10.04.1967
Efri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef í rauninni ekkert við það að athuga, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan um þetta mál í einstökum atriðum. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það er auðvitað ekki gott að lengja þessa fresti. Það er hins vegar þannig ástatt, að bandalagið telur útilokað að gera kröfur sínar eins snemma og ætlazt er til skv. l., m. a. vegna þess að það telur líkur til, að það ríki nokkur óvissa fram eftir ári um það, hvernig þróunin verður í þessum efnum á næsta hausti, og þess vegna verði erfitt að byggja kröfugerð upp, eins snemma árs og ætlazt er til skv. l. Ég fyrir mitt leyti hef ekki viljað synja bandalaginu um þessa framlengingu, þó að vel megi segja, að það sé út frá ýmsum sjónarmiðum ekki hyggilegt að veita hana og geti skapað vissa erfiðleika við afgreiðslu fjárlaga að vita ekki nánar um framvindu þessara mála.

Hitt er annað mál, að það eru nú ekki ákaflega miklar líkur til þess, eins og þessi mál hafa þróazt hingað til, að það hefði hvort sem er legið svo ákaflega miklu ljósara fyrir fyrr en þá í nóv. eða svo, hvernig þessu væri háttað, og síðast, þegar breytingar urðu, var þessum málum til lykta leitt álíka seint og hér er gert ráð fyrir, þannig að menn urðu að hafa uppi töluverðar ágizkanir um niðurstöðurnar. Og það var veitt í einu lagi í fjárl. heildarupphæð til að mæta væntanlegum launahækkunum, enda er það snemma gengið frá sundurliðun launa í fjárl. frv. frá einstökum stofnunum, að það væri útilokað, jafnvel þótt hinir fyrri frestir giltu, að það væri hægt að vita nokkuð um það, áður en gengið er frá einstökum fjárlagaliðum, þannig að það verður þá að vera ein heildarupphæð, sem þar kæmi til greina.

Varðandi Bandalag háskólamanna, sem hv. þm. taldi sig hafa orðið fyrir nokkrum vonbrigðum af, að ég gæti ekki lýst nánar skoðun minni á, hvort ætti að veita aðild eða ekki, held ég nú naumast, að hv. þm. telji það neina goðgá, þó að ég vilji ekki gera það, vegna þess að þetta mál er miklu flóknara en svo, og enda þátt stjórn BSRB hafi fyrir sitt leyti ekki viljað setja fótinn fyrir það, að BHM yrði viðurkennt, er málið alls ekki svo einfalt, vegna þess að það eru allar líkur til, að BSRB gæti sundrazt enn meir. Menn gera sér alveg fullkomlega grein fyrir því, hvað kynni að gerast í þessum efnum, og það eru fjölmennir hópar þar, sem segja, að það sé þá full ástæða til, að þeir myndi sín sérstöku samtök. Munurinn á BSRB annars vegar og BHM hins vegar er sá, að í BSRB eru eingöngu starfsmenn þessara aðila, sem eru viðsemjendur, en í BHM er fjöldinn allur af fólki, sem er ekki á neinn hátt tengdur ríkinu, þannig að þessi samtök eru þar af leiðandi mjög mismunandi upp byggð, og það er ekki fyrr en í vetur, sem þessi þróun hefur fyrir alvöru orðið, að fleiri og fleiri félög hafa beinlínis sagt sig undan merkjum BSRB. Fram til þessa hefur þó allverulegur hluti af félögum háskólamanna einnig verið í bandalaginu, og það hafa komið upp í þessum viðræðum um samningana í vetur — sem ég skal einnig fúslega fallast á að hafa tekið óeðlilega langan tíma — ýmis atriði, sem eru þess eðlis, að þau hafa grundvallarþýðingu í því sambandi, hvort á að viðurkenna aðra samningsaðila en BSRB, hvort sem það er BHM eða þá ef til vill fleiri samtök. Og vandinn getur sá orðið í þessu, að þetta verði enn fleiri aðilar, sem komi til með að mynda sín samtök og geti þá gert kröfur um að verða sjálfstæðir samningsaðilar. Það er kannske ekki svo hættulegt, ef það eru bara BSRB — eða það, sem eftir verður af því — og BHM. En það liggur hins vegar ljóst fyrir eftir reynslu í öðrum löndum, að það er mesta ógæfa, ef það verða margir samningsaðilar um kjaramálin og skapar mikla erfiðleika, ef á að halda samræmi. Meðan það er t.d. einn aðili hér, eins og BSRB, þá hafa þeir fallizt á að flokka háskólamenn eftir vissum sjónarmiðum, sem mundu alls ekki lengur vera til staðar, ef þeir væru allir farnir úr BSRB.

Hvort þetta er til góðs eða ills, skal ég ekki um dæma á þessu stígi, en það skýrir kannske nokkuð, að ég vil ekki fara að gefa ákveðnar yfirlýsingar í þessu efni. Ég játa hins vegar, að menn verða að viðurkenna ákveðnar staðreyndir. Og ef það eru heilir hópar ríkisstarfsmanna, sem neita algjörlega að vera aðilar að BSRB og mynda sín eigin samtök, þá er ekki hægt að ganga fram hjá slíku. En einmitt þessi þróun síðustu mánuðina hefur ekki hvað sízt leitt til þess, að það er óumflýjanlegt að doka nokkuð við og sjá, hvernig þetta kemur til með að þróast. Og það hefði verið útilokað að leggja heildarendurskoðun laganna fyrir þingið án þess að taka jafnframt ákvörðun í þessu efni og gera þá upp við sig t.d., hvort menn eru reiðubúnir til að skikka þá alla aðra starfsmenn til að vera í BSRB eða ekki. Það verður erfiðara að gera það, ef búið er að samþykkja, að einn aðili geti klofið sig þarna út úr, sem sagt háskólamenntaðir menn. Er þá hægt að skipa hinum öllum að vera eftir þar, ef þeir óska þess að mynda sín eigin samtök? Ég held, að það verði ekki hjá því komizt, að menn hugsi um það töluvert alvarlega, hvaða afleiðingar það hefði, ef það á að veita a.m.k. almennan rétt, til þess að ríkisstarfsmenn geti bara myndað sín sjálfstæðu félög og orðið sjálfstæðir samningsaðilar einmitt út frá þeirri hugsun, sem ég álit, að sé góð, og óumflýjanlegt sé, að það þurfi að byggja upp heilsteypt launakerfi, og það verður því erfiðara að ná samkomulagi um launaflokkun eftir því sem það verða fleiri aðilar, sem verða gagnaðilar ríkisins við samningaborðið á því sviði. Hitt er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að það þýðir auðvitað ekki að neita staðreyndum, og það kann vel að vera, að þessi samtök háskólamanna fastmótist og verði svo hreinar línur milli þeirra og BSRB, að það verði ekki um þar að ræða annað heldur en eftir atvíkum að viðurkenna tvo samningsaðila. En ég treysti mér ekki á þessu stigi til þess að gefa yfirlýsingu um það og tel það ekki skynsamlegt. Ég segi það eitt, að ég tel sjálfsagt, að málið sé athugað í fullri alvöru og kostgæfni.