17.04.1967
Efri deild: 69. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

166. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hlutans gat um, var hér í upphafi þessa þings lagt fram stjfrv. á þskj. nr. 25, frv. um verðjöfnunargjald á veiðarfærum. Það frv. gerði ráð fyrir því, að lagt yrði á verðjöfnunargjald, 2% af tollverði innfluttra veiðarfæra, sem lagt yrði í sérstakan verðjöfnunarsjóð veíðarfæra og því fé sjóðsins varið til eflingar veiðarfæraiðnaðar í landinu. Það kom strax í ljós við 1. umr. þessa máls í hv. Nd., að þessar hugmyndir um skattlagningu sjávarútvegsins til stuðnings veiðarfæraiðnaðinum mættu mikilli andspyrnu, ekki bara hjá stjórnarandstöðunni, heldur einnig hjá drjúgum hópi áhrifamikilla stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. Því frv. var vísað til sérstakrar n. og hefur ekki þaðan komið. Nú var hins vegar fyrir nokkru lagt fram annað frv. í hv. Nd., það, sem hér er til meðferðar. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að stofnuð sé sérstök deild í iðnlánasjóði til þess að annast það hlutverk að efla og styrkja innlendan veiðarfæraiðnað. Þetta frv. gerir enn ráð fyrir því, að lagt sé gjald á innflutt veiðarfæri, en nú helmingi lægra en í hinu fyrra frv., og auk þess gerir þetta frv. ráð fyrir því, að ríkisstj, leggi þessari starfsemi til skuldabréf, að upphæð 11.6 millj. kr. — Þetta er ekki lagt fram í reiðufé, eins og skilja mátti á máli hv. frsm. meiri hluta, heldur í skuldabréfum og er því ekki handbært um sinn. En eigi að síður er hér að sjálfsögðu um mikla breyt. til batnaðar að ræða frá því, sem var í frv. hið fyrra sinn.

Um það eru ekki skiptar skoðanir, að nauðsynlegt sé að efla og styrkja innlendan veiðarfæraiðnað þannig, að hann geti haldið áfram að starfa í landinu. Það er svo þýðingarmikið, að allir sjá og skilja það, að við, sem byggjum afkomu okkar svo mjög á fiskveiðum, hljótum að sækjast mjög eftir því, að hér í landinu sé starfrækt heilbrigð og eðlileg veiðarfæraframleiðsla. Þess eru dæmi úr sögu liðinna áratuga, að við höfum ekki getað fengið keypt veiðarfæri annars staðar frá, og það var fyrir nokkrum dögum rifjað upp af fiskimálastjóra í viðtali við útvarpið, að á stríðsárunum kom í ljós, hversu nauðsynlegt það er, að hér á landi séu framleidd veiðarfæri. Um það eru þess vegna ekki skiptar skoðanir.

En um leið og það er hugleitt, hvernig staða veiðarfæraiðnaðarins er í landinu nú um þessar mundir, hlýtur mönnum að koma í hug, að fleiri iðngreinar, sem hér starfa við litla tollvernd, eða framleiða hér vörur til útflutnings, eiga við mjög svipaða erfiðleika að etja og veiðarfæragerðir. Þess eru dæmi nú á seinustu árum, að fyrirtæki, sem hafði tekizt að koma vörum sínum á erl. markaði, hafa orðið að hætta útflutningi, vegna þess hvernig framleiðslukostnaðurinn í landinu hefur þróazt á undanförnum árum. Af þessum sökum teljum við í minni hluta n. eðlilegt, en í honum eru ásamt mér hv. 1. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Reykn., að um leið og gerðar eru ráðstafanir til stuðnings veiðarfæraiðnaðinum, sé ekki öðrum iðngreinum gleymt, heldur sé gert ráð fyrir því, að sá sjóður, sem hér er um að ræða, geti haft fleiri hlutverk en það eitt að styðja og efla veiðarfæraiðnaðinn, sem við þó að sjálfsögðu erum sammála um, að sé eðlilegt verkefni hans nú, eins og sakir standa. Við flytjum þess vegna brtt. um það, að stofnaður verði í iðnlánasjóðnum verðtryggingarsjóður iðnaðarins, sem hafi þann tilgang að efla og styrkja iðnað, sem selur framleiðslu sína á erlendum markaði eða keppir án verulegrar tollverndar við erlenda framleiðslu á innlendum markaði. Brtt. gera svo ráð fyrir því, að iðnmrh. setji með reglugerð, að fengnum till. iðnþróunarráðs, nánari ákvæði um starfsemi verðtryggingarsjóðs iðnaðarins. Í reglugerð skuli ákveða, eftir hvaða reglum styrkir og vaxtalaus framlög skuli veitt iðnaðarfyrirtækjum, sem hlut eiga að máli eða til greina koma, og eru þau ákvæði hliðstæð því, sem er í frv., eins og það liggur fyrir.

Við teljum enn fremur óeðlilegt, að þessum sjóði sé aflað tekna með því að leggja gjald á veiðarfæri, gjald sem þannig yrði að borgast af sjávarútveginum, sem þegar býr á flestum sviðum við hallarekstur, af nákvæmlega sömu ástæðum og iðnaðarfyrirtækin eiga í erfiðleikum. Og sjávarútvegurinn er ekki aðeins rekinn með halla á fjölmörgum sviðum, heldur beinlínis haldið gangandi með fjártilfærslum á vegum hins opinbera. Þess vegna teljum við óeðlilegt, að fjár sé aflað með því að skattleggja þennan atvinnuveg, en við teljum eðlilegt, að fjár til þessa sjóðs sé aflað með svipuðum hætti og gert var til verðtryggingarsjóðs hraðfrystiiðnaðarins, með því að leggja honum til fé af greiðsluafgangi ársins 1966 og gerum við till. um það í okkar brtt. Það kom fram í umr. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins hér fyrir páskana, að það var ekki talið óeðlilegt að nota greiðsluafgang til sjóðstofnunar af þessu tagi, þótt hv. alþm. stjórnarflokkanna hafi nú ekki verið hrifnir af því að ráðstafa greiðsluafgangi svona yfirleitt. En hér teljum við, að sé um nokkra hliðstæðu að ræða, sem geri þessa ráðstöfun eðlilega. Mér eru næsta óskiljanleg ummæli hv. frsm. meiri hlutans, sem hann lét falla hér í ræðu sinni áðan, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið, að till. okkar gerðu ráð fyrir að fleyga inn í þetta mál önnur málefni iðnaðarins, sem sýnilega mundu drepa þetta mál. Hér hlýt ég að gefast upp við að skilja hv. frsm. meiri hlutans. Hér leggjum við, eins og í öðrum hliðstæðum málum fram brtt. okkar, sem við teljum eðlilegar, og ef hv. meiri hluti þm. hér í þessari d. treystir sér ekki til að samþykkja þær, sem yrðu mér að vísu vonbrigði, þá væntanlega fellir hann þær, og þá samþykkir hann sitt frv. Ef hv. meiri hluti á hinn bóginn fellst á okkar skoðun, yrði frv. breytt til samræmis við það og hvernig flutningur okkar á þessum till. geti verið fleygur inn í þetta mál til þess að drepa það, er mér alveg óskiljanlegt. Og ef hv. frsm. meiri hlutans vill láta skilja sig, er ég hræddur um að hann þurfi að skýra það sjónarmið eitthvað betur.

Ég legg svo til, herra forseti, að þetta frv. verði samþ. breytt, eins og við leggjum til á þskj. 548.