09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er kannske bezt að víkja fyrst að gluggunum. Ég hef ekki lesið þessa frásögn í Alþýðublaðinu, en eftir því, sem hv. þm. sagði, þá er ýmislegt við hana að athuga, og ég get sagt það sama og hæstv. samgmrh., ég tel sjálfsagt, að það verði birt grg. um þetta mál, úr því þetta er komið á umræðustig með þessum hætti, þannig að það liggi þá í augum uppi, hvað eru efnisleg rök í málinu. Að öðru leyti skal ég ekki um það ræða, en því miður hefur ekki verið þrætt alveg strengilega það sem rétt er og satt er í efnisatriðum málsins, en við skulum ekki fara út í þá sálma hér. Eins og hv. þm. sagði, er það ekki hér til umr., og skal ég því ekki heldur misnota minn tíma hér til þess að fara að svara í sambandi við þá byggingu, sem ég ræð slíkri ákvörðun um. Ég kannast vel við þetta mál, en ég held, að það sé þægilegast fyrir alla, að það verði tekin saman grg. einnig um það mál og birt opinberlega. Ég vona, að hv. þm. sætti sig við, að það sé eðlileg málsmeðferð.

Varðandi annað atriði, sem hv. þm. spurði um, skattlagningu á bótum almannatrygginga, sem hér hefur verið til umr. á síðasta þingi, þá vil ég taka það fram, að þegar eftir að þingi lauk lét ég gera þá athugun á því máli, sem ég taldi eðlilegasta og var í því fólgin, að ég lét félmrn. taka upp sérstakar viðræður við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um málið og byggði á þeim rökum, sem komu hér fram á Alþ., og þau þskj. voru athuguð, sem höfðu verið lögð hér fram í sambandi við það mál. Það er rétt, að ég lofaði því, að málið yrði tekið til sérstakrar athugunar, en ekki látið bíða heildarendurskoðunar tekjustofnamála sveitarfélaga. Hins vegar lofaði ég engu um ákveðna niðurstöðu í því máli, en það er ekki nema sjálfsagt að það komi fram, úr því að hv. þm. spyr hér að því, að niðurstaða þeirrar athugunar varð mjög neikvæð frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það var andvígt því, að þessi breyting yrði gerð, taldi það með öllu óeðlilegt, að þessi heimild væri í lögunum, það ætti að vera á valdi sveitarfélaganna að meta það. Þetta hefði veruleg áhrif á tekjumál ýmissa sveitarfélaga, og þeir væru því ekki meðmæltir, að slík breyting yrði gerð, og ég hef ekki talið mér sem ráðh. fjármála sveitarfélaga fært að leggja fram till., sem ganga í öfuga átt. Um þetta má vafalaust deila, hvað sé rétt um þessa niðurstöðu, en hún er sem ég greini hér frá. Ég held, að það sé eitt, sem menn verða að gera sér grein fyrir í sambandi við þessi tekjustofnamál sveitarfélaga, sem sýnilega er mjög umdeilt atriði, og það er sú staðreynd, að sveitarfélögin verða auðvitað með einhverjum hætti að ná sínu fé. Það er alveg augljóst mál. Og þegar við setjum um það lög hér á Alþ., þá verða menn að hafa þessa staðreynd í huga. Ef á að veita einhver fríðindi, einhverjum aðilum, hvað sem þeir heita, þá hlýtur það að hafa þá afleiðingu, að teknanna verður aflað einhvers staðar annars staðar og með álögum á aðra. Þetta komumst við ekki hjá að hafa í huga.

Þegar ég lagði það frv. fyrir þingið, sem hér er til umr., gerði ég grein fyrir því, að það hefði verið samið af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, og ég hef talið sjálfsagt að flytja það eftir þeirra beiðni, en að öðru leyti er það ekki ríkisstjórnarmál sem slíkt, enda hef ég gengið út frá því, að sveitarfélögin ættu hér talsmenn úr öllum flokkum og þó þeir væru ekki sammála þá mundi hagur þeirra og hagsmunir eiga skilningi að mæta hjá öllum hv. þm., hvar í flokki sem þeir væru. Það kemur hins vegar í ljós, að skoðanir manna í þessum efnum eru ákaflega skiptar, og ég held það hafi aldrei komið fyrir áður, ekki svo ég muni eftir, að n. hafi fjórklofnað eins og gerðist í Ed. um þetta mál. Hins vegar tel ég, að niðurstaða málsins, eins og hún kom frá Ed., hafi eftir atvikum verið góð og skynsamleg, og það var lögð í það þar mjög mikil vinna af ýmsum aðilum, sem ekki voru allir sömu skoðunar, en töldu rétt að reyna að finna einhverja lausn á þessu vandamáli, og í samráði við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga voru gerðar ýmsar breytingar á upphaflega frv. og því komið í það form, sem ég satt að segja var að vonast til að mundi fá a.m.k. tiltölulega almennan stuðning einnig hér í hv. Nd., þannig að það yrðu ekki gerðar grundvallarbreytingar á málinu eins og það kom frá Ed., því að sannast sagna veit ég ekki, hvernig það fer, ef á að fara að umturna því mjög mikið og Ed. þarf aftur að fara að taka það til meðferðar. Miðað við þá einingu, sem þar ríkti, þykir mér ekki horfa vel með útkomuna í málinu og viss atriði þessa frv. verða undir öllum kringumstæðum að komast fram, og þar á ég fyrst og fremst við ákvörðun um eignaútsvörin, sem enginn ágreiningur varð um í Ed., engin breyting var gerð á því ákvæði.

Inn í frv. í Ed. var svo tekið annað ákvæði, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. minntist hér á og ekki var búið að ljúka athugun á, þegar frv. var horið fram, en félmrn. hafði athugað það sérstaklega, og var það síðan tekið inn í frv. í Ed. Ég skal játa það, að ég tel, að sú till., sem þar var samþykkt, gangi nokkuð langt og geti skapað viss vandræði, sem orsakast af því, að miðað við þá reglu, sem lögð er til grundvallar, mundi álagið á útsvarsstofninn — til þess að komið geti til úthlutunar úr jöfnunarsjóði — ekki þurfa að vera, að því er mér skilst, nema 3–4% miðað við útsvarsskala s.l. árs, sem er auðvitað gerbreyting frá því, sem áður var, og leiðir það af sér, að allmörg fleiri sveitarfélög koma inn undir þetta mark, en af því leiðir svo það, að félmrn. verður að deila þessu niður með öðrum hætti en áður. Og ég er ekki alveg viss um, að þetta séu miklar hagsbætur fyrir sveitarfélögin á Norðurlandi, sem hingað til hafa notið þessa framlags, því að það er visst hámark, eins og hv. þm. vita, sem varið er í þessu skyni, þannig að hendur rn. um úthlutun eru bundnar að þessu marki. En ég mundi álíta, miðað við allar aðstæður og miðað við, hvað þetta er viðkvæmt og erfitt mál, að rétt væri að gera það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. lagði hér til, að hv. n. tæki þessa till. aftur. Hún hefur í rauninni ekki ákaflega mikla efnislega þýðingu, meðan hámark er á þeim hluta tekna jöfnunarsjóðs, sem má ganga til þessara þarfa, og af því að ég er hræddur um, að það hefjist aftur ný orrahríð og deila um þetta í Ed., ef málinu yrði breytt hér, vil ég mæla með því, að svo yrði gert.

Varðandi þá till. að fella niður 1. gr. frv., þá tel ég það heldur óheppilega aðferð. Menn segjast vilja hafa þetta ákvæði eins og það hafi verið. Það getur að vísu ekki orðið eins og það hefur verið, vegna þess að það er búið að kveða upp dóm um það, að sá skilningur, sem allar niðurjöfnunarnefndir hafa haft á þessu ákvæði, sé ekki réttur, þannig að það mun breyta töluvert mikið — það er ekki hægt að segja, hvað víðtækt það verður, — þeim álagningarreglum, sem fylgt hefur verið, einmitt af þessari ástæðu. Það, sem felst í frvgr., sem lagt er til að fella niður, er í rauninni að halda framkvæmd málsins eins og hún hefur verið öll undanfarin ár, þannig að með því að fella gr. burtu eins og lagt er hér til, eru menn að leggja til að taka upp nýja starfshætti í þessu efni. Einnig þetta atriði var mikið til umr. í Ed. Þar komu fram hugmyndir um það sama, að fella gr. niður, en það tókst að bræða saman skoðanir manna nokkuð almennt, einmitt með orðalagi gr., eins og það er, því að það breytir í nokkru gildandi venju, þó að það gangi ekki það langt að taka að fullu til greina þá niðurstöðu, sem komizt var að í umræddum dómi, þannig að ég teldi ekki hyggilega meðferð að fella gr. niður.

Varðandi aðstöðugjöldin þá er það alveg rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér, að þetta er tekjustofn sveitarfélaganna, sem þau hafa talið sér alveg nauðsynlegt að nota, þau þurfa ekki að nota þetta nema að mjög takmörkuðu leyti og þurfa ekki einu sinni að nota það, ef þau ekki vilja, en þau hafa yfirleitt öll og það í vaxandi mæli talið æskilegt að nota þennan gjaldstofn. Og ég er ekki viss um, að það sé til mikilla bóta að fara að breyta þeim reglum, sem um þetta gilda. A.m.k. vildi ég mjög vara við að samþykkja tillögur um að breyta þessum stofni og álagningarreglum, sem um það hafa gilt, án þess að á því hafi farið fram mjög rækileg athugun, hvaða afleiðingar slík breyting kynni að hafa. Og af þeim sökum teldi ég það mjög hæpið að samþykkja þá till., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur hér lagt fram, þó að það séu vissulega ýmis rök í hans máli um það, að um aðstöðugjöldin sem slík má deila, og skal ég ekki fara út í þá sálma, en þau eru nú einu sinni veigamikill þáttur í tekjuöflun sveitarfélaganna.

Varðandi þá síðustu till., sem hér kom fram um bætur almannatrygginganna, hef ég í rauninni ekkert um það að segja annað en það, að það er vafalaust eitt deilumálið, sem þar rís þá upp. Það voru hér síðast mjög skiptar skoðanir um það, hvort það væri sanngjarnt og rétt að undanþiggja almennt bætur almannatrygginga og hvort a.m.k. væri ekki rétt að hafa það á valdi sveitarstjórna, eins og það er. Nú veit ég að vísu ekki, hvað felst í till. hv. þm., hvort undir þetta mundu falla einnig fjölskyldubætur eða ekki. Og ég verð nú að segja a.m.k., að ég tel ákaflega hæpið að láta fjölskyldubætur falla undir þetta undanþáguákvæði. En um þetta verða sjálfsagt hv. þm. að taka sína afstöðu, og eina óskin, sem ég get borið fram hér, er sú, að ég vonast til, að niðurstaðan af málinu verði ekki sú, að þetta frv. verði einhver óskapnaður, því að við þurfum umfram allt að fá niðurstöðu í málinu. Og ég legg áherzlu á, að við þurfum að fá það afgreitt fyrir páska, því að það er að skapast vandræðaástand vegna þess, að óvissan í þessum efnum er farin að tefja starf skattstofanna, þannig að ég vonast til, að hv. d. geti a.m.k. fallizt á að afgreiða frv. fyrir páska. Verði breyt. gerðar hér á því, þarf það að fara til Ed., og væri því mjög nauðsynlegt, að það gæti orðið afgreitt sem skjótast hér í þessari hv. deild.