erfitt uppdráttar hér á landi, en blómstrað á sama tíma í ýmsum nálægum löndum, sem við okkur keppa á þessum markaði, t.d. Portúgal, Danmörku o.fl. Fljótt á litið virðist einmitt, að hinn stóri veiðarfæramarkaður hér á landi ætti að gefa okkur betri aðstöðu en á öðrum sviðum iðnaðar til þess að reka hér veigamiklar og sterkar veiðarfæragerðir. Þessir 4 menn eru forstj. Iðnaðarmálastofnunarinnar, deildarstjóri í iðnmrn., fulltrúi frá Fiskifélagi Íslands og frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Í sérstakri nefnd hefur þegar farið fram veruleg athugun á veiðarfæraiðnaði á Íslandi, sögu hans og hvernig honum hefur reitt af, sem hv. þm. er kunnugt um, en ég ætlast til þess, að þessir menn reyni að halda áfram að kynna sér veiðarfæraiðnaðinn í öðrum löndum og leggja þá fyrir, á grundvelli framhaldsrannsókna, þegar tími hefur unnizt til, till. um það, hvort hér séð ráðlegt að hefjast handa í stórum stíl um veiðarfæragerðir til þess að fullnægja markaði okkar Íslendinga að verulegu leyti og e.t.v. svo að við getum orðið þess umkomnir að keppa á erlendum markaði, þessi mikla fiskveiðiþjóð með erlend veiðarfæri, ef svo ber undir. Það er tilgangurinn með störfum þessara manna, og þetta verður þeirra rannsóknarefni í framhaldi af þeim athugunum, sem áður hafa farið fram. Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að vænta afgreiðslu málsins nú, sem vitanlega er orðið nauðsynlegt, þó að komið sé fram á elleftu stundu um þingstörfin, og vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.