09.04.1968
Neðri deild: 96. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að munnhöggvast mikið út af þessu máli, en vil taka það fram út af því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að ég tók það ekki af, að það gæti verið, að aðstöðugjald væri lagt einhvers staðar á áburð. En ég er sannfærður um, að það er lítið um það. Ef slíkur samanburður er gerður eins og hann gerði, þarf líka að gera sér grein fyrir því, hvaða útsvör eru lögð á viðkomandi aðila, því að útsvarsstigarnir í landinu, þrátt fyrir löggjöfina eru mjög mismunandi, þar sem afsláttur er allt upp í 70–80% í sumum byggðarlögum, en viðbót er upp í 20% í öðrum. Þess vegna held ég, að þeir hv. þm., sem vilja fara að binda aðstöðugjöldin í einn bagga, verði líka að gera sér grein fyrir því, að þá muni útsvörin einnig verða bundin í einn bagga, og ég er ekki viss um, að þeir séu að vinna í þeim efnum það gagn, sem þeir ætla, með slíkum tillöguflutningi.

Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér áðan, vil ég taka það fram, að það, sem mestu máli skiptir fyrir atvinnureksturinn á hverjum stað, er, hvernig að honum er búið í byggðarlaginu, hvernig sveitarstjórnin getur búið að útgerðinni um hafnarframkvæmdir og annað. Það skiptir meira máli en þau litlu útsvör, sem útgerðin kann að greiða á stöðunum. Það skiptir meira máli t.d. fyrir útgerðina í Ólafsvík sá kostnaður, sem sveitarstjórnin þar hefur staðið fyrir um hafnarframkvæmdir og bætta aðstöðu í höfninni heldur en þó að þessi útgerðarfélög yrðu einhverjar krónur í sveitarsjóð að greiða, sem þau munu ekki gera, því að flest eru þau með taprekstur. Við erum ekki að ræða um það að leggja á tapið, heldur um það að takmarka, þegar um róða er að ræða, hvernig með hann skuli þá farið. Ég held, að það muni ekki vera það, sem dregur útgerðar- eða atvinnufyrirtækin í landinu, hvernig sveitarstjórnirnar búa að þeim, nema að því leyti, hvernig búið er að þeim í byggðarlaginu í sambandi við hafnaraðstöðu og annað, er máli skiptir. Þess vegna held ég, að við getum sparað okkur allt skraf um það, að við, sem að sveitarstjórnarmálum vinnum, höfum hug á að leggja á tapið. Við höfum hug á því að búa þannig að atvinnufyrirtækjunum í byggðarlaginu, að þau geti starfað. En við höfum heldur ekki hug á því að sækja allar tekjur sveitarsjóða til hins almenna borgara, ef um verulegan hagnað er að ræða af atvinnurekstrinum.