10.04.1967
Efri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem segir í grg. þessa frv., var skipuð snemma á árinu 1965 n. til þess að endurskoða l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þessi n. hefur síðan starfað að þessum málum, og það er þó sérstaklega nú í vetur, sem hún hefur unnið að endurskoðun l. Það þóttu nokkrar líkur til þess, að n. gæti lokið störfum, þannig að frv. hennar kæmi til kasta Alþingis, og er það ástæðan fyrir því, að þetta frv., sem hér er um að ræða, er svo seint fram komið.

Það hefur hins vegar komið í ljós við umr. um málið í n., að þar eru ýmis veigamikil atriði, sem þarfnast nákvæmrar athugunar, og það hefur tekið alllangan tíma frá beggja hálfu að gera sér grein fyrir því, hvort hægt væri að ná samstöðu um ýmis þeirra atriða.

Loks er rétt að geta þess, að það hefur gerzt í vetur, að allstórir hópar opinberra starfsmanna hafa gengið undan merkjum BSRB, og hafa komið fram mjög ákveðnar kröfur um það frá ýmsum hagsmunahópum, að Bandalag háskólamanna fengi samningsaðild. Það mál út af fyrir sig þarfnast mjög rækilegrar athugunar, vegna þess að þá þarf að gera allmiklu víðtækari breytingar á kerfinu í heild. Hvort úr þessu verður, skal ég engu um spá, en þetta veldur því, að það er útilokað með öllu, að n. geti lokið störfum þannig, að málið í heild geti komið til kasta yfirstandandi Alþingis. Það hefur þess vegna orðið að ráði og samkomulag orðið um það á milli fjmrn. og BSRB að óska eftir því við hið háa Alþingi, að teknir verði út úr þessu vissir þættir málsins og þeir lögfestir nú, þar sem þeir geta með engu móti beðið. Annars vegar eru óskir bandalagsins um það, að frestum verði nokkuð breytt, frá því sem er í kjarasamningalögunum, en eins og hv. þd. er kunnugt, eiga að fara fram nýir kjarasamningar opinberra starfsmanna seint á þessu ári og taka gildi um næstu áramót. Það hefur áður í sambandi við samninga verið breytt frestum, eftir því sem samkomulag hefur orðið um á milli samningsaðila, en það verður hins vegar ekki gert nema með sérstakri breyt. á lögunum. Þetta er annað atriði málsins. Hitt atriðið er ákvæði það til bráðabirgða, sem lagt er til hér að fá lögfestingu Alþingis á, en það er samkomulag á milli fjmrh. og BSRB um það, að nokkrum hluta af kjarasamningamálinu verði frestað fram yfir næstu áramót, þ.e.a.s. til ársloka 1968, og er þar um að ræða flokkun starfsmanna í launaflokka, sem hefur verið mjög mikið vandamál og báðir aðilar eru algerlega sammála um, að brýn nauðsyn sé að taka til rækilegrar endurskoðunar, þannig að það þurfi ekki að vera að hagga því í hvert skipti, sem kjarasamningar eru teknir upp á milli þessara aðila. Það varð að samkomulagi við rn., að fulltrúar frá því og bandalaginu færu til útlanda og kynntu sér, hvernig þessum málum væri fyrir komið í nokkrum löndum, þar sem líklegast var talið, að þetta væri orðið fastast í sniðum, og þetta hefur verið framkvæmt og í samræmi við það samkomulag, sem frv. getur um, hefur ákveðnum aðilum verið falið af beggja hálfu að hefjast handa um þessa endurskoðun. Það er hins vegar ekki ætlunin, að þetta skerði í neinu kjör opinberra starfsmanna, þó að þessu seinki um þetta heila ár eða kunni að fara svo, að því seinki um það langan tíma, vegna þess að þær breyt., sem yrðu á launaflokkum, mundu engu að síður taka gildi frá 1. jan. 1968.

Þetta eru þau tvö atriði, sem hér er óskað lögfestingar á, og eins og ég sagði hefur orðið algjört samkomulag um það á milli fjmrn. og BSRB að taka þau út úr endurskoðun l. sem slíkri, og vænti ég þess, að með hliðsjón af því, að málið er áfram í endurskoðun með samþ. beggja aðila, geti hv. þdm. fallizt á að taka ekki upp önnur atriði málsins á þessu stigi, ekki fyrr en heildarendurskoðunin liggur fyrir og till. þar að lútandi, hvort sem um það verður þá samkomulag eða ekki á því stigi.

Eins og ég sagði, er það alveg nauðsynlegt, að þessar breyt. verði gerðar nú á yfirstandandi .Alþ., en þar sem skammur tími er eftir, vildi ég leyfa mér að beina því til hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún leitist við að hraða því, og vonast því til, að ekki þurfi um það að verða ágreiningur, þar sem hér er samstaða beggja aðila um málið.

Ég orðlengi svo ekki frekar um það, nema tilefni gefist til, herra forseti, en legg til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. fjhn.