09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Sunnl. Ég blanda mér auðvitað ekki í það, hvaða skoðun hv. þm. hefur á þessu máli. Ég get haft mína skoðun á því, en hins vegar þegar hann talar um, að það sé verið að breyta grundvallarreglum sveitarfélaganna, finnst mér það nú undarlegt að tala svo. Þegar l. frá 1964 eru sett, eru sett ákvæði til 5 ára fyrir sveitarfélögin, á meðan þau eru að aðlaga sig þessari breytingu, og nú í þessu frv., sem komið er til 3. umr., eru þessi ákvæði framlengd um tvö ár. Ef þetta er grundvallarregla, hvers vegna í ósköpunum eru þessir lagasmiðir þá að halda sér í 4 ár í byrjun og framlengja núna um tvö ár? Því eru þeir þá með þetta? Því hafa þeir ekki bara almenna undanþágu, sem á að gilda? Ég segi fyrir mitt leyti, ég tel ekki óeðlilegt, að það sama gildi við álagningu tekjuskatts og álagningu á tekjuútsvör í sveitarfélögum. Ef það er talið réttlátt, að ríkið veiti heimild til að færa tap á milli ára í 5 ár, hvernig í ósköpunum á þá að sannfæra mig og aðra um, að það sé óréttlátt, þegar það varðar álagningu útsvara? Því í ósköpunum flytja þessir sömu menn þá ekki till. um breytingar á skattalögunum og taka það af, að fyrirtækin megi færa taprekstur á milli ára? Því í ósköpunum er þá ekki haldið áfram að ganga þannig frá fyrirtækjum, að þau séu steindauð á sem skemmstum tíma og það opinbera geti tekið við rekstrinum? Er það réttlæti, að fyrirtæki, sem kannske tapar millj. á s.l. ári, megi ekki færa tapið á milli ára — til þess að standa á núlli eftir tvö ár, þyrfti það að græða 1600 þús. á næsta ári — og bæjarfélagið taki 500 þús. kr. í tekjuútsvar og 100 þús. kr. í kirkjugarðsgjald? Ég segi fyrir mitt leyti, mér finnst vera fullkomin ástæða til, að það sé gerð hér breyting á. Sveitarfélögin hafa haft fjögurra ára aðlögunartíma. Mörg sveitarfélög hafa sem betur fer notað þennan tíma skynsamlega og eru reiðubúin að taka þetta upp, önnur hafa ekkert gert. Og ég tel, að það eigi að gilda nákvæmlega sama, hvort það eru skattar til ríkis eða sveitarfélaga, og þess vegna flyt ég þessa till.