11.04.1967
Efri deild: 62. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni áðan, ætti nú ekki að þurfa að vera hér deila á milli mín og hv. 3. þm. Norðurl. v., því að það er í raun og veru auðvelt að leita til bandalagsstjórnarinnar og skera úr þessu. En ég vil a.m.k. ekki trúa því, að hv. 3. þm. Norðurl. v. haldi því fram, að ég hafi verið að segja ósatt frá því, sem gert hefur verið í þessari n. Staðhæfing mín um það, að BSRB hafi ekki samþ. sjálfstæðan samningsrétt til handa BHM, er byggð á því, sem fulltrúar BSRB sögðu í þessari n., sem hefur samið þetta frv. Og mér er ekki kunnugt um það, að afstaða bandalagsins hafi breytzt, en ég skal hins vegar ekkert fullyrða um það. Það er nokkuð síðan þessi n. kom saman síðast, og það getur vel verið, að BSRB eða stjórn þess eða fulltrúaráð hafi skipt um skoðun og hafi nýlega sent frá sér einhverja ályktun, sem hefur farið fram hjá mér. Það þori ég ekki að fullyrða, en ég þori að fullyrða það, og ég á að vita það betur en hv. 3. þm. Norðurl. v., hvað þessir menn sögðu á nefndarfundum, ég held, að það ætti ekki að vera nokkur deila um það. En hvort þeir hafa skipt um skoðun og einhver ályktun komið frá þeim nýlega, sem hefur farið fram hjá mér, þar sem þeir hafa breytt um stefnu, get ég ekki fullyrt, en ég sagði, að mér þætti það ótrúlegt. En hins vegar held ég, að það ætti ekki að vera nokkur vandi að fá hið rétta upplýst í þessu máli innan tíðar.