11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þeir atburðir gerðust í sambandi við framboð til Alþingis við alþingiskosningarnar 11. júní í sumar, að ekki var með ólíkindum, að drægi nokkurn dilk á eftir sér. Er nú og kominn fram eftirmáli þessara atburða, sem óneitanlega varpa nokkuð annarlegum blæ á bardagaaðferðir sumra hv. alþm., og reyndar stjórnmálaflokka, ef hægt er að kalla sum þau samtök, sem svo vilja kenna sig, því nafni.

Eins og alkunnugt er og ekki þarf að fjölyrða um, hafði Alþb. ákveðið framboðslista hér í Reykjavík í samræmi við lög og reglur þessa bandalags, eftir því sem þeir sjálfir skýra frá. Að því búnu gerðist það, og var þó að því sögulegur aðdragandi, sem er á almenningsvitorði og lýsti ekki góðum heimilisbrag innan Alþb., að sjálfur formaður Alþb., Hannibal Valdimarsson, sem kosinn hafði verið formaður á landsfundi samtakanna, býður fram sérstakan lista í Reykjavík, eftir að hafa hætt við áður ákveðið framboð á Vestfjörðum. Hannibal Valdimarsson og hans fylgismenn vilja, að þessi listi sé skoðaður sem einn af tveimur framboðslistum Alþb. í Reykjavík. En fyrir því telja þeir stoð í kosningalögunum, og listinn eigi að merkjast GG-listi, eða hafi átt að merkjast svo, en hinn Alþb.- listinn G-listi. Um þetta verður ágreiningur, sem kunnugt er, en yfirkjörstjórn í Reykjavík úrskurðar svo 12. maí, að listi Hannibals Valdimarssonar skuli teljast utan flokka og skuli merktur listabókstafnum I, og þar við sat. Daginn eftir, 13. maí, heldur landskjörstjórn fund og úrskurðar, að listi Hannibals Valdimarssonar skuli merktur bókstöfunum GG, og haft er eftir form. landskjörstjórnar í ríkisútvarpinu, að hvernig sem yfirkjörstjórn auglýsi listann, leiddi úrskurður landskjörstjórnar til þess, að uppbótarþingsætum yrði úthlutað í samræmi við hann, þannig, að atkvæði, sem greidd yrðu listanum, teldust til lista Alþb.

Látum nú lögfræðilegan ágreining milli þessara kjörstjórna um vafasöm ákvæði kosningalaga liggja á milli hluta. En fram hjá hinu verður með engu móti komizt, að líta á afstöðu þingmannanna og þess svo kallaða stjórnmálaflokks, sem hér eiga hlut að máli. Umboðsmenn lista Alþb. í Reykjavík lögðu fram greinargerð fyrir yfirkjörstjórn um afstöðu Alþb. til merkingar listanna. Og þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Því er haldið hér fram, að stjórnmálaflokkarnir hver um sig sé sjálfstæð persóna að lögum. Það þýðir, að sérhver stjórnmálaflokkur er einn bær að kveða á um það, hver kemur fram á vegum flokksins og hvað er gert í nafni hans. Enginn einstaklingur eða hópur innan eða utan flokksins getur tekið sér vald eða umboð, sem stjórnmálaflokkur hefur ekki gefið honum, til þess að koma fram í nafni flokksins eða lýsá einhverju yfir á ábyrgð flokksins eða bjóða fram fyrir hans hönd. Þetta á sér rætur í grundvallarreglum laga, og er fjarri öllu lagi að beita lögskýringum við óljós lagaákvæði svo, að í bága fari við þessar grundvallarreglur.“

Enn fremur: „Í 27. gr. kosningal. segir, að framboðslista skuli fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda listans um það, fyrir hvern stjórnmálaflokk listinn sé borinn fram. Í 41. gr. kosningalaganna segir, að nú séu fleiri en einn listi í kjöri fyrir sama stjórnmálaflokk og skuli þá merkja þá eins og þar segir. Þeir, sem lagt hafa fram lista Hannibals Valdimarssonar o.fl. við þessar kosningar hér í Reykjavík, krefjast þess,“ segja umboðsmenn Alþb., „að þessi listi þeirra sé úrskurðaður að vera listi Alþb. og merktur GG-listi með þeirri furðulegu röksemd, að túlka beri ákvæði framanritaðrar lagagreinar á þann hátt, að það séu meðmælendur einir, sem geti boðið fram lista fyrir hvaða flokk, sem þeir vilja, án þess að þeir séu í nokkrum tengslum við þann flokk, sem þeir velja að bjóða fram fyrir, og án þess að flokkinn varði nokkuð um það. Þessari lögskýringu er mótmælt sem alrangri.“

Þá segir áfram í grg. umboðsmanna Alþb.listans:

„Því hafa þeir líka haldið fram, að lögskýring þessi byggðist á þeim sjónarmiðum að gefa minni hl. flokkanna, sem óánægðir eru, en ekki vilja segja skilið við flokkinn, tækifæri til þess að koma fram framboði í nafni flokksins. Þótt eitthvað væri til í þessum sjónarmiðum, eiga þau ekki við hér. Níu af meðmælendum lista Hannibals Valdimarssonar hafa skriflega sagt sig úr Alþb. Aðeins 30 af meðmælendahópnum eru meðlimir í Alþb. Þetta eru því utanflokksmenn að langmestu leyti, sem eru að koma fram sprengiframboði gegn Alþb. Rétt skýring á þessum lagaákvæðum er sú, að þau eru heimildarákvæði fyrir stjórnmálaflokk að bera fram fleiri en einn framboðslista í sama kjördæmi, ef flokknum þykir það henta. Þessi ákvæði hreyfa ekki við sjálfstæði flokkanna um framboð sín. Ef stjórnmálaflokkur vill bera fram tvo lista í sama kjördæmi, eins og hefur gerzt á Seyðisfirði og eins og gæti hafa gerzt í Alþb. í Reykjavík, verður það ekki gert nema af þeirri stofnun flokksins, sem er bær að flokkslögum að fjalla um framboð í viðkomandi kjördæmi. Engir aðrir aðilar hafa heimild til að bera fram lista í nafni flokksins.

Hér er mikið álvörumál á ferðinni,“ segir í grg., „og gildir ekki Alþb. eitt. Hér er um að ræða áð brjóta stjórnarskrárbundinn rétt á stjórnmálaflokkum landsins eða ekki. Í 31. gr. stjórnarskrárinnar eiga stjórnmálaflokkarnir rétt á að fá úhlutað 11 þingsætum af 60. Hér er átt við stjórnmálaflokkana sem stofnanir óg persónur að lögum. Ef sá skilningur yrði, mót von okkar,“ segja umboðsmennirnir, „staðfestur af hv. yfirkjörstjórn, sem haldið er fram af umboðsmönnum lista Hannibals Valdimarssonar á hinum umdeildu ákvæðum kosningalaganna, gæti atbeini utanflokksmanna stuðlað að því, að stjórnmálaflokkurinn Alþb. fengi skertan hlut af hinum 11 uppbótarþingsætum. Enginn getur skert þessi stjórnarskrárbundnu réttindi stjórnmálaflokkanna sem slíkra til uppbótarsætanna, ekki einu sinni almenni löggjafinn, hvað þá túlkun á óljósum ákvæðum hans.“

Og hér lýkur þessari tilvitnun í grg. umboðsmanna Alþb., sem er að sjálfsögðu gerð í umboði stjórnar Alþb.

Hér kennir margra grasa í grg. Alþb. og þarf ekki að auka áherzlur þess sjálfs um það, að listi Hannibals Valdimarssonar sé utan flokka og Alþb. algerlega óviðkomandi. Það er talið eiga sér rætur í grundvallarreglum laga, eins og þar stendur, að Hannibalslistinn sé utan flokka og Alþb. óviðkomandi. Aðrar túlkanir eru taldar furðulegar og þeim mótmælt sem alröngum. Um það, ef úrskurðað væri af yfirkjörstjórn, að listi Hannibals Valdimarssonar yrði merktur GG-listi og atkvæðin þá talinn til Alþb. við úthlutun uppbótarþingsæta, segir í grg.: „Hér er um það að ræða að brjóta stjórnarskrárbundinn rétt á stjórnmálaflokkum landsins eða ekki.“

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu niðurlagi grg. Alþb.- manna um merkingu lista Hannibals Valdimarssonar, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef sá skilningur yrði, mót von okkar, staðfestur af hv. yfirkjörstjórn, sem haldið er fram af umboðsmönnum lista Hannibals Valdimarssonar á hinum umdeildu ákvæðum kosningalaganna, gæti atbeini utanflokksmanna stuðlað að því, að stjórnmálaflokkurinn Alþb. fengi skertan hlut af hinum 11 uppbótarþingsætum.“

Þessi skoðun umboðsmanna Alþb. á lista Hannibals Valdimarssonar virðist byggð á þeirri forsendu, að ef listi Hannibals væri úrskurðaður stjórnmálaflokkur við úthlutun uppbótarþingsæta, en ekki utan flokka, eins og þeir vilja telja hann, ætti hann rétt til uppbótarsætis, sem utanflokkalisti á ekki, á móti G-listanum. Þegar útreikna skyldi, hverjir af samanlögðum uppbótarþm. G-listans og GG-listans tilheyrðu hvorum lista um sig, virðast þeir Alþb.-menn sjá hylla undir þau tilvik, að Hannibal Valdimarsson yrði sjálfur eða gæti orðið sjálfur uppbótarþm., ef listi hans félli eða annar maður á hans lista kæmi á undan öðrum manni á G-lista sem uppbótarþm. í því tilfelli, að GG-listinn fengi fleiri atkv. En aðeins má úthluta einum úr sama kjördæmi uppbótarþingsæti, einum uppbótarmanni fyrir hvern lista eða væntanlega tvo lista, ef atkv. þeirra hafa verið talin saman. Þó að ekki liggi í augum uppi þessar röksemdir Alþb.- manna, er þó eitt, sem af þeim er alveg ljóst. Það hvarflar ekki að þeim, að Hannibal sjálfur, þótt listi hans væri merktur GG-listi, gegn kröfu þeirra, gæti með nokkru móti náð kosningu, til þess að fylla þingflokk Alþb. eða eins og þeir orða það, utanflokkamaðurinn, hér Hannibal Valdimarsson, getur ekki tilheyrt stjórnmálaflokknum Alþb. Það er svo sem alveg ljóst að þeirra áliti og um það er ekki sakazt, heldur hitt, að framboð þessa utanflokkamanns geti truflað rétt stjórnmálaflokksins Alþb., sem þeir kalla svo, til uppbótarþingsætis.

Þetta viðhorf til framboðs Hannibals Valdimarssonar er í fullu samræmi við það, sem Þjóðviljinn og ritstjóri hans, Magnús Kjartansson, sem nú á hér sæti, sögðu sí og æ fyrir kosningarnar. Í Þjóðviljanum 9. maí er á forsíðu ritað um þetta með yfirskriftinni „Hannibal segir skilið við Alþb., bregzt kjósendum sínum á Vestfjörðum og undirbýr klofningsframboð í Reykjavík“, en í greininni sjálfri segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þau tíðindi hafa nú gerzt, að Hannibal Valdimarsson hefur yfirgefið Alþb. og hyggst bjóða fram klofningslista gegn því í Reykjavík. Hefur Hannibal unnið að því undanfarna daga að reyna að fá fólk á lista sinn og beitt þeim ósönnu rökum, að klofningslisti hans yrði einnig á vegum Alþb. Þessi klofningslisti verður að sjálfsögðu ekki viðurkenndur of Alþb. Atkv. þau, sem hann kann að fá, falla dauð og ógild og koma engum að gagni nema ríkisstj.- flokkunum. Og þeir, sem taka sæti á klofningslistanum, eru að sjálfsögðu þar með að segja sig úr Alþb.“ Og enn segir í þessari Þjóðviljagrein: „Ástæðan til þess, að Hannibal Valdimarsson hefur sagt skilið við Alþb. er ekki ágreiningur um málefni. Hann hefur ekki talið sig þurfa að marka sérstöðu sína um eitt einasta atriði stjórnmála. Tilefnið er það eitt, að sonur Hannibals, Jón Baldvin, reyndist ekki hafa fylgi til þess á almennum fundi Alþb. í Reykjavík að fá sæti á framboðslistanum. Þetta er eina tilefnið. Eftir þau málalok stofnuðu synir Hannibals og nokkrir aðrir félag ásamt Bergi Sigurbjörnssyni í þeim tilgangi að bjóða fram í Reykjavík. Þessi hópur sannfærðist þó fljótlega um algert vonleysi sitt og því var það þrautalending þeirra Hannibalssona að leita til föður síns og biðja hann ásjár. Hann hefur nú orðið við þeirri beiðni. Verkefni hans í íslenzkum stjórnmálum eru ekki lengur stjórnmál, heldur fjölskyldumál.“ Og enn segir þar: „Hér er ekki um að ræða stjórnmálahreyfingu, ekki fólk, sem lyftir fána nýrra stefnumiða af áhuga og djörfung. Þetta er aðeins sú tegund heimilisböls, sem er þyngri en tárum taki.“

Þjóðviljinn átti margt fleira í pokahorninu fyrir kosningar, sem synd væri að láta með öllu gleymast. Þann 10. maí er í blaðinu forystugrein undir fyrirsögninni „Einn Alþýðubandalagslisti“, og þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Um framboð af hálfu Alþb. eru skýr ákvæði í lögum þess, og ekki mun vefengt, að þeim reglum mun hafa verið fylgt við framboð Alþb. um land allt, að réttir aðilar hafi verið þar að verki og farið að samkv. 1. bandalagsins. Alþb. í Reykjavík minnti á þessar staðreyndir í samþykkt, sem stjórn félagsins gerði í fyrrakvöld, en þar segir:

„Að gefnu tilefni þykir stjórn Alþb. í Reykjavík rétt að taka fram, að Alþb. hefur í samræmi við lög samtakanna á almennum félagsfundi hinn 10. apríl raðað mönnum á framboðslista Alþb., sem birtur hefur verið og borinn verður fram fyrir Alþb. í Reykjavík við alþingiskosningarnar 11. júní 1967. Jafnframt tekur stjórnin fram, að aðrir framboðslistar í kjördæminu eru Alþb. í Reykjavík óviðkomandi og lýsir yfir, að samkv. l. Alþb. getur enginn annar aðili en að framan segir borið fram framboðslista í Reykjavík í nafni Alþb.“

Og í sama leiðara segir einnig:

„Það er því eins ljóst og verða má, að vilji einhver einstaklingur eða hópur manna í Alþb. í Reykjavík ekki una lýðræðislega teknum og lögmætum ákvörðunum um framboð bandalagsins í Reykjavík og hyggist bera fram annan lista ásamt mönnum utan bandalagsins, er slíkur framboðslisti klofningsframboð gegn Alþb. í Reykjavík og því með öllu óviðkomandi. Tilraunir þær, sem gerðar hafa verið til að telja mönnum trú um, að slíkur listi geti einungis með því að kalla sig Alþb.-lista orðið aðnjótandi réttinda og viðurkenningar sem listi Alþb. ásamt hinum lögmæta lista þess, eru í ætt við fáránlegustu sjónhverfingar og blekkingar. Láti einhver kjörstjórn eða stjórnmálaflokkur á Alþ. til leiðast eð samþykkja slíkt, yrðu afleiðingarnar alger ringulreið um framboð. Segja má, að slík heimild, sem misnota mætti af hvers konar klofningshópum og vandræðamönnum, jafngilti því að afnema stjórnmálaflokka á Íslandi, ef hver sem er gæti notað og misnotað nafn þeirra og öðlazt réttindi, sem flokkum eru fengin að lögum, svo sem við úthlutun uppbótarþingsæta til leiðréttingar á þingmannatölu flokka til samræmis við kjörfylgi þeirra.“

Hér lýkur þessari tilvitnun í þessa forystugrein Þjóðviljans.

Herra forseti. Mig grunar, að þessum elskulegu vinum og skoðanabræðrum í svo kölluðum þingflokki Alþb. sé farið að líða nokkuð ónotalega undir því einu að vera minntir á eigin afstöðu og eigin orð, því að nú lítur út fyrir, að þessar kempur ætli að byrja nýtt kjörtímabil með því að éta allt ofan í sig frá upphafi til enda, sem þeir sögðu fyrir kosningar og villtu þá um fyrir kjósendum með. Það nýjasta, sem við höfum haft spurnir af, er það, að þetta margþætta og í sjálfu sér sundurþykka Alþb. hafi fyrir nokkrum dögum efnt til einhvers konar nýrra alþingiskosninga innan fjögurra veggja hér í Reykjavík. Og úrslit þeirra alþingiskosninga hafi verið ákvörðun stjórnar Alþb. í Reykjavík um það, að þessir tíu litlu negrastrákar, þessir elskulegu samherjar, sem eru þó þrátt fyrir eigin mótmæli og afneitanir hver á öðrum með pappíra frá landskjörstjórn upp á vasann, skuli, eins og það er orðað í síðustu samþykkt bræðralagsins, skipa þingflokk Alþb.

En hvað er þá löglegt? kynnu þessir veslings samherjar að spyrja. Erum við þm. eða erum við ekki þm.? Það er eflaust vafamál frá lögfræðilegu sjónarmiði, eins og ráða má af því, hversu mjög kjörstjórnir hefur greint á, þótt skipaðar séu lögfræðingum. Og enda þótt Alþ. sé fengið hið endanlega úrskurðarvald um gildi kjörbréfa, er það eðli málsins samkv. ekki stofnun, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, sem talin væri frá lögfræðilegu sjónarmiði til dómsúrskurðar fallin. En Alþ. getur sett undir þann leka, að vafi leiki áfram á um það, hvernig skilja beri eða framkvæma ákvæði kosningalaga. Þess vegna eru stjórnarflokkarnir ráðnir í því að beita sér fyrir breytingu á kosningalögum í því skyni að girða fyrir, að nokkuð sambærilegt og gerzt hefur, geti endurtekið sig.

Spurningin, sem nú brennur á þeim Alþb.-mönnum, er sú, hvort þeir ætli að gera sig seka um athæfi hér á Alþ., sem þeir sjálfir hafa talið í ætt við fáránlegustu sjónhverfingar og blekkingar. Og enn hafa þeir Alþb.- menn sagt, að léti einhver stjórnmálaflokkur á Alþ. til leiðast að samþykkja slíkt, þ.e. að atkv. lista Hannibals Valdimarssonar teldust til Alþb., yrðu afleiðingarnar alger ringulreið um framboð, og hver vill stuðla að slíku eða ætla þeir einir að gera það? Og hver mundi vilja gera sig sekan hér á Alþ. um athæfi, sem talið er jafngilt því að afnema stjórnmálaflokka á Íslandi? En það er mat Alþb.-manna á því að greiða hér atkv. með kjörbréfi því, sem Steingrímur Pálsson hefur upp á vasann.

Eins og mál þetta er í pottinn búið, hefur það orðið ákvörðun okkar þm. Sjálfstfl. að greiða ekki atkv. um hið umdeilda kjörbréf. Enda þótt svo yrði talið, að úrskurður landskjörstjórnar væri nær réttu og lögfræðilegu og sögulegu mati á hinum umdeildu ákvæðum kosningalaga en niðurstöður yfirkjörstjórnar, kemur hitt þó til, að sjálf kosningin fór fram samkv. úrskurði yfirkjörstjórnar, og það þótt höfð sé í huga auglýsing yfirkjörstjórnar um kjörfund, þar sem getið er ágreinings kjörstjórnanna, og yfirlýsing formanns landskjörstjórnar í ríkisútvarpi um afstöðu þeirrar kjörstjórnar. Þeir einir munu þá væntanlega eigast við í atkvgr. um hið umdeilda kjörbréf Steingríms Pálssonar, nema framsóknarmenn veiti vinum sínum lið, eins og stundum hefur hent áður, sem maklegir eru að merkjast af henni siðferðilega, hvað sem lögskýringum líður, þar sem allt færi saman af hálfu sumra þessara manna, a.m.k. Svik við sjálfa sig, flokksfélaga og kjósendur.