09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér fannst hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Reykv., stilla þessu máli þannig upp, að hann héldi, að það gilti svona nokkurn veginn það sama í þessu tilfelli um bæjarog sveitarfélögin í landinu eins og hann lítur á ríkissjóð. Það er greinilegt, að hann hefur ekki gert sér grein fyrir því, hvað gerist í einu sveitarfélagi, ef það er ákveðið á Alþ. að strika út talsverðan hluta af tekjustofnum sveitarfélags. Veit þessi hv. þm. hvað þá gerist? Sveitarfélögin eru þá skyldug til þess, þau verða að hækka álögur sínar eftir því sem lög leyfa á öðrum gjaldendum. Það er það, sem gerist. Ef það ákvæði er samþ. að draga allverulega úr tekjumöguleikum sveitarfélaga af atvinnurekstri, t.d. rekstri útgerðarfyrirtækja, þannig að þau geti ekki fengið eins miklar tekjur og þau hafa áður fengið eftir þessum leiðum, neyðast þau til þess að hækka álögurnar á almenningi í byggðarlaginu. Sveitarfélögin geta ekki sett lög um nýja tekjustofna sér til handa. Þeirra tekjustofnar eru bundnir með lögum frá Alþ. Það er vel hægt að gera till. um það, að ríkissjóður skuli slaka eitthvað til, því hann getur auðvitað sett lög um það — eða þeir, sem þar ráða — að afla ríkinu tekna eftir öðrum leiðum.

Það, sem hér gerðist, þegar það ákvæði var sett í lög, sem hér hefur verið rætt um, fyrir fjórum árum, var það, að það var verið að reyna að samræma reglurnar um útsvarsálagningu um allt land. Um það leyti hafði einnig verið sett hér ný skattalöggjöf. Þeir, sem stóðu að setningu þessara laga, töldu ekki fært, eins og þá stóðu sakir, að ætla að skerða tekjumöguleika sveitarfélaganna á þann hátt, að sama regla gilti í þessu tilfelli með tapsfrádrátt á milli ára hjá atvinnufyrirtækjum gagnvart útsvarsálagningu eins og gildir gagnvart skattaálagningu til ríkisins. Heldur þessi hv. þm., sem hér var að tala, heldur hann það, að það gildi í öllum greinum sömu reglur um útsvarsálagningu og tekjuskattsálagningu? Vill hann t.d. líta á það, hvernig reglurnar eru um persónufrádrátt í sambandi við álagningu á tekjuskatti til ríkisins og þær reglur, sem gilda um persónufrádrátt við álagningu útsvara? Þar er gífurlegur munur á. Vill hann ekki flytja till. um það líka, að það skuli gilda nákvæmlega sami persónufrádráttur við álagningu útsvara eins og við álagningu tekjuskatts? Það færi þá að verða heldur lítið um tekjurnar hjá mörgum sveitarfélögum á eftir. Þetta er auðvitað afskaplega fallegt, en svona óraunhæfar till. gera ekkert gagn, þær gera menn bara hlægilega, eða sýna það öllu heldur, að þeir vita ekkert um hvað þeir eru að tala í þessum efnum.

Það, sem hér gildir vitanlega í þessu, er það, að það liggur fyrir sú staðreynd, að sveitarfélögin í landinu þurfa að hafa tekjur að vissu marki. Það kæmi fyllilega til mála að mínum dómi að veita sveitarfélögunum í landinu aðra tekjustofna og lækka síðan þessar beinu álögur á einstaklingunum í bæjar- og sveitarfélögunum. Það væri út af fyrir sig ágætt. Það kæmi þá einnig til mála að lækka eitthvað álögur á atvinnufyrirtækjum um leið. En slíkt hefur ekki fengizt fram. Það hafa verið fluttar hér á Alþ. á undanförnum árum m.a. till. um það, að nýir tekjustofnar gætu hér komið til. En á því er auðvitað enginn vafi, að eins og reglur eru nú í sambandi við útgerðarfyrirtæki, búa þau við tiltölulega mjög hagstæð kjör í sambandi við útsvarsálagningu og reyndar skattálagningu líka, enda hafa ekki komið umkvartanir frá þessum aðilum viðvíkjandi þessum reglum. Langflest útgerðarfyrirtæki, sem eitthvað telja, eru hlutafélög. Þau mega leggja í varasjóð 1/5 hluta af sínum hagnaði, sem er með öllu skattfrjáls, og útgerðarfyrirtækin í landinu hafa einnig, flest þeirra, rétt til mjög mikilla afskrifta umfram það, sem almennt gildir í landinu. Það er því enginn vafi á því, að ef útgerðarfyrirtækin fengju það til viðbótar að mega færa taprekstur, þegar hann verður, á milli ára, þá yrðu þau mjög oft algjörlega útsvarsfrjáls, og það er auðvitað enginn vafi á því, að slíkt fyrirkomulag er óeðlilegt í sjálfu sér, jafnvel þó staða útgerðar í landinu geti verið veik. Er það réttmætt út af fyrir sig, þó það sé halli á einni útgerð, að hún hafi þá aðstöðu í einu bæjarfélagi, að hún borgi þá engin gjöld? Ég segi hiklaust nei. Ég álít, að útgjöld sveitarfélaganna í sambandi við atvinnurekstur í bænum séu þannig, að það sé eðlilegt, að atvinnureksturinn verði þar einnig að borga nokkur gjöld. En hins vegar er það alveg rétt, að afkoman hjá fjölmörgum útgerðarfyrirtækjum hefur verið þannig í mörg ár, að það er næstum að segja að deila um keisarans skegg að tala um það, að þau borgi mikið tekjuútsvar, þessi útgerðarfyrirtæki. En það hendir þó sum þeirra, — það hefur komið t.d. fyrir einstaka síldarverksmiðju að þau hafa haft góðan gróða sum árin, og það kæmi sér afar vel fyrir þau að geta verið útsvarsfrjáls um nokkurra ára skeið, vegna þess að þau mættu flytja tapið á milli ára, eins og þau hafa leyfi til gagnvart ríkinu.

Ég tel, að það hafi ekkert gerzt enn þá í sambandi við tekjumöguleika sveitarfélaga frá því sem var, þegar þessi regla var sett, sem réttlæti það að taka af þeim þann rétt, sem þau fengu, þegar þessi regla var ákveðin. Sveitarfélögin hafa ekki fengið nýja tekjustofna og þau þurfa ekki á minni tekjum að halda nú heldur en áður. Það er alveg ábyggilegt, að það mun ekki villa um fyrir neinum, sem þekkir til í þessum málum. Það eru ekkert flatterandi till., ekkert fallegar till. að koma með það, að það sé verið að ívilna þessum aðilum, vegna þess að þetta eru jafnframt till. um það að hækka útsvörin á almenningi í viðkomandi bæjum. Það er það, sem gildir í reyndinni, og ekkert annað. Ég fyrir mitt leyti tek því undir með 3. þm. Sunnl. Ég legg áherzlu á það, að þessi grein verði samþ. eins og hún er, og ég er á móti þeirri till., sem hv. 4. þm. Vestf. flytur. Ég tel, að hún eigi engan rétt á sér, og mín skoðun er sú, að þvert á móti hvíli útsvarsþunginn í flestum sjávarbæjum landsins af svo miklum þunga á almennum launþegum þar, að þar sé ekki á bætandi og að útsvarshluti t.d. útgerðanna sé svo lítill á þessum stöðum, að það sé engin ástæða til þess að ætla að gera hann enn minni. Ef menn vilja rétta útgerð í landinu hjálparhönd, eru aðrar leiðir til þess en þessi. Þær eru margar til og hafa verið lagðar hér til, miklu raunhæfari leiðir til þess að rétta útgerðinni í landinu hjálparhönd. Ég vildi fyrir mitt leyti, að þetta kæmi hér fram, að þetta er mín afstaða alveg hiklaust. Ég vil veita sveitarfélögum þennan sama rétt áfram í sambandi við þeirra tekjumöguleika og þau hafa haft. Ég tel, að ekkert hafi það gerzt í þeirra málum á þessum tíma, sem réttlæti það að skerða raunverulega tekjumöguleika þeirra á þennan hátt, sem þessar brtt. miða að.