10.04.1967
Efri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þar sem þetta frv. er byggt á samkomulagi þeirra aðila, sem hér að standa, ætla ég ekki að hafa neitt sérstaklega á móti því, en ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á, að það verður að teljast mjög óhagkvæmt og óeðlilegt, að það liggi ekki fyrir ákvörðun um kjaramál opinberra starfsmanna, fyrr en 1. des. En skv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að kjaradómur hafi frest til 1. des. 1967 til þess að kveða upp sinn dóm. En það er öllum vitað mál, að ákvörðun um launakjör opinberra starfsmanna hefur afgerandi þýðingu fyrir afgreiðslu fjárlaga. Það er auðséð, að þau verða, þá ekki afgreidd, fyrr en eftir 1. des. Það er nú sök sér, því að afgreiðsla fjárlaga hefur áður dregizt fram yfir þann tíma. En ég vil segja það, að það er ákaflega erfitt að gera sér hugmyndir um afgreiðslu fjárlaga, fyrr en eftir 1. des. — fyrr en ákvörðun um launakjör opinberra starfsmanna liggur fyrir. Á þetta vildi ég aðeins benda og enn fremur benda á það, að í grg. með frv. til 1. um kjarasamninga opinberra starfsmanna var það einmitt flutt fram sem rök fyrir því, hvernig frestirnir eru tilteknir í þeim 1., að það væri nauðsynlegt vegna undirbúnings og samningar fjárlaga, að það lægi fyrir það snemma, sem sagt 1. okt., hver yrðu launakjör starfsmanna ríkisins á næsta ári. Á þetta vildi ég aðeins benda.

Í öðru lagi verð ég að láta í ljós þá skoðun mína, að endurskoðun laganna hafi tekið helzt til langan tíma, þar sem n. er skipuð 10. marz 1965 og hefur ekki enn lokið starfi.

Þá vil ég í þriðja lagi minnast á það, sem hæstv. fjmrh, vék að, þeirri ósk, sem komið hefur fram frá BHM um að fá aðild að kjarasamningum. Ég veit ekki betur en BSRB eða þess stjórn hafi látið í ljós samþ. við þeirri ósk, þannig að það ætti ekki að standa á þeim aðila að veita viðurkenningu á samningsaðild háskólamenntaðra manna. Ég verð að segja, að eins og þessum málum er nú komið, er vissulega ástæða til þess að viðurkenna þá samningsaðild í stað þess að láta skeika að sköpuðu og málin fara fram með þeim hætti, sem gert hefur verið að undanförnu, að það er verið að taka hvern starfshópinn á fætur öðrum út úr og semja við hann sérstaklega. Það er alveg gagnstætt þeirri hugsun, sem lá að baki l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þetta hefur það í för með sér, að nú eru starfskjör háskólamenntaðra manna orðin ákaflega misjöfn, þannig að ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um, að það eina eðlilega, úr því sem komið er, er það að veita BHM aðild að kjarasamningum, og þar sem mér skilst, að heildarsamtökin, BSRB, hafi út af fyrir sig síður en svo við það að athuga, heldur hafi fallizt á það, vænti ég þess, að það muni ekki standa á hinum samningsaðilanum, ríkisstjórninni, að fallast á það að viðurkenna BHM sem samningsaðila, en frá þeim samtökum hefur legið fyrir ákveðin ósk um það að vera viðurkenndur samningsaðili. Sú ósk lá fyrir, þegar frv. að kjarasamningalögum var hér til afgreiðslu í fyrsta sinn, en þá þótti ekki fært að sinna henni, vegna þess að það var talið eðlilegt, að aðeins væri samið við einn aðila.. En eins og raunveruleikinn er orðinn, er búið að þverbrjóta þá meginreglu. Það er búið að taka upp samninga við einstaka starfsmannaflokka, auk þess sem öll sveitarfélögin taka sérstaklega upp samninga við sína starfsmenn. Ég mundi þess vegna gjarnan hafa kosið það, að hæstv. fjmrh. hefði getað talað öllu ákveðnar um afstöðu sína og ríkisstj. til þessa máls. En í öllu falli er þess þó að vænta, að þessi n., sem hefur nú haft 2 ár til síns starfs, muni skila af sér og skila áliti fyrir næsta reglulegt Alþ. og þá verði tekin hrein og bein afstaða til þessarar spurningar, hvort það á ekki að veita BHM samningsaðild.