09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég er dálítið hissa á því ofurkappi, sem kemur fram, þegar menn eru að mæla móti þeirri till., sem hv. 4. þm. Vestf. hefur flutt. Það hefur m.a.s. gengið svo langt, eins og hv. seinasti ræðumaður gerði, að hann er farinn að mála sauðmeinlausa d. eins og Ed. eins og einhverja Grýlu á vegginn, að ef þessi till. verði samþ. hér, muni það verða til þess, að Ed. fari að stöðva málið. Ég man satt að segja ekki eftir því, að það hafi komið fyrir Ed., og ég held, að þar séu allt of grandvarir og rólegir og gætnir menn til þess, að það sé nokkur hætta á því, að þeir fari að stöðva þetta mál, þó að þessi brtt. verði samþ., og sérstaklega eftir að það er nú komið fram bæði hjá honum og hv. 5. þm. Austf., að í raun og veru skipti þessi till. engu máli. Ég held, að seinasti ræðumaður hafi komizt svo að orði, að þetta hefði ósköp litla þýðingu fyrir atvinnufyrirtæki, hvort þau fengju þennan frádrátt eða ekki, og hinn hv. þm. komst þannig að orði, að þetta væri deila um keisarans skegg, að leggja útsvör á þessi fyrirtæki, en samt hamast þeir svona mikið á móti þessu. Ég verð nú að segja það, að ég er dálítið undrandi yfir framkomu beggja þessara hv. þm. vegna þess, sem áður hefur gerzt hér á Alþ. Við sátum allir hér saman á Alþ. 1964, þegar lög um tekjustofna sveitarfélaga voru samþ., og ég man ekki til þess, að nokkur okkar gerði þá aths. við það ákvæði l., sem nú er um deilt og er að finna í ákvæðum til bráðabirgða. E-liður hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Á árunum 1962 til 1967 er heimilt að víkja frá ákvæðum skattalaga um frádrátt, samkv. l. um tekjuskatt og eignarskatt 3. gr., 11. gr. B, 2. mgr., 12. gr. D, 14. gr. og 17. gr., 2. mgr.

Við vorum þá allir sammála um það, hv. þm., að því er ég bezt veit, að sú heimild til að víkja frá ákvæðum skattalaga um frádrátt, sem hér um ræðir, skyldi aðeins gilda til ársins 1967 og þá skyldi frádráttur til þessara fyrirtækja öðlast fullt gildi. Við gerðum þetta — a.m.k. ég þá og ég býst við margir fleiri — sökum þess, að á þessum tíma var góðæri í landinu og maður gerði sér frekar von um, að svo mundi halda áfram og þess vegna hefði þetta ákvæði lítið að segja. En allir vorum við samt sammála um það þá, ég og hv. 5. þm. Austf. og hv. 3. þm. Vesturl., að þetta ákvæði skyldi vera svona í lögunum, sem sagt, að heimildir til að fella þennan frádrátt niður skyldu verða úr sögu 1967. Og það, sem ég er að gera hér, er ekkert annað en það, að ég vil halda við það og tel óhætt að halda við það, sem við samþykktum á þinginu 1964, og álít, að það sé rétt að framkvæma það.

Þeir töluðu mikið um afkomu sveitarfélaganna og að þetta væri mikið nauðsynjamál fyrir þau að hafa heimild til þess að fella þennan frádrátt niður, þó þeir hins vegar í öðru orðinu segðu, að þetta væri deila um keisarans skegg og skipti engu máli fyrir viðkomandi atvinnufyrirtæki. En ég verð nú að segja þessum hv. þm. það, að þó ég vilji með fullri sanngirni líta á málefni sveitarfélaganna — og ég hef m.a.s. haldið því fram hér, að það ætti að tryggja þeim miklu öruggari tekjustofna heldur en þau hafa nú — get ég ekki orðið þeim sammála um það, að það sé hægt að byggja afkomu sveitarfélaga á svo veikum grunni, að afkoma þeirra eigi að verulegu leyti að byggjast á því að skattleggja fyrirtæki, sem eru rekin með tapi. Ég hef ekki trú á því, að fyrirtæki, sem eru rekin með tapi, geti myndað nokkurn grundvöll að tekjustofnum fyrir sveitarfélög. Það verði að leita að grundvelli að tekjustofnum fyrir sveitarfélögin annars staðar en hjá fyrirtækjum, sem eru rekin með tapi. Og ég held það væri ástæða til þess, að þessir hv. þm. gerðu sér grein fyrir því, hvað gerist, ef gengið er svo á hlut þessara fyrirtækja, sem eru rekin með tapi, með skattaálögum, að þau verði hreinlega að hætta rekstrinum. Hafa þeir gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar það hefur? Hvar eiga sveitarfélögin þá að fá sínar tekjur, þegar búið er að leggja þessi fyrirtæki í rúst? Ég held það verði þá ákaflega erfitt að byggja afkomu sveitarfélaganna á útgerðarfyrirtækjum eða fiskvinnslustöðvum, sem ekki starfa lengur. En við vitum það ákaflega vel, og sérstaklega ætti þó hv. 5. þm. Austf. að vita það, að afkomu margra útgerðarfyrirtækja og margra fiskvinnslustöðva er nú svo komið, að það er spurning um, hvaða dag þau verða að hætta rekstrinum. Og eigum við svo — ég verð að segja það — að vera svo barnalegir hér á Alþ., að við ætlum að byggja afkomu sveitarfélaganna að verulegu leyti á því að skattleggja þessi fyrirtæki eða halda það, að þau geti staðið undir atvinnurekstrinum, tekjustofnum sveitarfélaganna?

Ég held það væri hollt í sambandi við þetta mál, að við gerðum okkur fulla grein fyrir því, á hverju það er, sem afkoma sjávarþorpanna byggist, og afkoma sveitarfélaganna þar. Hún byggist fyrst og fremst á útgerðinni og fiskvinnslustöðvunum á þessum stöðum. Ef það er ekki hægt að halda þessum rekstri uppi, held ég, að það verði ákaflega lítið úr þeim tekjum eða útsvörum, sem sveitarfélögin fá, og þess vegna verðum við að gera okkur grein fyrir því, að það má ekki ganga það hart að þessum atvinnurekstri til viðbótar öllu öðru, að útsvörin yrðu til að stöðva rekstur þeirra.

Það hefur oft verið minnzt á það hér á Alþ. álveg réttilega, að sú hætta, sem kannske er mest yfirvofandi í þjóðfélaginu, er sú, að það geti komið til almenns atvinnuleysis. Ég vona að vísu, að sú hræðsla reynist ástæðulaus, en við verðum samt að hafa opin augun fyrir henni. Og hvað er helzt til varnar gegn atvinnuleysinu? Hvaða ráðstafanir koma helzt til greina? Hv. síðasti ræðumaður minntist á það, að sveitarfélögin sums staðar hefðu þurft að grípa til þess að auka ýmsa atvinnu, sem þau hafa með höndum. Það er gott, svo langt sem það nær. En hvað lengi hafa sveitarfélögin möguleika til þess að rísa undir því? Nei, ég held, að það langsamlega þýðingarmesta, sem nú er hægt að gera til að sporna gegn því, að atvinnuleysi komi hér til sögunnar, sé að búa betur að atvinnurekstrinum í landinu en nú er gert. Ég er ekki í því sambandi að mæla með því, að kaupið sé lækkað og það sé reynt að bæta aðstöðu atvinnurekstrarins á þann hátt, því er ég andvígur. En ég álít, að það eigi að gera allt annað, sem mögulegt er, til þess að bæta aðstöðu atvinnurekstrarins og tryggja, að hann hafi sem bezta aðstöðu, og það álít ég að eigi að gera með ráðstöfunum eins og lækkun vaxta, lækkun á sköttum, auknu lánsfé og öðru þess háttar. Ég tel einmitt, að lækkun skatta sé eitt af þeim ráðum, sem við eigum að grípa til í þessum efnum til þess að bæta aðstöðu atvinnurekstrarins í landinu og tryggja það, að hann verði fær um það að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Og þess vegna er það, sem ég er því fylgjandi, að það verði a.m.k. hætt að skattleggja tapreksturinn og fyrirtækin fái þann frádrátt, sem við ætluðumst til hér á Alþ. 1964, að þau fengju eftir árslok 1967. Við hv. 5. þm. Austf. höfum staðið hér saman að till. á þessu þingi, sem mundi hafa stuðlað að nokkurri kauphækkun, þó ekki meiri en það, að launþegar hefðu nokkurn veginn haldið hlut sínum miðað við það ástand, sem nú er. Og ég tel mér sóma að því að hafa flutt þessa till. með honum. En ég tel það hins vegar því aðeins hafa verið ábyrgt af okkur að flytja þessa till., að við værum reiðubúnir til þess jafnframt að gera það, sem við gætum, til að tryggja sæmilega afkomu atvinnuveganna með öðrum ráðum, t.d. þeim, sem ég hér áðan nefndi, að lækka vexti, bæta lánsfjáraðstöðu þeirra og lækka skatta, eftir því sem hægt er. Ég játa, að með þessari till. er gengið allt of skammt í þá átt. En þetta er þó spor í þá áttina og þess vegna fylgi ég henni.

Ég vil að síðustu brýna það alveg sérstaklega fyrir hv. 5. þm. Austf. og 3. þm. Sunnl., vegna þess að þeir eru fulltrúar fyrir kjördæmi, þar sem sjávarútvegur er mikið stundaður: Hafa þeir mikla trú á því, að útgerðin verði góður tekjustofn fyrir bæjarfélögin, eftir að að henni hefur verið búið eins og gert hefur verið á undanförnum árum, og svo núna, þegar erfiðleikarnir koma, sem stafa af aflabresti og verðfalli, þá sé því bætt ofan á að skattleggja tapreksturinn? Finnst þeim ekki, að það séu komnar nógar byrðar á mörg þessara útgerðarfyrirtækja og fiskvinnslustöðva, þó að því sé nú ekki bætt ofan á að skattleggja tapreksturinn, en það er raunverulega það, sem þeir eru að berjast fyrir með því að vera á móti þessari till. Ég skora þess vegna á þá að endurskoða nú sína afstöðu í þessu máli og líta á það, hvernig afkomu útgerðarinnar er raunverulega komið og sjá þá, hvort þeir sannfærast ekki um það, að hv. 4. þm. Vestf., sem líka er úr byggðarlagi kominn, þar sem sjávarútvegur er mikið stundaður, hafi rétt fyrir sér í þessu máli. Og ég er alveg sannfærður um þá báða, sem ég álít vera greinda menn, að við nánari athugun komist þeir að þessari niðurstöðu og styðji þess vegna þessa tillögu.