09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Eins og fram hefur verið tekið hér við þessar umr., er frv. til l. um breyt. á l. nr. 51 frá 10. júní 1964 flutt í Ed. skv. ósk stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Efni frv. er aðallega það að skýra ákvæði um aðstöðugjaldastofn í samræmi við þá framkvæmd álagningar skattyfirvalda, sem tíðkazt hefur, og er vitnað þar til nýgengins hæstaréttardóms. Annað efni frv. er, að útsvör verði því aðeins frádráttarbær, ef helmingur þeirra er greiddur fyrir 1. júlí ár hvert og hinn helmingurinn fyrir árslok. Þetta er nýmæli, því að skv. núgildandi ákvæðum eru þau dregin frá tekjum, ef þau eru aðeins greidd að fullu fyrir áramót. Þá fjallar frv. um að samræma álagningu eignaútsvara álagningu eignarskatts og að eignaútsvar verði jafnhátt og eignarskattur. Vegna þeirrar hækkunar, sem nú er áformuð á eignarskatti, er hér um að ræða möguleika á nokkurri tekjuhækkun hjá kaupstöðum og kauptúnahreppum. Þá er einnig ákvæði í þessu frv. um það, að framlengd verði heimild til að víkja frá ákvæðum skattalaga um frádrátt vegna tekna, sem eiginkona aflar, um tapfrádrátt á milli ára, um gjafir til menningarmála o.s.frv.

Við umr. í Ed. kom það í ljós, að þar ríkti ekki eining um málið, og skiptist heilbr.- og félmn. Ed. í fernt og skilaði 4 nál. Á þskj. 370 lítur frv. út, eins og það kemur frá Ed., og þar hefur orðið lítil breyting á 1. gr. frá því, sem upphaflega var lagt til í frv. Þetta mál hefur hér verið til afgreiðslu í hv. félmn., og hafa allmargar breytingar komið fram við frv. Aðalbreytingin og ég held sú eina frá Matthíasi Bjarnasyni er á þskj. 487, og vil ég lýsa því yfir, að þó ég telji, að sveitarfélögin þurfi á meiri tekjum að halda og að þessi nýmæli, sem yrðu tekin upp, mundu skapa þeim nokkuð auknar tekjur, þá sé ég mér ekki fært að fylgja þessu nýja ákvæði á þskj. 370, heldur mun ég stuðla að því, að 9. gr. verði áfram í l. og eins og hún er núna, en þar segir svo: „Aðstöðugjald skal miða við samanlögð rekstrarútgjöld næstliðið almanaksár, þar með taldar fyrningarafskriftir skv. ákvæðum skattalaga, svo og vörukaup verzlana og efniskaup vegna framleiðslu iðnaðarfyrirtækja. — Aldrei skal reikna aðstöðugjald af hærri upphæð en sem nemi brúttótekjum. — Ráðh. getur með reglugerð sett nánari ákvæði um álagningu gjaldsins.“

Þetta ákvæði um innheimtu aðstöðugjalda er búið að vera í gildi frá 1964, og ég vil ekki stuðla að því, að því verði breytt. Hér hefur komið fram í umr. sú skoðun, sem er alveg rétt, að aðstöðugjöldin séu ekki sem heppilegust. Hv. þm. hafa kveðið misjafnlega fast að orði varðandi aðstöðugjöldin, sumir telja þau af og frá og ósanngjörn með öllu, en ég vil bara minna á, að þegar þau voru sett í l., þá var það neyðarúrræði vegna sveitarfélaganna. Þau voru í fjárhagsþörf og það þurfti að leita nýrra úrræða, og þá var ekki hægt að koma auga á annað en þetta. Ég lít svo á, að það sé nauðsynlegt að endurskoða l. um tekjustofna sveitarfélaga fyrr en síðar. Hv. Alþ. hefur á síðastliðnum áratugum öðru hverju verið að samþykkja l., sem hafa íþyngt sveitarsjóðum, aukið á útgjöld þeirra með löggjöf, en hins vegar ekki að sama skapi séð um að afla þeim tekjustofna. Ég hef ekki á takteinum hér ábendingar um nýja tekjustofna, en mér fyndist eðlilegt, að fyrr en seinna yrði kosin eða skipuð mþn. til að rannsaka þessi mál ofan í kjölinn.

Það, sem olli því aðallega, að ég tók hér til máls undir þessum dagskrárlið, er sú brtt., sem hefur komið fram hjá meiri hl. félmn. þessarar hv. d. varðandi 2. gr. frv. eins og það kom frá Ed. og er á þskj. 370. 2. gr. var tekin inn í frv. í hv. Ed., og hún kom ekki frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, heldur varð hún til í Ed., og ég tel hana til bóta í frv., og ég verð að segja það, að ég hef undrazt það, að minni hl. hv, heilbr.- og félmn. skuli leggja til, að prósentutala í 2. gr. verði hækkuð úr 15% í 20%.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, hvernig þessi grein er. Þar segir svo: „15. gr. d orðist svo: Að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga, sem fá ekki nægileg útsvör álögð samkv. 34. gr. Þó er heimilt að greiða aukaframlag til sveitarfélags, þar sem fólksfækkun hefur átt sér stað eða tekjur gjaldenda rýrnað, ef útsvör í sveitarfélaginu eru a.m.k. 15% yfir meðalútsvarsstiga á öllu landinu árið á undan. Meðalútsvarsstigi hvers árs er summan af margfeldi hundraðstölu útsvarsstigans og íbúafjöldans í hverju sveitarfélagi deild með íbúatölu landsmanna 1. des. næsta ár á undan.“

15. gr. l. um tekjustofna sveitarfélaga er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Hlutverk jöfnunarsjóðs er: a. Að greiða framlag til sveitarfélaganna samkv. ákvæðum þessa kafla. b. Að greiða fram úr fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga samkv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga. c. Að leggja út greiðslur þær á milli sveitarfélaga, sem ríkissjóður ber ábyrgð á samkv. framfærslulögunum, þar til þær hafa verið endurgreiddar af því sveitarfélagi, sem þær hafa verið inntar af hendi fyrir. d. — það er greinin, sem um er deilt, — Að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga, sem ekki fá nægileg útsvör álögð samkv. 34. gr.“, en í 34. gr. er kveðið svo á, að „nú kemur í ljós, að útsvör samkv. 32. og 33. gr. laga þessara reynast hærri eða lægri en fjárhagsáætlunin segir til um, og skal þá lækka eða hækka hvert útsvar að réttri tiltölu, unz hinni áætluðu upphæð, að viðbættum 5-10%, er náð. — Hækkun útsvara má þó eigi fara fram úr 20 hundraðshlutum.“

Nú hefur það komið fyrir, að sveitarfélag hefur þurft að leggja á allt að 20% á útsvarsskalann til að ná endunum saman, og það hefur ekki nægt, og þannig hafa þau þá fengið, þessi sveitarfélög, framlag úr jöfnunarsjóði. Það hefur ríkt mjög mikil óánægja með, að það skuli þurfa að leggja allt að 20% ofan á útsvör, áður en til jöfnunarsjóðs komi, og hafa komið fram um það tilmæli frá ákveðnum sveitarfélögum, að þessi prósentutala verði bundin. Nokkrir hafa haldið því fram, að hún ætti ekki að vera nema 5%, aðrir 10, en Ed. hefur fallizt á 15%. Nú vil ég leyfa mér bara að skora á hv. meiri hl. félmn. að taka aftur till. sína, þar sem þeir vilja láta kveða á um, að það verði 20% í staðinn fyrir 15%. Ég held, að sá andi, sem var á bak við samþykktina með jöfnunarsjóðinn, styðji þessa beiðni mína, og ég vona, að þeir endurskoði afstöðu sína og taki hreinlega til baka fyrri brtt. á þskj. 479. Í trausti þess, að þeir muni verða við þessum tilmælum, ætla ég að ræða 3. gr. frv. á þskj. 370 og svo þær næstu. Ég vil ekki orðlengja hér neitt varðandi 3. gr. Þar eru sveitarfélögin að verki, þau eru með því að fá nýmælin, sem þar greinir frá, staðfest, lögfest. Þau eru með því að afla sér rekstursfjár fyrr á árinu, og get ég vel skilið það sjónarmið sveitarfélaganna.

4. gr. er mjög eðlileg. Hún er í framhaldi af því, sem hefur verið samþ. áður varðandi eignarskatt hér á Alþ., og ég tel hana alveg sjálfsagða. Í sambandi við 5. gr. mun ég fylgja brtt. Matthíasar Bjarnasonar á þskj. 487 um, að 5. gr. falli niður, því að ég verð að taka undir það, að mér finnst ekki óeðlilegt, að sama regla eigi að gilda í þessu tilviki um álagningu útsvars og gildir um álagningu tekjuskatts.

Ég vil svo ekki fjölyrða frekar um þetta eða tefja umr. hér, en ég endurtek tilmæli mín til þeirra, sem fluttu hér brtt. við 2. gr., og ég treysti því, að þeir endurskoði afstöðu sína.